Thursday, March 15, 2012

menntun og félagsmiðlar

Ég hef áður tjáð mig um fjarnám og nauðsyn þess að kennari samtímans sé netverji. Ég vil í þessum pósti fagna frumkvæði Ægis Karls Ægissonar sem fékk mig með sér í að ræsa síðuna 'Framhaldsskólakennarinn' á Facebook. Ég geri mér grein fyrir því að margt er gagnrýnivert við félagsmiðla eins og Facebook, en þó hef ég þá skoðun að möguleikarnir sem þeir bjóða eru bókstaflega ótrúlegir. Nú hef ég undanfarið, eins og einhverjir sem fylgjast með hér á blogginu vita, verið að garfa í að læra og komast af stað í Spunaspilum. Nánast allur lærdómur og upplýsingar sem ég hef aflað mér á því sviði hefur farið í gegnum Facebook. Ég hef náð sambandi við reynda Spunaspilara á síðu þeirra (og þau hafa tekið mér alveg ótrúlega vel!) og þannig hef ég náð að læra og skipuleggja viðburði - og þetta er bara rétt að byrja! Ég á mér ákveðna sýn varðandi tengsl samræðunnar og spunaspilanna, en það kemur seinna....

Nú á fyrstu dögum Framhaldsskólakennarans hafa yfir hundrað manns gengið til liðs við okkur, og þegar er hafin þar lífleg umræða um kennsluaðferðir og komnir inn linkar um áhugaverð málefni og viðburði. Þarna geta kennarar sem eru einyrkjar í litlum skólum fundið stuðning, og við sem búum við að þurfa að ræða sömu málin við sama fólkið aftur og aftur og aftur fundið ferska vinda blása....

Ég held að það sé ekki svo að Facebook dragi úr félagslegri virkni og höfði til lágra hvata, heldur býðst í þessum nýja heimi tengsla möguleiki á að læra og kynnast og búa til betri heim. Ég bendi svo fólki á að Twitter hefur líka marga skemmtilega eiginleika og mæli með því að menn prófi það næst....


Saturday, March 10, 2012

kennarar og nemendur og erfðasyndin


Ég held mikið upp á nemendur mína, og hef átt því láni að fagna að kenna miklum fjölda frábærra nemenda, aðallega í Versló, en svo hef ég líka farið í aðra skóla og rekist þar á allt öðruvísi nemendur og þótt það mjög merkileg reynsla. Ég hef líka starfað með ótrúlega fjölbreyttum hópi í fjarnámi, og einstaka nemendur þar hafa markerað sig sem alveg einstaklega eftirminnilegir. Nemendur fara oftlega í taugarnar á mér, með ýmiskonar hyskni og áhugaleysi, en það er hluti af lífinu, og lít á það sem áskorun fyrir mig, skólann og svo líka nemendurna sjálfa að fækka þessum tilvikum - og mín reynsla er að með árunum þá fækkar þeim vissulega .... kannski er ég að vaxa í starfi eða eitthvað svoleiðis væmið....

Ég hef enga þolinmæði gagnvart kollegum mínum sem eru endalaust að skammast og óskapast yfir 'unga fólkinu í dag'. Mér finnst að kennarar sem eiga ekkert eiga nema neikvæðni til i garð nemenda sinna eigi að fá sér annað starf: e.t.v. á elliheimili þar sem það gæti óskapast með gamla fólkinu yfir því hvað allt hafi verið frábært í gamla daga. Annað skylt vandamál er það hvernig sumir háæruverðugir félagar mínir sjá ekki annað en svindl í hverju horni. Svindl er náttúrulega ekki gott - en það kemur aðalverkefni okkar - að mennta og hjálpa fólki að þroskast og dafna fremur lítið við. Kollegar með mikinn áhuga á svindli og slíkum rannsóknum bendi ég á starf við endurskoðun, eða jafnvel iðnaðarnjósnir.

