Tuesday, November 26, 2019

greinakennsla og tengsl við nemendur

Ég hef aðeins verið að pæla í og rausa um tengslamyndun kennara við nemendur, umhyggju fyrir þeim og jafnvel virðingu. Í framhaldsskólum á Íslandi er það svo að þeir kennarar sem hafa mest tengsl við nemendur á fyrsta hluta námsins eru kennarar í svokölluðum kjarnagreinum, sem sé íslensku, stærðfræði og ensku. Af þessum sökum er það svo að kennarar þessara grein hafa í einhverjum skilningi meiri tækifæri til að kynnast og tengjast nemendum í upphafi náms en aðrir: þeir fylgja hópum lengur og eyða meiri tíma með honum. Því er mikilvægt að hér sé á ferðinni fólk sem býr yfir mannskilningi og innsæi; og afar slæmt þegar kennarar þessara greina eru fjarlægir eða kuldalegir í samskiptum.

Kennarar í sérgreinum ákveðinna brauta taka svo í vissum skilningi við boltanum á seinni hluta námsins. Þannig held ég að það myndist oft merkilegt samband milli nemenda á eðlisfræðibraut og eðlisfræðikennara; og spekúlantar á félagsfræðibrautum taka oft upp hætti og skoðanir meistara sinna í félagsgreinum.

Þeir kennarar sem eru okkur eftirminnilegir eru gjarna þeir sem höfðu eitthvað meira til málanna leggja en bara greinina sína - og voru etv. sjálfir svo samtvinnaðir greininni að erfitt væri að sjá hvar annað endaði og hitt byrjaði. Þessir kennarar kenna sjálfa sig, eins og Parker Palmer myndi orða það. 

Það er fullt af geggjuðum kennurum í umferð, en ég held að það sé fyrst og fremst tvennt sem ógni því að mannlegi þáttur kennslunnar sé ræktaður. Það er annars vegar of mikil og rík áhersla á greinina og námsefnið (og hugsanlega námsbækurnar) og tengt yfirferðarblæti. Hins vegar held ég að stöðlun og binding á ákveðnum vinnuaðferðum og verkefnaformum sem henta kennurum og nemendum misvel geti líka ógnað því að kennarinn finni sér sinn eigin stíl og geti ræktað tengsl sín við nemendur með sem bestum hætti.

Og svo er það mitt mat að bekkjarkerfið sé mun líklegra til að bjóða upp á öflug mannleg tengsl en áfangakerfið, bara svona svo það komi enn og aftur skýrt fram.Sunday, November 24, 2019

Tilgáta um kerfiÞessi póstur er nú svona frekar kannski heimspeki en beint menntablogg, og þó.

Mennirnir, náttúran og alheimurinn eru samsafn ótrúlegs fjölda kerfa sem eru bæði aðskilin og samtvinnuð. Ég er með ónæmiskerfi, lifi í hagkerfi, starfa í menntakerfi og er hluti af vistkerfi. Stundum fer ég svo líka bara alveg í kerfi.

Að menntast er að vakna til vitundar um þessi kerfi og samsetningu þeirra. Þeir sem vilja ganga lengra sökkva sér oní eitthvað ákveðið kerfi og geta frætt okkur mikið um það, aðrir pæla í tengingum milli kerfa og svo framvegis.

Í bókinni Sapiens setur Yuval Noah Harrari fram skemmtilega hugmynd um tvenns konar kerfi, en hann kallar þau kaos 1 og kaos 2. Kaos 1 kerfi er t.d. veðrið. Það er mjög flókið kerfi með töluverðum ófyrirsjáanleika sem má skilja með flóknum vísindum og stærðfræði, og það er hægt að spá fyrir um framtíð kerfisins (með misgóðum árangri). Veðurspáin hefur hins vegar engin áhrif á veðrið.

