Monday, September 23, 2013

Traust

"Á móti trausti læt ég koma traust, á móti vantrausti læt ég einnig koma traust, þetta eflir traustið."

Bókin um veginn

Smiðurinn frá Nasaret sagði svo líka eitthvað svipað.

(en óttast að verða stimplaður sem einhver öfgamaður ef ég fer að sítera hann)

Flaug þetta í hug af tvennum ástæðum.

Hlustaði á þetta áhugaverða og þankavekjandi viðtal Harmageddon manna við Hermann Stefánsson um Blátt áfram málið og lít þannig á að einn kjarninn í gagnrýni á málatilbúnað þeirra samtaka er hvernig það grefur undan trausti í samskiptum barna og fullorðinna almennt og yfir línuna.

Hin ástæðan er hið stöðuga og viðvarandi vantraust sem kennarar auðsýna nemendum sínum í stöðugum áhyggjum af svindlum, ritstuldum og símamisnotkun í tímum - það virðist vera það eina sem allir kennarar geta alltaf sameinast um.

Úff.

Sýnum traust - eflum traustið.

Sunday, September 1, 2013

'Pub quiz' sem kennsluaðferð

Í sumar leið fór ég á tónlistarhátíðina All Tomorrows Parties og skemmti mér hið besta. Ég lét þar plata mig til að taka þátt í Pub Quiz um popp og rokktónlist og kom þá í ljós algjör vanþekking mín á málaflokknum. Ég hef annars ekki tekið þátt í slíkum uppákomum og formið vakti forvitni mína.

Í síðustu viku sló ég svo til með hópana mína í Ens103 og bjó til smá svona hópspurningakeppni úr efni kafla sem við vorum að fara í - efnislega og úr orðaforða. Ég skipti bekkjunum upp í hópa, hóparnir svara spurningum saman (og sumar spurningarnar voru níðþungar), og fara svo yfir svör hjá hvorum öðrum. Ég útbjó síðan skjal þar sem sigurhópurinn var heiðraður - og tók mynd af viðkomandi hóp, prentaði skjalið út og hengdi upp í stofunni.

Þetta reyndist mjög skemmtilegt. Nemendur eru mjög virkir og leggja sig eftir efninu og eru að pæla í því allan tímann - bæði meðan þau svara og meðan þau fara yfir. Það þarf vitaskuld að huga að því hvernig skipt er í hópa, en í svona leiki er engum stillt upp við vegg og allir ættu að eiga möguleika á að vera með í einhverjum hluta málsins.

Þetta er einn hluti af alsherjar viðleitni minni til leikvæðingar námsins og kem inn reglulega með fleira þegar ég prófa eitthvað nýtt!