Sunday, August 2, 2015

Róttæk kennslufræði

Ég er meðlimur í Facebook hópi (sem ég beini þessu bloggi nú m.a. til) sem heitir 'róttæk kennslufræði'. Ekki er alveg ljóst nákvæmlega hvað er átt við með 'róttækri kennslufræði' við það að skoða lýsingu á síðunni, hún er "fyrir kennara og aðra sem hafa áhuga á róttækri kennslufræði" .... Ég hef áhuga á róttækri kennslufræði, og ætla aðeins að pæla í þessu með því að setja fram tvo megin strauma sem mín tilgáta er að stór hluti þeirra sem deila áhuganum gætu tilheyrt...

1
Menntun sem frelsandi, mótandi afl í þróun samfélagsins

Þennan straum má rekja til pælinga um menntun sem frelsandi afl í þágu byltingarinnar og róttækra breytinga á auðskiptingu samfélagsins, spekúlantar á borð við Paulo Freire eru hér í miðpunkti. Þessa tegund af róttækri kennslurfæði er líklega helst að finna í tengslum við fullorðinsfræðslu í samtímanum, en í sinni upprunalegu mynd kannski ekki stór fídus í nútímalýðræðisríkjum. Á Vesturlöndum samtímans má segja að arftaki þessara pælinga sé breiðari hugmynd um menntun og menntakerfi sem tæki til félagslegrar jöfnunar. Ég held að allir sem skrifa undir að styðja 'róttæka kennslufræði' myndu samþykkja það. Í orði er menntakerfinu á Íslandi ætlað að vera vetttvangur félagslegs jöfnuðar, en á tímum nýfrjálshyggju og niðurskurðar hafa verið blikur á lofti. Dæmið sem ég vil taka til hér sem raunverulegt vandamál er inntaka í framhaldsskóla samkvæmt einkunnum og myndun þess sem er í hversdagslegu tali kallað 'elítúskólar'. Afleiðing þessa er viðhald stéttakerfis í hinu alþekkta og mikið lofaða 'stéttlausa' samfélags sem við búum í. Ég er líka á þeirri skoðun að inntökupróf í ákveðnar (elítu) greinar í háskólanum sé fyrirbæri sem ætti að setja stórt spurningamerki við. 

2
Fjölbreyttari, lýðræðislegri, meira skapandi (o.s.frv.) kennsluhættir

Hér er um að ræða fjölbreytilegan og iðandi straum af alskonar. Grundvallarsjónarmiðið sem deilt er hér er að kennsluhættir séu of einhæfir og gamaldags í skólum almennt og að þessu þurfi að breyta. Rökin fyrir því að breytinga sé þörf geta verið margskonar, t.d. tengd straumi 1, eða jafnvel tengd því að efla þurfi 'samskiptahæfni' fyrir atvinnulífið. Suðupottur fyrir þessar pælingar eru frískólar af ýmsu tagi, lýðræðisskólar eins og Sudbury skólarnir og þess háttar. Á Íslandi má kannski segja að Hjallastefnan sé dæmi um skondnar tilraunir á þessu sviði. Það er líka skemmtilega próblematískt dæmi, ég leyfi lesendum að íhuga það sjálfum. 

Niðurstaða

Ég stend með fæturna í báðum þessum straumum, en hef örugglega sinnt straumi 2 af meiri natni í starfi mínu og skrifum. Lykilorðið sem nær yfir allt sviðið er að mínu mati samt lýðræði. Lýðræði er ekki bara meirihlutalýðræð. Lýðræðislega aðferð t.d. við inntöku í framhaldsskóla væri að mínu mati e.k. blanda af kvótakerfum og slembiinntöku......