Kaos 2 kerfi er svo hins vegar kerfi eins og hagkerfi. Ef ég spái því (og er í þannig stöðu að mark sé á mér tekið) að verð á gulli muni hækka, þá gæti mjög vel verið að verð á gulli lækki. Það sem er sagt um kerfið hefur áhrif á það; það má segja að kerfið sé með ákveðnum hætti meðvitað um sjálft sig. Menntakerfið er klárlega kaos 2 kerfi, en þar líkt og í flestum slíkum tilfellum látum við eins og það sé líkara veðrinu (sem er frekar einfeldningslegt).

(ég er svo að vinna með tilgátu um kaos 3 kerfi)

Til að flækja þetta svo aðeins er áhugavert að hugsa um loftslagsbreytingar  en þar komum við að samspili milli kerfa, og þá einmitt hagkerfisins og veðurkerfisins. Virkni hagkerfisins hefur þar áhrif á þróun kaos 1 kerfis, og hugmyndafræði og athafnir þar hafa áhrif, áhrif sem svo er að líkindum hægt að breyta með því að spá og breyta athöfnum og hugmyndafræði okkar.

Ég held að e.k. kaos 2 vitund sé lykilatriði; að átta sig á því hversu dýnamísk stór hluti kerfanna sem við hrærumst í eru í raun, en ég held það kalli á aðlögun á hugsun og okkar og hegðun á margvíslegan hátt.

En engin ástæða til að fara í kerfi samt.

Saturday, November 16, 2019

Tvö afmælisbörn, áfangakerfið og fiskabúrið

Nýlega hef ég verið svo heppinn að vera viðstaddur og taka þátt í viðburðum þar sem fagnað var tveimur merkilegum ástundurum menntavísinda - en þau eru nebblega bæði sjötug á á árinu, en þetta eru Hafþór Guðjónsson annars vegar og Sigrún Aðalbjarnardóttir hins vegar.

Ég hef notið kennslu og lesið verk þeirra beggja mér til mikils gagns og ánægju. Í nálgun þeirra beggja á viðfangsefni sín tengd menntun og kennslu (og reyndar uppeldi á breiðari grundvelli í tilfelli Sigrúnar) eru í fræðum þeirra beggja (þó ólík séu) sterkur heimspekilegur þráður. Í gagnrýninni nálgun sinni á lífið í kennslustofunni leitar Hafþór til gagnrýninnar hefðar amerísks pragmatisma (einkum Rorty), og sýn Sigrúnar á siðferðisþroska og mikilvægi samræðunnar í uppeldi er undir sterkum áhrifum frá Habermas, og undir henni liggur sterkur aristótelískur grunnur.

Þar sem ég er mjög hrifnæmur einstaklingur þá fer ég oft beint í að pæla í og lesa og kynna mér eitthvað nýtt sem ég kynnist á svona viðburðum. Þess vegna er ég núna að hlusta á bókina "The Courage to Teach" eftir Parker Palmer sem Hafþór vitnaði í í sínu partíi. Og þegar ég svo sat þingið sem var til heiðurs Sigrúnu þá fannst mér ég heyra margt þar sem er samhljómur með því sem Palmer er að tala um.

Kjarni þess máls er að kennarar hugi að sjálfum sér og sínu eigin sálartetri, að kennarinn í einhverjum skilningi kenni sjálfan sig. Samband kennarans við nemendurna og möguleikar hans til að hafa áhrif á þá byggja á að hann hvíli vel í eigin skinni, og hafi djúpan og þroskaðan skilning á erindi sínu við fagið sitt, nemendurna og heiminn í heild sinni. Í bókinni beinir Palmer máli sínu fyrst og fremst til háskólakennara, en engu að síður finnst mér hún eiga fullt erindi við mig sem framhaldsskólakennara.

