Tuesday, October 4, 2011

Ármann um ármannsraunir (við erum hráir og hressir)

Nýlegur pistill Ármanns MS hefur vakið athygli og er hugmynd mín að spökúlera aðeins í hans spökulasjónum. Hann hefur tileinkað sér 'hrátt en hresst' stíl og ber að virða það við hann. Linkur á pistil hans er hér

Ég ætla að taka út nokkrar efnisgreinar og skoða þær í rólegheitunum.

Ég hafði einu sinni áhuga á náminu, ég skaraði framúr námslega, fannst þetta allt of auðvelt, eins og að þetta væri ekki nægilega krefjandi, ég mætti samt alltaf í skólann og í tíma, þangað til að ég fór í menntaskóla og fór að vinna og taka þátt í félagsmálum. Félagsmálin hafa kennt mér margt, samvinnu í hópum, stjórnunarhæfileika, samskipti við yfirmenn og margt fleira, allt eru þetta hlutir sem skólinn á að kenna okkur en er hann að því? Lítum á stöðuna í skólanum sem ég er í núna, ég mæti í skólann (oftast) fer inn í stofu og spjalla við vin minn, sef, hlusta á stelpurnar bak við mig syngja og enginn hlustar á kennarann. Þetta er held ég ekki út af því að við viljum ekki læra, miklu frekar út af því að við höfum komist upp með þetta of lengi og að kennarinn beitir aðferðum sem voru notaðar á 19. Öld.

Nokkuð stórkallalegar yfirlýsingar, og svona hugsanlega í drýldnari kantinum. Látum það vera.  Lýsingin á kennslustund þar sem hann spjallar, sefur og stelpur syngja er áhugaverð. Enginn hlustar á kennarann sem notar aðferðir frá 19. öld. Ég velti fyrir mér hvort kennarinn sé kannski að nota PowerPoint, sem var uppfundið á ofanverðri 20. öld. Þessi fremur sorglega staða mála þar sem hóað er saman 20-30 ungmennum með það að markmiði að gera eitthvað tiltekið saman, en þau velja að gera eitthvað allt annað er óþægilega kunnugleg og alls ekki bundið við skóla ármanns. Ég reyndar leyfi mér að stórefast um að allar kennslustundir séu svona, en við skulum samt álykta að þær séu allt allt of margar. Ég hef reyndar þá reynslu að ekki sé nóg að kenna úreltum kennsluaðferðum um - nemendur geta verið lifandi og áhugasamir í hundgamaldags töflukennslutíma, og algjörlega grautfúlir og latir í ofurnútímalegum-fjölmenningar-tölvusamskipta-prjójekt tíma.  Ég held reyndar að það sé nú einmitt þannig að nemendur 'vilja ekki læra' .... en .... það er í þessu sambandi mín frekar gamaldags skoðun að það sé áhugi, uppfinningasemi og eldmóður kennarans sem, þegar vel tekst til, getur lokkað nemendur til að gleyma því að þeir 'vilja ekki læra'.



Af hverju erum við að rembast við að koma þessum skólalærdómi í okkur þegar við höfum aðgengi að honum nú þegar. Ég styð grunnmenntun og allt það en svona án gríns, skólinn er farinn að hamla mér í því að læra, skyldulærdómur á borð við þýsku, jarðfræði, eðlisfræði og fleiri fög sem ég er þvingaður af skólakerfinu eru farin að hamla fróðleiksfýsi minni. Ég er búinn að vera í þýsku í 3 ár og fattaði það eftir fyrsta árið að ég var ekki að fíla hana og vildi læra spænsku því að ég kunni betur við málið, fór oftar þangað og var með grunn, en ég mátti það ekki því að ég var búinn með eitt ár. Mig langaði meira að segja alltaf í spænsku en hún var bara ekki í boði.

Ég held að hér sé ágætis punktur, það er of mikið af upplýsingum sem er þvingað upp á fólk. Reyndar hefði þetta vandamál með málin ekki komið upp í áfangaskóla, svo þetta er nú ekki vandi 'skólakerfisins'. Ég held reyndar að það sé mjög mikilvægt að fólk hafi grunnþekkingu á náttúruvísindum og að vanþekking á þeim, ákveðinn skortur á vísindalæsi sé vandamál, vísindin eru of mikilvæg til að eftirláta þau vísindamönnunum. Hér held ég að grundvallaratriðið sé í hvernig við nálgumst vísindalega þekkingu; hvað er kennt og hvernig. Ég hef þá skoðun að ákveðin 'hands on' nálgun sé mikilvægust - að opna augu nemenda fyrir því hvernig vísindin eru að verki allt í kringum okkur. Skólalærdómur í þessum greinum, og reyndar öllum öðrum, á það til að skorpna upp og úreldast í sömu gömlu skruddunum og glærusjóunum sem eru upp hafin yfir syngjandi og sofandi nemendum ár eftir ár.

