Friday, April 13, 2018

KÍ þing 2018 - nokkrar pælingar

Jæja, þá er fulltrúi 109 á ársþingi KÍ 2018, fulltrúi félagsdeildar VÍ í FF kominn heim eftir vægast sagt áhugaverða daga við þingstörf.

Ég ætla hér, í hráu og hressu máli að láta vaða nokkrar hugleiðingar um þingið.... ég ætla ekki að deila því inn á ákveðna félagsmiðla því ég nenni eiginlega ekki að fá þann væna skammt af svívirðingum innblásnum af heift sem myndu fylgja því. Fæ gusuna líklega samt en ég vil samt ekki alveg snarþagna bara út af því.

Það er mikilvægur lærdómur í því hvernig félagsstarf og lýðræði virkar að taka þátt í svona þing. Lýðræði og félagsstarf er þolinmæðisvinna og það reyndi vel á það. Jafnframt er það líka þannig að þetta virkar:
-mál er lagt fram
-nefnd rýnir það
-fulltrúar fá að ræða og lagfæra....

Það var reyndar áhugavert að sum mál sem að mínu mati eru ekki stórvægileg fengu mun meiri umfjöllun en önnur, t.d. kjaramálin, en það er nú bara eðli lýðræðisins og ekki mitt að dæmi ;-)

Atriði sem koma frá nefndum eru oftast gagnleg og svo koma ábendingar annarra fulltrúa oft inn með þeim hætti að hlutir eru færðir til betri vegar og hugsanlega misskilningur leiðréttur o.s.frv. Atriði sem ég velti þó fyrir mér er hvort það ættu að vera einhver vinnulagsreglur um fjölda mála sem lagðar eru fyrir og fram af ákveðnum nefndum - því milli nefnda var töluvert ójafnvægi í þessu.

Hugsanlega það almikilvægasta við þingið er það er vettvangur tengslamyndunar, bæði innan félaga sem mynda KÍ heildina og svo líka þvert á félögin. Ég sat með félögum úr SÍ og FF á borði og myndaðist þar góð stemning og það var bæði fróðlegt og skemmtilegt. Voru félagar mínir margir reyndari en ég og það kom sér oft vel.

Ég lít svo á að KÍ standi fyrir ákveðna hugsjón, og í raun ákveðna pólítík. Kennarar eiga að standa saman, standa vörð um menntun og velferð í landinu og njóta sömu kjara burtséð frá skólastigi. Þetta er mín einlæga trú. KÍ á jafnframt að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og standa með kennurum um allan heim gegn holskeflu niðurskurðar, einkvavæðingar og nýfrjálshyggju sem er helsta ógnin sem steðjar að mannkyninu að mínu mati.

Síðasta atriðið var svo formannsuppákoman. Ég varð fyrir vonbrigðum með útkomunu þar, ég ber ekki traust til formannsins og fannst framganga stuðningsliðs hans þarna fremur sérkennileg og málið allt hið undarlegasta. Í þessu reyndist ég vera í minnihluta (þó nokkuð stórum) þingfulltrúa. Ég bý hins vegar í landi þar sem þeir sem hafa farið með æðstu stjórn hafa nánast aldrei verið mér að skapi svo þetta er kunnugleg tilfinning - en svona er lýðræðið. Það var hins vegar líka lýðræðislegt að það kæmi skýrt fram að allnokkur hópur okkar telur að staða Ragnars Þórs sé þannig að hann sé ekki heppilegur formaður, og dramatíkin og æsingurinn í viðbrögðunum við því fannst mér alveg út úr kortinu. En það er nú kannski bara ég. Og þessi málatilbúnaður um að nú bara fari allir nemendur endalaust að ljúga upp á okkur er afar ógeðfelldur.

KÍ lifir þetta af, og við sjáum hvað gerist á næstunni. Það er nóg af áskorunum í kjaramálum, skólamálum og réttindamálum og innan raða allra félaganna fullt af frábæru fólki sem hefur kraftinn í að díla við það allt saman: sumir miklir aðdáendur meistarans úr Nolló, aðrir sem vildu helst sjá einhvern annan í embættinu. So it goes.