Gildin sem Sigrún velur sem titil á einu af sínum helstu ritum eru virðing og umhyggja. Ég lít á þessi tvö fyrirbæri sem mjög mikilvæga þætti í mínu starfi sem framhaldsskólakennara. En ég velti fyrir mér hvort að umhverfið sem ég starfa innan hamli mér á vissan hátt að rækta þessi gildi, og þá einkum kannski umhyggjuna. Til að geta sýnt fólki umhyggju þarf maður að þekkja það.  I þeim ramma sem áfangakerfið sem starfið í framhaldsskólanum byggir á (að mestu) þá eyði ég almennt ekki nægilegum tíma með nemendum til að ná að kynnast þeim almennilega, og krafan um yfirferð og að fylgja frekar stífum og nákvæmum námsáætlunum dregur úr sveigjanleika í samskiptum. Í fyrsta skipti á ferlinum er ég núna að kenna bekk sem mér finnst ég þekkja virkilega vel, finnst ég geta unnið með þeim og gert kröfur til þeirra (og tekið tillit) sem í flestum tilfellum er útilokað að ná, enda er ég búinn að kenna þeim þrjá áfanga. Þetta er tilfellið þó að ég vinni í bekkjarskóla, en fjarlægðin milli kennara og nemenda er skv. minni reynslu enn meiri í áfangaskólum - þó þar sé vissulega "betri agi".

Fræðin geta hjálpað til að lyfta okkur úr smástund úr fiskabúrinu og skoða vatnið sem við syndum í. Ég vil þakka Sigrúnu og Hafþóri fyrir að gera mig að meira hugsandi kennara og efa ekki að ég geti sótt innblástur í þeirra fræði út ferilinn, og hvet alla sem vinna við kennslu til að kynna sér rit þeirra og rannsóknir.

Friday, June 21, 2019

Andreas Schleicher og íslenskir kennarar

Í Kastljósi 20. juní var viðtal við Andreas Scleicher nokkurn, heilann á bakvið PISA rannsóknir OECD. Viðtalið var mjög fróðlegt, Sigríður Hagalín Björnsdóttir spurði góðra spurninga, þau tala mjög fallega ensku og málflutningurinn balanseraður og áhugaverður. 

Eitthvað hefur verið um viðbrögð við viðtalinu, jákvæð og neikvæð eins og gengur. Eitthvað er um að fólk detti í vörn og geri lítið úr Schleicher, jafnvel fyrir þær sakir að vera þjóðverji, sem er nú nokkuð þunnur málflutningur. Minnir þetta mig örlítið á þegar útlendingar skildu ekki sérstöðu íslenska víkingahagkerfisins á árabilinu 2006-2007...

Kjarninn sem ég held að við ættum að taka út úr viðtalinu er mikilvægi starfs okkar kennaranna, fagmennska okkar og framsækni. Það sem verið er að bauka inn í skólastofunum skiptir máli. Schleicher bendir á að ekki sé endilega æskilegt að útvista ákveðnum þáttum starfsins til annarra sérfræðinga - heildstæð umhyggja og áhugi kennara á nemendum sínum varðar miklu. Þetta er að vísu ekki alveg einfalt mál og tengist kennaramenntun og skipulagi náms og skóla. Ég skil þetta á þann veg að námsárangur nemenda byggi ekki eingöngu á þröngum fókus hjá kennurum á fögin sín, heldur sé sú hugmynd að heildstæð vitund um nemandann, námslega, félagslega og mögulega andlega sé afgerandi .... hér gæti verið ákveðin krítík á það sem ég hef annars staðar nefnt yfirferðarblæti sem er ekki alveg óþekkt vandamál, allavega í framhaldsskólum.

Virðing almennt í samfélaginu fyrir starfi okkar er líka ákaflega mikilvægt atriði, og þá kemur sjálfsvirðing mjög sterk inn, og jafnframt stolt af því að tilheyra stéttinni í heild sinni - og slíkt stolt á að fara þvert á skólastig, þröng upphafning eins hluta kerfisins á kostnað annarra er mjög óæskileg að mínu viti.

