Wednesday, October 26, 2011

Samræðuhópurinn okkar í Versló

Í Versló erum við með smá hóp af kennurum sem hittist reglulega og spjallar um kennslu og menntamál. Hópurinn á rætur sínar í viðleitni til að stunda Starfendarannsóknir saman og svo að efla notkun á samræðum í kennslu. Í sinni nýjustu útfærslu má segja að þetta sé svona spjall /leshringur. Á síðasta fundi vorum við með frábært innlegg frá Söndru Eaton um greinina: What if the secret to Success is Failure?

Greinin fjallar um viðleitni tveggja ólíkra skóla til að innleiða prinsipp úr jákvæðri sálfræði inn í kennsluna, þar sem fókusinn verði á að kenna karakterstyrki fremur en bara námsefni. Farið er ólíkar leiðir í þessu efni og þetta er spennandi, flókið og erfitt viðfangsefni. Það verður stutt í kjánahrollinn þegar talað er um að fara að veita einhverjar viðurkenningar fyrir að sýna áhuga eða vera næs. Hins vegar er það svo að þegar rannsakað er hvað skilar árangri í víðum skilningi er það miklu fremur jákvæðir persónuleikaþættir en árangur á prófum sem skiptir máli. Þegar nemendur meta kennara eru það svo mannlegir þættir sem skipta mun meira máli en tæknilegir eða fræðilegir, og gildir það á öllum skólastigum. 

Þetta er nú ekki stór eða öflugur vettvangur, en þetta er þó viðleitni til að stunda yfirvegun á starfinu og hugleiða hvernig skólinn okkar getur orðið betri. Mér finnst að þátttaka í svona hópum ætti að vera sjálfsagður þáttur í starfi hvers kennara. Ég tel að það eigi að snarminnka tímasókn hjá nemendum og auka tíma sem kennarar verja í að yfirvega starfið og undirbúa sig og stúdera. Ég lít raunar svo á að 'undirbúningur' sé annað og meira en að rifja upp lexíur dagsins, og hef eitthvað þrasað um það annars staðar. Ég tel þannig að unnt væri að ná ýmiss konar árangri í starfi skólanna svona án þess að það þyrfti að kosta einhver ósköp, þetta snýst meira um hugarfar og forgangsröðun. 

Niðurstaðan í gær var að sjálfsagt væri að huga að því að leggja meiri áherslu á að kenna karakter, en, það sé nú líklega þannig að það sé ekki hægt að nota nákvæmlega sömu nálgun á Íslandi og í Bandaríkunum. 

No comments:

Post a Comment