Monday, October 3, 2011

Af afskólun, heimaskólun, Hjallastefnu og skoðanaskiptum 2 (og fjarnámi .. 3?)



Ármann Halldórsson skrifaði þann 24. september 2011 kl. 09:49

Skólar samtímans á Íslandi eru  flottir staðir, þar sem öflugir fagmenn fást við að leiða börn og ungmenni áfram til aukins þroska og gera marga ótrúlega skemmtilega hluti. Það er til sú hugsun í samfélaginu (og hefur alltaf verið) að skólunum fari hnignandi. Kollegar mínir tveir rifjuðu upp latínutíma í MA nýverið þar sem hinni fornlegu 'upptókuaðferð' var beitt, og ótrúlegt en satt viðurkenndi annar þeirra að honum hefði þótt þetta óbærilega leiðinlegt, þó sá sé ekki þekktur fyrir nútímaleg viðhorf í kennslumálum. Slíkar aðferðir og aðrar svipaðar heyra sem betur fer sögunni til.

Ákveðin atriði í sambandi við menntun, einkum eftir því sem börnin verða eldri eru samt áhyggjuefni að mínu mati: 

-Of skýr skil milli námsgreina
-Yfirborðskennd áhersla á aðferðir og staðreyndir á kostnað dýpri skilnings
-Of lítil áhersla á skapandi greinar
-Of lítil hreyfing 
-Of skörp skil milli aldurshópa

... bara nokkur dæmi. Byggingarnar og tímaramminn vinna t.d. á móti okkur. Tónlist ætti að mínu mati að vera hluti af öllu námi á öllum skólastigum, og dans líka, það er vitað að við hugsum með líkamanum. 

Svo held ég líka að það sé alveg hrikalegur misskilningur að binda menntun og skóla við bygginar og strúktúra. Menntun, eins og Dewey sagði einhvern tíma er reynsla, reynsla sem kennari og nemandi deila, og í einhverjum skilingi er hún heilagt fyrirbæri, og alls ekki tæknilegt viðfangsefni.

Afskólunarsinninn Astra Taylor (sjá hér fyrri glósu) átti því láni að fagna að alast upp á heimili með systkinum sínum þar sem fór fram frábær menntun. Ég hugsa nú að (þó hún geri lítið úr því) það séu nú fáir sem búa við slíkt og þess vegna sé þetta í afar fáum tilfellum sniðug lausn. Hins vegar, er internetið geðveikt fyribæri og þar er bæði hægt að meðtaka og skapa út í hið óendanlega. Ég hugsa að í rauninni ætti að vera X tími á dag þar sem nemendur væru bara að brása! Ken Robinson hefur líka bent á svipaða hluti í sínum rómaða TED fyrirlestri., 

http://www.ted.com/talks/lang/eng/ken_robinson_says_schools_kill_creativity.html

Grundvallaratriðið í stórum hluta framsækinnar kennslufræði er að í henni er fólgin trú á nemandann. Allt stundutöflu, skyndiprófa, námsáætlanafarganið byggir á því að kerfið treystir ekki kennurum og kennari treystir ekki nemendum. Öll sú orka sem fer i að vesenast í svindulurum og ritþjófum er skelfileg. Ég hygg að þessi orðræða sé svolítið tengd því sem Pawel er að tala um í grein sinni um tilhneiginguna til að vísa ábyrgð á fórnarlömb umferðarslysa.  

Ég held að 'agavandamál' séu að stórum hluta tilkominn vegna hreyfingarskorts og almennra leiðinda, og í því tilliti tel ég að líkt og ökumenn bera ábyrgð á akstri sínum þá bera kennarar (og skólar) ábyrgð á starfi sínu og eiga að hætta að klína vandamálum sem við getum leyst á saklaus börn og foreldra þeirra. 

Meiri hreyfing, meiri dans, meiri tónlist, meiri heimspeki, meira internet,  og meira af skapandi rannsóknum á umhverfi og samfélagi í staðinn fyrir hangs yfir skruddum með romsum af dauðum hvítum köllum ....

og einhvern veginn passar fjarnámið inn í þetta en það kemur næst....

No comments:

Post a Comment