Eina atriðið sem ég er alveg ósammála Schleicher um eru vangaveltur um að þarfi að sinna bráðgerum nemendum betur. Ég hef margháttaða reynslu af þessu mengi fólks, hef kennt mörgum slíkum og flokkaðist mögulega sem slíkur á fyrri hluta skólagöngu minnar, þó ég gerist seinfærari með árunum. Ég held að það þurfi engar sérstakar ráðstafanir, þessir nemendur þurfa bara eins og aðrir góða og umhyggjasama kennara - ef þeir þurfa frekari útrás fyrir ofvaxna vitsmuni þá fara þeir bara á stúfana og forrita nýja tölvuleiki, lesa Dostojevskí, læra Esperanto eða eitthvað annað stuð í frítíma sínum (ég las Dostojevskí, og við félagarnir bjuggum til borðspil.... ). Ég held að bráðgerum nemendum sé enginn sérstakur greiði gerður með því að taka þá út fyrir sviga. Stundum dettur mér í hug að þeir sem eru mikið í svona pælingum telji sjálfa sig hafa verið, eða hafa jafnvel verið, bráðgera, og ef þau hefðu fengið þetta extra dæmi þá væru þau Marie Curie eða Einstein, veit ekki ....

Mælingar á borð við PISA eru að sjálfsögðu umdeilanlegar, en þegar við fáum almennilega athygli og umræðu eigum við að fagna því og nota tækifærið til hugsa okkar gang, takast á og hugsa hvað við getum gert til að skólarnir verði betri næsta vetur en þann síðasta. Ég ætla að einbeita mér að því að rækta betur samband mitt við nemendur, vinna í því að sinna samstarfi við kennarana í mínu fagi og öðrum fögum og tala starfið mitt upp hvar sem ég er og hvert sem ég fer. Kennsla rokkar: besta starf í heimi.

Saturday, February 16, 2019

Framhaldsskólakennarar, tilgáta um þrjár týpur

Ég hef verið framhaldsskólakennari í 20 ár, og er á því (af ýmsum ástæðum) að það sé besta starf í heimi (heimurinn er hins vegar afar ófullkominn, svo það er mikið pláss til bætingar)... Ein ástæðan er að stéttinn er fjölbreytt og við hvern skóla kennir fólk sem kemur úr ýmsum áttum. Hér að neðan set ég fram tilgátu um þrjár týpur kennara, sem býður upp á möguleika að spegla sjálfan sig. Tvær fyrstu týpurnar tel ég í meginatriðum jákvæður, ég er ekki alveg viss með þá þriðju.

Image result for jennifer honey teaching
Image result for Snape
1) Ljúfi kennarinn. Fókus þessa kennara er velferð nemenda. Hann er fljótur að læra nöfn, veit hverjir í bekknum eru saman, er flinkur í foreldrasamskiptum og rekst yfirleitt vel í kennarahópnum.
2) Fagidjótinn. Þessi kennari elskar greinina sína og er mjög upptekinn af alskonar nördagangi tengdu henni. Fylgist vel með nýjungum á sínu sviði og mikill brunnur að sækja í ef mann vantar að vita meira um greinina. Veit ekki hverjir eru saman í bekknum og ekki líklegur til að bjóða sig fram í hóp sem á að ræða samskipti á vinnustað.


Image result for hemúllReglupésinn. Þessi kennari hefur mestan áhuga á agamálum, reglum og einkunnum. Orð eins og "einkunnaverðbólga" og "prófsvindl" eru hans ljóðlist og tónlist. Áberandi á kennarafundum, áhugamaður um snjallsímabann.

Wednesday, February 13, 2019

Menntavísindasvið = Hufflepuff

Fór á öldungis mjög skemmtilega og upplýsandi ráðstefnu um framhaldsskólann á föstudaginn. Margt vakti athygli mína og þá einkum hversu einsleitir kennsluhættirnir eru, veik staða starfsnáms, viðvarandi brottfall og fleira, mæli eindregið með að lesa meira um þetta í sérritinu sem var tilefni ráðstefnunnar (mæli sérstaklega með grein Ástu Henriksen, en svo skemmtilega vill til að hún er eini framhaldsskólakennarinn í fullu starfi sem á grein í þessu safn, og að auki traustur samkennari minn og bandamaður í starfi).

