Saturday, April 27, 2013

Kjarninn

Ég hlustaði einhvern tíma á Ken Robinson með eina af sínum skondnu pælingum (þú hefur heyrt eina, þú hefur heyrt þær flestar) - en þar bar hann saman leikhús og kennslu og rakti kenningar einhvers af spekúlöntum frá heimalandi hans Englandi í þeim málum. Samkvæmt þeirri pælingu þá þarftu í raun tvennt til að hafa leikhús: einn leikara og einn áhorfenda. Allt annað er aukaatriði.

Að breyttu breytenda þarf tvennt til að hafa skóla - kennara og nemenda. Skólabyggingar, fjarnámskerfi, stundatöflur, námsbækur, skólastefnur, kennsluréttindi, próf og námsáætlanir eru aukaatriði. Ég kenni aðallega ensku og ég met það þannig að stefnumót mitt við nemendur þar sem áherslan er að ég hlusti á þau og þau á mig og við vinnum saman í að þroska það dásamlega fyrirbæri sem tungumál er með sjálfum okkur saman gangi þetta best. Gott er að byggja þetta samtal á einhverju góðu stöffi, bókmenntum eða greinum um hin ýmsu mál en það stöff er ekki aðalatriðið - það er breytingin sem verður á nemandum (og kennaranum) sem skiptir máli.

Ég deili þeim ótta með Ken blessuðum að við höfum misst sjónar á þessu og að það sé nákvæmlega stundatafla, áætlanir, próftöflur og allt það dótararí hafi fengið allt of mikla athygli allra hlutaðeigandi (líka kennaranna og nemendanna). Ég tel líka að upplýsingatæknin með öllum sínum dásemdum beri ákveðna ógn við þetta stefnumót í sér - þó að hún bjóði líka upp á góða hluti.

Til viðbótar við leikhústengingu Kens má taka þetta ákveðnum andlegum tökum - þá þannig að öll okkar menning og þmt. skóla- og menntamenning einkennist af mikilli hlutadýrkun - hver býr til flottustu verkefnin, er með lengstu listana og nær að fella flesta er aðalamálið en ekki hversu mikið nám átti sér stað. Eitt einkenni hlutadýrkunarinnar er mælingasýki þannig að þó ég telji mig geta bent á leiðir til að auka nám þá þýðir það ekki að ég vilji bjóða einhverjum mælingameisturum upp í nema mjög takmarkaðan dans.

En alveg burtséð frá einhverjum pælingum um fjársjóði á himnum þá liggur það fyrir að þegar við hittum mannveru og ræðum við hana þá er það sú þekking og færni, gæska og skemmtilegheit sem mætir okkur þá þegar sem skiptir máli. Vitaskuld búum að einhverju leyti að prófunum sem við tókum og námsbókunum sem við þræluðumst í gegnum - en - ég hef þá bjargföstu trú að það séu magn og gæði þeirra samskipti við aðra sem við höfum notið sem við búum fyrst og síðast að.

Eini lærdómurinn sem ég hyggst draga af þessu núna er að til að hafa góða skóla þá er aðalmálið að hafa góða og alskonar kennara. Ég myndi vilja sjá fjölbreytilegri, praktískari og samskiptamiðaðri þjálfun fyrir okkur kennarana og svo myndi ég vilja sjá skóla þar sem mikið rými er fyrir miklar, frjálsar og flæðandi pælingar sem er ekki stöðugt verið að trufla og brjóta upp vegna sjúklegrar mælingaráráttu og skipulagsfíknar samtímans.

Sunday, April 7, 2013

Nej til tvungen heldagsskole!


Í Danmörku er deilt um það áætlun stjórnvalda að skylda nemendur til skólavistar sem samsvarar ca. heilum vinnudegi. Í því felst að fella niður starf frístundaheimili, eða að færa það inn í skólann. Upp hefur risið hreyfing fólks sem hefur mótmælir þessu og vill standa vörð um frítíma barna - eru þar á meðal börnin sjálf, foreldrar og starfsmenn frístundaheimila.

Þó ég viti að danskir skólar séu til fyrirmyndar um margt þá verð ég að segja að ég er sammála þeim sem andmæla þessari ráðstöfun og tel mikilvægt að ekki verði farið í svipaðar áttir hérlendis. Skólinn á sinn tíma og lífið á sinn tíma og frístundaheimili og frístundastarf er mjög mikilvægt og þar nýtur ýmislegt sín sem nýtur sín síður innan skólans.


Monday, April 1, 2013

Ævintýralandið

Ævintýralandið

Ég vil bara hérna aðeins tjá mig um spilið Ævintýralandið sem ég hef tekið nokkra snúninga á með dætrum mínum. Í stuttu máli þá líkar þeirri 7 ára spilið ákaflega vel, en þeirri 11 ára síður. Ég hef líka þá reynslu að sumir krakkar kveikja mjög vel á þessu, en ekki alveg allir.

Í þessu spili er unnið með hugmyndir úr klassískum spunaspilum, þær einfaldaðar og snikkaðar niður til að henta yngri spilurum. Það eru karakterblöð þar sem eru sex eiginleikar sem maður getur raðað á fimm stjörnum í upphafi. Að auki getur maður fengið verkfæri, félaga, furðuhluti og hluti. Spilahópurinn glímir svo saman við ákveðin verkefni/ sögur  og fær að launum peninga - peningarnir koma í staða reynslustiga (XP). Það sem minni sjö ára finnst mest spennandi er að fá að kaupa nýja hluti,  öðrum finnst mest gaman að því að lita karakterana sína og aðrir lifa sig inn í sögurnar.

