Sunday, November 20, 2011

dans dans dans og blogg blogg blogg

Ætla hér að skeyta saman smá pælingum um tvo kannski fremur ólíka hluti, en þeir tengjast samt saman á tvennan hátt og það sniðmengi er staður sem ég heillast af: annars vegar er um að ræða sköpun og hins vegar er um að ræða e.k. lágmenningu eða eitthvað sem á einhvern hátt er litið á sem menningarsnautt og allavega örugglega ekki menntandi. Þetta tengist þannig ekki skólamálum per se, en alveg án alls vafa menntun að mínu mati.

Fyrst að veruleikasjónvarpskeppnisþættinum Dans, dans, dans á RÚV. Þetta þykja mér frábærir þættir, fjölbreyttir kraftmiklir og skemmtilegir. Ég hef einhvers staðar annars staðar sagt að mér fyndist að dans ætti að vera mikilvæg grein í skólum og þessir þættir staðfesta mig í þeirri trú, og að auki finnst mér alveg ótrúlega magnað að sjá hvað flóra dansara er fjölbreytt og mögnuð hjá okkur á Íslandi. Mér finnst svo allt hip hop og nútímadans mun áhugaverðari en samkvæmisdans og fannst Þyrí og Rebel sem unnu nítjánda nóvember algjörlega mögnuð - og það sakaði ekki að yfir báðum atriðunum var svona einhver djúsí fantasíublær. Í þessum þáttum finnst mér vera unnið á skemmtilegan hátt með raunveruleikaþáttaformið og tekst að sneiða hjá ýmsum af þeim gildrum sem svona þættir detta í. Svo finnst mér þetta margfalt fjölbreytilegra og metnaðarfyllra heldur en nokkur söng eða söngvakeppni hefur náð að verða - en þar finnst mér oft allt sökkva í einhverja deprímerandi meinstrím súpu. Fjölskyldan sameinast og maður fær fiðring í lappirnar til að stökkva út á stofugólf og fetta sig og bretta....

Amanda Palmer er merkileg tónlistarkona og flottur bloggari. Hún er ein af fulltrúum þess eþos sem ég hef í yfirskriftinni hér: hrá og hress. Hún bloggaði nýlega um blogg og er það mjög skemmtileg lesning, hún spjallar um kvöldmatarboð hjá höfundi Game of Thrones og fer vítt og breitt yfir sviðið, og þá aðallega í pælingunni um blogg, og raunar tvít (f. Twitter) sem tjáningarform og nær að slá ákveðin tón og gera grein fyrir þessu tjáningarformi sem er svona eins konar pönk, en er líka á milli þess að vera opinbert og einka og er eitthvað nýtt og öðruvísi, felur í sér einhverja nánd og er ótrúlega spennandi. Hún segir þetta líka þannig að ég finn mig í að halda þessu áfram og halda mig við þennan stíl, og láta villur sem ég sé í gömlum bloggum ekki slá mig út af laginu. Ég hef líka verið í einhverjum svona gír með að pæla í að það sé óviðeigandi að vera að blogga þegar maður er á kafi í vinnu, en ég hef aldrei verið í vandræðum með að lesa bækur eða gera allan fjandann annann þó ég sé á kafi í verkefnum og raunar má líta svo á að maður sé að taka til í hausnum og setja hugsun sína í form í blogginu, og svo kannski slær maður einhvern tón sem öðrum líkar. Þetta tjáningarform er ekki það sama og greinarskrif eða skáldsagnaskrif eða hvað annað, þetta er bara nýtt og öðruvísi og þar með vitaskuld álitið ómerkilegra. Það er svo synd að bloggið hafi líka fengið á sig stimpil fyrir að vera vettvangur einhverra svartagallsrausara, en eina ráðið við því er að fleiri sólskinsglaðir hráir og hressir bloggarar taki sig til og láti vaða.

Bloggum svo og dönsum og bloggum og dönsum og tvítum um allt saman ....

