Sunday, February 21, 2016

Klappland - pólítískur ómöguleikur

Hver á heima i Klapplandi? Ég á heima í Klapplandi!

Undanfarið hefur verið unnið hörðum höndum að því að fyrsti íslenski stjórnmálahlutverkanámsappleikurinn - Klappland (hefur gengið undir vinnuheitinu Appland) líti dagsins ljós.  Höfundur leiksins er ég, Ármann Halldórsson, forritarinn er Friðrik Magnússon, hönnuður appsins Guðný Þorsteinsdóttir (en saman eru þau Gebo Kano) og svo eru myndirnar eftir Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur.

Leikurinn er hugsaður til að kenna krökkum ferili stjórnmála, og fara þau þannig í gegnum það að búa sér til stjórnmálamann (eða 'kall' eins og það heitir á fagmáli), mynda stjórnmálaflokka, bjóða fram til kosninga og mynda svo ríkisstjórn eða vera í stjórnarandstöðu (skuggaráðuneyti) eftir þær. Markmið og viðfangsefni stjornmála í Klapplandi eru ólík Íslandi og meðvitað sneytt hjá því að gera leikinn með einhverjum hætti tengdan samtímanum eða flokkspólítík.  Allt utanumhald fer fram í appinu, en leikurinn fer fyrst og fremst fram í samskiptum og samningaviðræðum þátttakenda. Leikmannafjöldi er hugsaður á bilinu 15-25, og það þarf leikstjórnanda sem gegnir hlutverki konungs eða drottningar: sumsé bekkur með i-padda og kennari.

Náðst hefur samkomulag við iPad verkefnið í Kópavogi, sem er stýrt af Birni Gunnlaugssyni um að prufukeyra appið í bekk þar núna í vor. Fyrsta spilaprufa fer þó fram í Kópavogsskola þriðjudagskveldið 23. febrúar kl. 20, og geta áhugasamir meldað sig með því að ganga í Facebook hópinn Klappland. Við í þróunarteyminu höfum mikla trú á því að hér sé komin spennandi leikur sem eigi framtíðina fyrir sér og að um sé að ræða frumlegan og spennandi samruna tækni og leikjaaðferða í kennslu.

Fylgist með hér á blogginu til að frétta hvernig gengur með prufur, en best af öllu er að mæta á þriðjudagin!

Hér eru svo nokkur skjáskot úr appinu:

Hér meldar maður sig í flokk
Persónusíðan
Síða til að mynda flokkabandalög


Svona lýkur leiknum, stig vinnast fyrir að koma málefnum sínum að og ná embætti. 

Thursday, February 18, 2016

Brúnn eða rauður, bekkjarkerfi og áfangakerfi

Magnús Þorkelsson spilaði út skemmtilegu svari við blogginu mínu um bekkjarkerfi vs. áfangakerfi, sem má lesa hér. Hann skrifar af þekkingu og áhuga á málefninu. Ég vil bara aðeins bregðast við örfáum punktum hérna:

Mér kemur ekki til hugar að halda því fram að bekkjarkerfið skili betri nemendum upp í háskóla fyrir þær sakir að þar séu bekkjarkerfi, það hefur nákvæmlega eins og Maggi skrifar allt með það að gera hvaða nemendur koma þangað inn. Mín spurning snýr að því hvort meðalnámsfólk og slakara gæti hugsanlega vegnað, eða allavega liðið betur í bekkjarskólum.

Hvernig svo sem heildartölur um umsóknir í framhaldsskóla eru reiknaðar út þá er það allavega ljóst að bekkjarskólar njóta mikilla vinsælda, einkum meðal þeirra sem útskrifast úr grunnskóla. Hversu mikilvægt bekkjarkerfið per se er í því samhengi er náttúrulega erfitt að fullyrða um, en ég hugsa að það skipti einhverju máli.

Sú staðreynd að bekkjarskólar hafi ekki haft innihaldslýsingar fyrirliggjandi og ekki verið virkir í að móta stefnu þegar námskrár voru ritaðar verður bara að skrifast á aumingjagang (og kemur mér ekki á óvart, reyndar) og í því samhengi verður áfangakerfið bara að teljast eiga 'sigurinn' skilið.... sá sigur er að mínu mati ótvíræður þó að Maggi reyni að sýna fram á annað.

Bloggið mitt er ekki innlegg í eitthvað dekurvæl bekkjarskóla, ég er reyndar helst á því að taka upp einhver allt önnur viðmið við inntöku (var t.d. fylgjandi hverfisskólum) og finnst undarlegt að skólar sem eru að mestu eða öllu leyti reknir fyrir almannafé þurfi ekki að sýna neina félagslega ábyrgð.