Ég eyddi allri grunnskólagöngunni minni í það að bora í nefið og þegar í framhaldskóla var komið sá ég ekki tilganginn lengur, við erum að fara alltof hægt á öld þar sem allt hreyfist of hratt. Grunnskóla nám er svona án gríns, ég lofa þér því 2 árum of langt. Framhaldskólanám er ekki nægilega sérhæft og líka of langt.


Það má nú aðeins djóka með þetta; var horinn bara orðinn svona yfirþyrmandi rosalegur, eða afhverju missti þetta mikilvæga nefborunaratferli allt í einu tilgang sinn? Ég held einmitt að skólinn sé of stuttur, og að það sé allt of mikið námsefni sem er farið allt of grunnt í. Ég held líka að framhaldsskólanámið sé of sérhæft, og þá einkum og sérílagi í því tilliti að það eru alltof skörp skil á milli greina. Ég held að sú vaxandi firring sem nemendur finna fyrir á seinni árum grunnskóla og upp í framhaldsskóla liggi í því að greinamúrarnir eru of háir og nemendur missa tilfinningu fyrir því að menntun sé einhvers konar heildstætt ferli. Hér er það okkar kennaranna að minna í sífellu á tengingar við það sem félagar okkar eru að gera í öðrum greinum, en það vill gleymast. Í bekkjarkerfi tel ég að teymi kennara úr mörgum greinum ættu að vera grunneiningin, í stað þess að það séu alltaf kennarar sömu greinar sem mynda grunneiningar - þetta held ég gæti gert skólann meira menntandi og milda skólaleiðann sem er greinilega mikið vandamál.

 síðastliðin ár hefur öllum verið ýtt í bóknám HVAÐ ER SVONA ÁN GRÍNS MÁLIÐ MEÐ ÞAÐ, hvað með strákinn sem hefur gífurlegan áhuga á að fara í rafvirkjann, AFHVERJU á hann að taka stúdentspróf fyrst því að kannski fílar hann ekki rafvirkjann og þá er alltaf gott að vera með stúdentspróf.... EF HANN FÍLAR EKKI RAFVIRKJANN þá getur hann alltaf tekið stúdentspróf. Sama má segja um Siggu fótboltastelpu, Nonna leikara, Sigga söngvara.




Þessi hefðbundna skoðun sem hér kemur fram lýsir fremur einfeldningslegri sýn á manneðlið. Ég held að rafvirkinn, fótboltastelpan, leikarinn og söngvarinn séu öll miklu miklu meira en kemur fram í þessum sterku sviðum hjá þeim. Ég er tam. ekki mikill söng- eða íþróttamaður en ég harma það, og harma það mjög, að ég var ekki í tónlistartímum í framhaldsskóla... eða dans. Ég hefði verið hundfúll með það kannski, en hugsanlega hefði hinn frábæri kennari sem ég hefði haft lokkað eitthvað nýtt og óvænt fram í mér.... Ég held að það væri sorglegur heimur þar sem bara þeir sem ákveðið hefur verið að séu tónelskir fengju tónlistarkennslu og bara þeir sem eru reikningshausar lærðu stærðfræði - og svo finnst mér afdráttalaust að allir nemendur á öllum skólastigum eigi að hafa e.k. hreyfingu og íþróttir sem hluta af námi sínu. Ég hugsa reyndar að við ármenn gætum sammælst um þetta, og ég myndi glaður fórna einhverju af bóknámsgreinunum til að koma söng, dansi og myndlist að í miklu miklu ríkari mæli í framhaldsskóla, og nota bene ekki bara sem eitthvað skraut og dúlleríi fyrir útvalda heldur skyldu yfir línuna, ásamt með íslensku, ensku, tungumálum o.þ.h. Sérhæfingin í samfélaginu er allt of mikil og það á alls ekki að auka hana í framhaldsskólum. Alls ekki.




Og svo held ég að það ætti að taka menn sem eru svona rosalega mikið við skjáin og láta þá lesa teksta af blaði í hálftíma á viku undir eftirliti - auk þess að senda þá út að hlaupa og hugsanlega í sjósund...


Hvert er svarið: Fyrst og síðast að mennta og símennta og uppfæra kennarana til að verða betri í að nota alskyns nýstárlegar og gamaldags aðferðir til að lokka nemendur með sér í óendanlega spennandi ferð inn í veröld viskunnar og fræðanna, hleypa skapandi greinum að (og kannski smá heimspeki, sem ég er nú alveg sammála að megi kenna meira af, fjármál getur maður bara lært sjálfur) .... og svo eigum við nemendur og kennarar að taka höndum saman um að gera skólanna að mögnuðum og ólgandi lærdómssamfélögum sem heimurinn og sagan munu líta til og segja - sjá til hvað þetta skrýtna fólk á heimsskautsbaug getur!


No comments:

Post a Comment