Monday, October 3, 2011

Fjarnámspælingar 1



Ármann Halldórsson skrifaði þann 27. júlí 2011 kl. 14:44

nú er ég í miðju kafi að gera upp afrakstur sumarsins í fjarnáminu. Ég er með þrjá heimspekiáfanga, einn siðfræði áfanga, og tvo nördaða enskuáfanga, Tolkien og vísindaskáldskap. Alltaf fæ ég slatta af alveg hreint dásamlegum nemendum í þessa áfanga. Þetta er líka skemmtileg áskorun því þarna er ég einn að prufa mig áfram, og langar aðeins að deila smá pælingum tengdum því, hugsanlega með það bakvið eyrað að starta umræðu. Þannig er mál með vexti að við tökum upp nýtt kerfi bráðlega hjá Versló, og þá er góður tími fyrir naflaskoðun.
Í siðfræðinni, og heimspekinni, og þá aðallega í hei303 hef ég verið að prófa mig áfram með að setja viðfangsefnin fram þannig að nemendur vinni verkefni sem tengjast þeirra daglega lífi. Þetta er í rauninni mjög einfalt og byggir annars vegar á að í siðfræði segja nemendur frá siðferðilegri klípu sem þeir hafa lent í og reyna að meta hana í ljósi hugmynda í áfanganum. Í hei303 er gerð lífstilraun - þá prófa nemendur að framkvæma eitthvað í lífi sínu og segja frá því í skýrslu og yfirvega reynsluna. Ég verð að segja að þeir sem gera þetta af alvöru virðast mjög ánægðir og maður fær nýtt samband við nemendur og samskiptin verða áhugaverðari. Ég hef líka verið að vinna með að nýta efni úr fjölmiðlum og kvikmyndir, og ætla að skerpa á þvi að hafa áfangana meira lifandi.
Ég hef hins vegar áhuga fyrir því að útfæra þessar pælingar miklu víðar. Ég las nýlega grein eftir Irmu Erlingsdóttur í Ritinu þar sem hún talaði um grein eftir Derrida um háskóla án landamæra - og það er það sem ég held að félagsmiðlarnir (fb, Twitter, Google+) tengt einhverju ókomnu sem ég ætla að vera með í að skapa geti orðið. Áherslan á læsingar og einkunnamatskerfi og stöðluð próf í núverandi kerfum endurspegla úreltar hugmyndir um menntun og því verður að finna nýjar leiðir sem eru opnari og betri farvegur fyrir vinnu af því tagi sem ég er að gaufast með.
Það er oft sagt að heimspeki sé ekki hægt að kenna í fjarnámi og talað um að fjarnám sé ekkert nám o.s.frv. en ég held að það sé einmitt best að kenna heimspeki í fjarnámi því þannig losnar maður við óteljandi hamlanir sem skólarnir mynda í raun og veru - með takmörkuðu og ónógu húsnæði, kröfum stundatöflunnar, truflun frá áhugalausum nemendum... allt þetta er víðs fjarri á bylgjum netsins - og með netinu þá verður allur heimurinn að skólastofu og rannsókn beinist að hverju því sem er næst nemandanum (það eru reyndar ákveðin vandkvæði með þetta hjá t.a.m. föngum, þeir eru í svipaðri aðstöðu og dagskólanemar, komast ekki á YouTube og svona).
Framtíð fjarnáms byggir að mínu viti á því að tengja saman hugsun úr leikjum og félagsmiðlum og þvi besta og merkilegasta sem er hugsað í menntavísindum, listum og ég veit ekki hvar  - og þannig verður draumaskólinn, háframhaldsmegaskólinn til.

No comments:

Post a Comment