Ég skil svo ekki fullkomlega hvað er átt við í lokaorðunum, nema ég er sammála því að burðarásinn í góðri menntun séu nemendur og kennarar, og í raun aðallega nemendur, sem geta svo lært gríðarlega mikið hverjir af öðrum - og hugsanlega getur bekkjarkerfið eða einhver nýstárlegri útfærsla á því verið heppileg til þess arna. Og ég deili ósk Magga um að flóttamenn fái að njóta menntunar, og vildi óska að hægt væri að vinna bug á námsleiðanum sem herjar á framhaldsskólanemendur - og þar hugsa ég að það sé mjög einfeldningslegt að ætla að áfanga- eða bekkjarkerfi sé úrslitaatriði.

Takk sömuleiðis fyrir hugleiðingarnar!

Friday, February 5, 2016

Bekkjarkerfi og áfangakerfi

Datt í hug að velta hérna upp klassísku umræðuefni innan framhaldsskólans á Íslandi, bekkjarkerfi og áfangakerfi. Ekki er að sjá að þetta efni hafi verið mikið rannsakað beinlínis, en kannski er þetta vinkill í stóru framhaldsskólarannsókninni. Ég ætla eiginlega bara að setja fram nokkra punkta sem allir bjóða upp á frekari útfærslu.

Á undanförnum árum og áratugum hafa verið stofnaðir allnokkrir framhaldsskólar á Íslandi. Allir sem einn hafa þessir skólar verið áfangaskólar, eða einhvers konar tilbrigði við áfangaskóla, eftir því sem ég kemst næst hefur ekki verið stofnaður bekkjarskóli síðan MT (nú MS) var stofnaður. Þetta er áhugavert í ljósi þess að þegar umsóknir nemenda um skóla eru skoðaðar njóta bekkjarskólar umtalsvert meiri vinsælda en áfangaskólar.

Í framhaldi af þessu hafa svo allar námskrár sem samdar hafa verið um langt skeið gengið út frá áfangakerfinu sem normi. Öll nálgun í kringum breytinguna sem nú er að ganga yfir kerfið (sem er betur þekkt sem 'stytting') er áfangakerfismiðjuð, og þrátt fyrir mikið tal um 'frjálsa nálgun skóla' þá er það orðið þannig að þeir skólar sem eru bekkjarskólar hafa velflestir fellt kerfið sitt inn í ramma áfangakerfisins.

Bekkjarkerfið býður upp á miklu fleiri tækifæri til margskonar uppbrots á skólastarfi. Þverfagleg verkefni, vettvangsferðir (innan- og utanlands) eru mun auðveldari viðfangs. Að mörgu leyti hentar bekkjarkerfið betur fyrir fjölbreyttar kennsluaðferðir en áfangakerfið. Þó að tilfellið sé að í  hugum fólks sé sterk tenging milli íhaldssemi (mikil próf, einstefnumiðlun í kennslu, lítið val) og bekkjarkerfisins þá held ég að sú tenging sé alfarið ónauðsynleg, enda er t.d. lýðræðislegi framhaldsskólinn í Kaupmannahöfn (Det Frie Gymnasium) bekkjarskóli.

Bekkjarkerfið veitir félagslegt og námslegt öryggi og tryggir ákveðið lágmarksfélagslíf fyrir alla nemendur. Það getur að vísu verið vont að vera í slæmum bekk og það getur verið erfiðara að skera sig úr, og þannig leitt til ákveðinnar meðalmennsku.... í raun minni háttar vandamál í mínum huga.

Val er vissulega erfiðara viðfangs og verður minna í bekkjarkerfi. Ég held þó kannski í því samhengi, sbr. punktinn um kennsluhættina, geti verið að það skipti meira máli 'hvernig' og 'hjá hverjum' þú lærir frekar en nákvæmlega hvað viðfangsefnið er. Þannig getur þróttmikil og flott íslenskukennslu gefið af sér margt sem fengist kannski síður þó maður gæti valið heimspeki, listasögu og myndlist - heimspeki-, listasögu og myndlist er hægt að kenna með galómögulegum hætti þannig að nemendur fái ekki baun útúr því... Áfangakerfið leiðir til þess að hugsað er einhliða út frá kennslugrein, en hlutir eins og aðferðir, og hugsanlega bara viðhorf og nálgun kennara sem fagmanna gleymist kannski.

Samfella í námi getur orðið meiri í bekkjarkerfi, kennari hefur tækifæri til að sinna því að fylgja hóp yfir heilan vetur í gegnum erfið viðfangsefni og getur þannig náð dýpt sem síður er hægt að ná með því að brjóta allt upp og byrja upp á nýtt á 3 mánaða fresti. Sú galna hugmynd sem er ríkjandi á Íslandi (reyndar bæði í bekkjarskólum og áfangaskólum) að prófa verði úr og meta hvert einasta skitterí sem kemur fyrir í námsferlinum er hugsun sem við þurfum að losa okkur við.

Að síðustu vil ég svo varpa þeirri spurningu fram hvort að það sé möguleiki að brottfall og ýmis önnur vandamál sem herja á framhaldsskólanna væru minni ef fleiri skólar væru bekkjarskólar, eða ef bæði kerfin hefðu fengið að njóta sannmælis í þróun og stefnumótun innan framhaldsskólans?