Kostur við þetta spil er að það er mikill sveigjanleiki, maður losnar við samkeppni (þó ekki alveg, því gæta þarf að því að allir hafi sitt hlutverk í hverri sögu). Annar kostur er að spilið er fallega hannað, teikningarnar eru flottar og það ýtir undir ímyndaraflið.

Gallinn er svo að vissu leyti sá sami og kosturinn - það þarf sterkan stjórnanda í þetta spil, og ég myndi halda að fólk sem er ekki vant spunaspilum grípi þetta ekki alveg - þannig að hætt er við að spilið sitji óhreyft upp í skáp víða (líkt og mörg önnur spil!). Jafnframt finnst mér ekki alveg nógu skýrt hvaða afleiðingar það hefur ef eitthvað misheppnast - það á að skera úr um hvort tiltekin aðgerð heppnast með skæri - blað - steinn (sem er snjallt og kemur í stað teninga) - en afleiðingar þess þegar eitthvað misheppnast eru óljósar og stjórnandinn þarf að leysa það - og það getur dregið úr spennunni ef allt gengur alltaf vel. Svipað vandamál er að karakterarnir eru ekki með neitt sem líkist 'lífi' (eða hp) - en krakkar eru yfirleitt vanir svoleiðis úr tölvuspilum. Ég hef reyndar spunnið upp húsreglur þar sem ég einfaldlega bætti slíku við - og gerði sögurnar aðeins meira krassandi. Það er síðasti vandinn að sögurnar eru sumar hverjar mjög snjallar í grunninn en mér finnst þurfa að poppa þær upp - hækka flækjustigið þannig að allir í hópnum fái eitthvað að sýsla og jafnframt að bæta við einhverjum háska....  það er áhugavert að í verkfærunum eru bogi og örvar og sverð, en eftir því sem ég hef séð þá eru engar sögurnar þannig að í þeim séu bardagar - sem mér finnst alveg óþarflega, tja, væmið eða eitthvað....

Allt um það þá tel ég að hér sé um frábæra íslenska spilahönnun að ræða og ég vona að það komi fleiri svona spil á markað. Ég tel líka að þetta spil eigi fullt erindi inn í skólastofuna og frístundaheimilin þar sem hér er ýtt undir samvinnu og samræður, læsi, tölvísi, rýmisskynjun, leikræna tjáningu og margt annað það sem góð spil geta gert - áfram Ævintýralandið!

Steinskrípin

Steinskrípin

Ég keypti mér og las þessa skemmtilegu bók eftir Gunnar Theódór Eggertsson. Þetta er óvenjuleg saga sem fjallar um baráttu tveggja íslenskra krakka í ansi óhuggulegri framtíð þar sem skrímsli hafa skriðið upp á yfirborð jarðarinnar og umbreytt henni í stein. Skrímslin, eða skrípin, eru ansi erfið viðureignar - og næra sig með því að umbreyta steindum lífverum og borða svo. Bergur er vakinn með þeim hætti, sleppur fyrir ótrúlega tilviljun, hittir svo Hlín og þau takast á hendur ferð í þessum heimi - finna annan og síðan fer allt eins og það fer.

Þetta er áhugaverð og nokkuð kraftmikil saga með mjög háu furðustigi - sérstaklega þegar kemur að endanum og lausn málanna. Mér finnst lausnin kannski í það fríkaðasta, og svona kannski dass af deus ex syndrómi þar, en það má ræða það. Mögulega er líka hægt að segja að lausnin sé pínulítið væmin - og sömuleiðis er umhyggja Hlínar fyrir öllu sem lífsanda dregur - þar með talið skrípunum - áhugaverð, en á köflum ekki alveg trúverðug og allt að því pirrandi ... ég fékk aðeins á tilfinninguna að Gunnar sæti í predíkunarstól á nokkrum stöðum - viðurkenni reyndar að ég er extra viðkvæmur fyrir slíku.

Frásögnin er mjög myndræn - og sérstaklega í endann finnst mér að þetta gæti sómt sér mjög vel sem teiknimyndasaga eða teiknimynd - eða gerð með e-i svona vúdú nútíma tækni - lokabardagarnir væru megakúl í þrívídd!

Ljóst er að hugmyndaheimur sögunnur byggir á e-s konar Lovecraft arfleifð með hugmyndinni um verurnar sem sofa á hafsbotni og bíða síns tíma - en ógnin er kannski ekki jafn svaðaleg og sú hugmynd að skrípin séu bara hluti af jafnvægi náttúrunnar sem er gefin í skyn dregur hugsanlega úr slagkrafti hryllingsins. Ég skil hvað er verið að fara, en ég er það tegundamiðjaður að ef til væri fyrirbæri sem mannkyninu stafar slík ógn af sem þessi skrípi þá myndi mín nálgun á fyrirbærið vera að hér væri um tæra illsku að ræða .... en sú staðreynd að bókin ýtir undir svona hugleiðingar hljóta að vera mikil meðmæli!

Mér sýnist að í þessu verki sé gott jafnvægi í nálgun á hlutverk kynjanna - það sést t.d. á kápunni sem sýnir Hlín í bardagaham - en annars verður sú mynd að teljast fremur misheppnuð.

Mæli hikstalaust með þessari bók fyrir börn og fullorðna sem eru til í að fara inn í furðuvíddir framtíðarinnar undir fararstjórn Gunnars Theódórs Eggertssonar.