Ég aðhyllist jákvæðan skilning á manneskjunni, en geng ekki út frá því að nemendur séu útsmoginn svindlandi illmenni sem ég berst við eins og ég mynd berjast við skrímsli í tölvuspili. Ég held að kristinn arfleifð erfðasyndarinnar sé ljóslifandi í vitund sumra kennara, og ég held að sú arfleifð sé skaðleg - og ég held að hún smiti yfir í vitund nemenda sem fara þá að akta sig sem útsmoginn svindlandi illmenni....

Just sayin'.

Sunday, March 4, 2012

Firrtir á Facebook - nemendur nútímans

Í liðinni viku var viðtal við einn af mínum helstu mentorum í menntamálum, Guðrúnu Geirsdóttur komst í umræðuna í síðustu viku vegna viðtals í morgunútvarpi í tilefni fyrirlesturs sem hún hélt um Háskólanema nútímans. Voru margir kollegar mínir kampakátir yfir þessu og var innihald málflutnings hennar túlkaðar á þá vegu að nemendur nú til dags væru óalandi, yfirborðskenndir, dekraðir og grunnhyggnir. Lykilatriði í skilningi (margra) kennara á nemendum sínum er að þeir séu umtalsvert hysknari (er það ekki örugglega með ypsilon?) en nemendur voru fyrir bara örfáum árum síðan.

Ég hlustaði á viðtalið, missti því miður af fyrirlestrinum, en Guðrún sendi mér svo tengil á grein eftir fræðikonuna Sarah J. Mann sem má lesa hér og fékk ég þannig endanlega staðfestingu á að þetta var nú kannski heldur einhliða túlkun á máli hennar - og að þetta er miklu dýpri (og þar af leiðandi áhugaverðari) pæling en frumtúlkun benti til.

Mann leggur hugmyndina um firringu til grundvallar greiningar á veruleika háskólanema í grunnnámi, og sækir skilning sinn á hugtakinu jafnt til sálgreiningar og marxisma. Hún er ekki að pæla í Facebook, enda er greinin frá 2001, og ljóst má vera að pælingar um nemendur á Facebook á fyrirlestrum og vælandi um glærur á netsíður áfanga hlýtur að vera einkenni á einhverju djúpstæðara. Það þarf ekki að skoða þessi mál lengi til að sjá að þau einkenni sem lýst er hjá háskólanemum eiga vel við um framhaldsskólanema líka - sumt í jafnvel enn ríkari mæli, annað kannski síður.

Mér sýnist að í greiningu Mann og tillögum hennar að lausnum sé gríðarlega spennandi hráefni sem ég þarf að melta og greina betur. Hér vil ég nefna hugmyndir hennar um nálgun nemenda á nám sitt. Í stað þess að hafa e.k. heildræna og djúpa nálgun á nám sitt þá hafi nemendur tileinkað sér yfirborðskennda nálgun (áherslu á staðreyndir og utanaðbókarlærdóm) og taktíska nálgun (áherslu á að ná því sem væri á prófum til að hámarka einkunnir). Afleiðingin af þessu er að þeir verða firrtir veruleika námsins, þeir skauta framhjá því að nálgast hlutina persónulega og forðast að fara á dýptina. Ég myndi vilja gerast nokkuð grófur og varpa því fram að kannski gildi eitthvað svipað um hluta af kennurum, og þá kannski fremur í framhaldsskólum en háskólum. Þá erum við með þá stöðu að kennarar eru firrtir og svo nemendur enn firrtari.... bara pæling.....Framhaldsskólinn líður líka fyrir að vera litla systkini háskólanna, þannig að allt sem þar gerist vísar alltaf fram á við og skiptir í raun ekki máli nema sem inngangsmiði í himnaríki háskólann - firringin er þannig í innbyggð í allt okkar starf....

Firring af þessu tagi leiðir til óöryggis og kulnunar hjá kennurum - og birtist í áhuga- og agaleysi hjá nemendum. Lausnin felst ekki í fleiri boðum og bönnum heldur í grundvallandi hugarfarsbreytingu - og líkt og Mann bendir á þá hljóta allar raunverulegar lausnir á þessu vandamáli að vera rótttækar.

Við spáum í þetta....