Þetta var frábært framtak, en eitt finnst mér svoldið skemmtilegt, og þetta komment er aðallega fyrir þá sem voru á ráðstefnunni og svo þekkja eitthvað til Harry Potters. Ef skólinn sem var lengst til hægri (frá áhorfendum séð) á glærunni hjá Berglindi Rós er Hufflepuff íslenskra framhaldsskóla, þá er það alveg á hreinu að Menntavísindasvið er Hufflepuff háskólans, og það er einhver elegant og skemmtileg írónía í þessu öllu saman sem gefur lífinu lit.

Wednesday, December 5, 2018

12 daga twitter

Nú tek ég þátt í skemmtilegu dæmi á Twitter, sem heitir 12dagatwitter þar sem ýmsum atriðum tengdum menntun, kennslu og upplýsingatækni eru gerð skil með tístum þátttakenda. Áhugi minn á því að vera með í þessu tengist því að mér finnst að mikið af svona, tja, framsæknari aðferðum og hugmyndum í kennslu eigi sér farveg með tækninni og að kennarar sem eru áhugasamir um að nýta sér það nýjasta þar séu ástríðufullir fagmenn sem hafa mikið fram að færa.

Hitt er svo annað mál að það eru líka vandamál tengd tækninni - og hérna ætla ég bara að nefna þrjú, og þá raðað eftir alvarleika:

1) Tækin sem við notum eru og gögnin sem við miðlum með þeim eru eign stórfyrirtækja. Um leið og maður opnar Facebook síðu fyrir hópinn sem maður fer með í nemendaskiptin eru alls konar samskipti, myndir og allt svoleiðis komnar í vörslu Zuckerberg og félaga sem geta þá nýtt þetta með ýmsum hætti.... þegar maður opnar YouTube til að sýna vídeó um vistfræði Amazon skógarins getur skyndilega opnast auglýsing um rússneska hjúskaparmiðlun... Markaðsvæðing menntakerfisins kemur þarna aðeins inn bakdyrameginn og er raunverulegt vandamál.

2) Allt skólastarf þarf að laga sig að upplýsingakerfum sem eru í eigu fyrirtækja úti í bæ (Mentor, Inna). Það kann að vera að allir þar séu miklir fagmenn, en það er þannig að oft þarf að laga skólastarfið að kerfinu en ekki öfugt og þetta er slæmt. Þannig getur upplýsingatæknin af sér einsleitni og kerfishugsun sem er ósjarmerandi. Hafandi sagt það finnst mér INNA að mörgu leyti skemmtilegt umhverfi og nota það mjög mikið, og það að allt sé vistað miðlægt og svoleiðis hefur kosti, en ég tel að þetta sé líka vandamál.

3) Símar, tölvur og önnur snjalltæki eru mjög öflug til afþreyingar, og þegar maður vill t.d. halda uppi umræðum í tímum þá eru þau mjög til trafala. Vitaskuld er hægt að setja reglur og vera með stöðugt eftirlit, en þá þarf að eyða tíma og orku í það sem er leiðinlegt. Væntanlega munum við finna okkur leiðir til að lifa með tækninni, enda set ég þetta sem atriði númer þrjú. Mér þykja allar hugmyndir um bönn á þessu sviði fráleitar, bara svo það sé alveg á hreinu, en ég þekki það mjög vel að tækin hafa ekki orðið til þess að gera kennslustundir hjá mér í heimspeki (þar sem ég nota umræður mikið) betri.

Gaman að fá smá viðbrögð kannski - bendi á að yfirskrift bloggsins er hrátt og hresst :-)