Thursday, August 22, 2013

Besta skólaár mannkynssögunnar

Í nýlegri Facebook-færslu frá Nassim Taleb setur hann fram eftirfarandi hvatningu:

'Be underqualified in your hobbies and overqualified in your work'

... hann leggur út af þessu með því að velta því upp að oftast sé þessu öfugt farið í samtímanum, ég leyfi lesendum að íhuga þetta sjálfum. 

Hvað varðar kennslu setur hann fram þá pælingu að maður eigi aldrei að kenna neitt sem maður þurfi að fletta upp. Mér finnst þetta mjög flott hugmynd - og hef í rauninni svona að einhverju leyti fylgt slíkri línu í mínu starfi. Kannski myndi ég samt vilja bæta við að stundum hefði mátt fletta sumu upp í fyrsta skipti en síðan hafi það lærst við það að kenna það.....

Ég hins vegar lít svo að það sé ákveðin taugaveiklun sem fylgir því að vera stöðugt að fletta öllu upp og fara alltaf inn í kennslustofu með belti og axlabönd. Ef maður kann eitthvað á maður að hvíla öruggur í þekkingu sinni og ekki vera í sífelldu stresskasti að baktékka allt og ekkert - nú og þegar eitthvað er ekki nákvæmlega kórrétt eða gleymist þá er þar möguleiki fyrir nemendur að láta ljós sitt skína og alla hlutaðeigendur að læra af reynslunni. 

Ég vil svo líka bæta við (sem ég hef reyndar gert áður) að það sé mikilvægari undirbúningur fyrir kennslu að vera með opin huga, hressa sál, úthvíldur og tilbúinn til að vera í miklum, virkum og áhugaverðum samskiptum heldur en að hafa legið í einhverjum skruddum til að rifja efnið upp í N-ta skipti - og - mér finnst frábærar kennslustundir sem eru sterk mannleg upplifun milljón sinnum mikilvægari en öll litfögur verkefni og gagnvirk próf veraldarinnar samanlögð.

Býð svo alla kennara og nemendur velkomna til starfa á þessu nýja skólaári - sem - líkt og nýja þingið eins Óttar Proppé benti okkur á - hefur alla burði til að verða allra besta skólaár mannkynssögunnar - það er bara undir okkur komið.