Thursday, November 17, 2011

Tvö kvöld

Þar eð ég nenni ekki alveg strax að fara að fara yfir eitthvað af bunkunum mínum hérna þá ætla ég aðeins að þjálfa bloggvöðvanan. Ég hef reyndar verið að spá í hvort það mætti líta svo á að ásamt með hollri fæðu, hreyfingu sé bloggun eitthvað sem maður ætti að hressa sig við með daglega, þó ekki væri nema 10-15 mínútur á dag. Það er svo gaman ef einhver les en aukatriði.

Í nóvember var ég instrúmental í að hóa nokkrum kennurum saman til að pæla í ólíkum málum. Fyrra dæmið var kvöldstund með Þorsteini Mar, rithöfundi og dýflissumeistara,   þar sem hann sagði frá möguleikum á notkun spunaspila í kennslu, almennar pælingar í kringum það og reynslu sína af þessu. Við vorum fá mætt en kynning Þorsteins var frábær og opnaði upp fyrir mér þennan dásamlega undarlega heim og sé ég í þessu fjölmarga möguleika. Bæði tel ég að notkun á spilum af þessu tagi í kennslu og tómstundastarfi beint sé mjög spennandi og vannýtt, og svo held ég að leikvæðing (gamifying) margra kennsluaðferða og hópvinnumódela sé spennandi og vaxandi svið. Ég var einmitt rétt í þessu að ræða við samkennara minn sem sagði mér frá því að hann notaði uppsetningu á spurningakeppni til að rifja upp goðafræði í íslensku - ekki held ég það væri síðra að setja upp spil með aðstæðum þar sem spilarar væru goð og jötnar! Hugmyndin er að hafa framhald á þessu og taka þá nokkrar spilasessjónir vorönn 2012. FEKI, Félag heimspekikennara og Hugleikjafélagið voru þátttakendur í þessu!

Síðar í nóvember áttum við í Félagi heimspekikennara frábæra kvöldstund með Hauki Inga Jónassyni, guðfræðingi, sálgreini og leiðtogapælara. Haukur gagnrýndi þar ástundun heimspeki í akademíu og víðar, og þá einkum fyrir að þeir sem stæðu fyrir heimspekinni væru ekki í tengslum við sjálfan sig og miðluðu einhverjum fræðum án þess að vera sjálfir til staðar. Kynnti hann jafnframt hagnýtar aðferðir til að leiða samræður og fást við vandræðapésa. Grunnhugmynd Hauks lýtur að svokölluðu 'djúpsæi' þar sem kennari / leiðtogi kemur fram sem heild og hefur náð að tengja saman alla eðlisþætti sálar sinnar. Áður hef ég heyrt Hauk segja að heimspekikennarar eigi að stunda 'hispurslausa sjálfstjáningu' sem að nær vel að lýsa hvað um ræðir. Við vorum í Versló á kennarastofunni, sátum í hring, umræður urðu djúpar og myndaðist sérstök orka og ég held allir hafi haldið heim með mikið til að vinna úr, og vonandi er þetta bara byrjunin á samstarf félagsins við Hauk. Hugmyndir hans má svo m.a. lesa um í skemmtilegri bók sem heitir Leiðtogafærni - og svo er væntanleg bókin Samskiptafærni. Meðhöfundur hans að bókunum er Helgi Þór Ingason.

Ég held að oft sé hægt að ná miklu með svona litlum kvöldsamkomum og vona að ég eigi eftir að vera með í meira af svona skemmtilegheitum....

Monday, November 7, 2011

Um skólamál á þriðja áratug tuttugustu aldar í Reykjavík

"Þó að þær aðferðir, sem skólinn beitti bæði í kennslu og til siðunar börnunum, hafi eigi verið taldar alls kostar ákjósanlegar frá sjónarhóli nútímans, ber ekki að skilja þá ábendingu sem ásökun í garð þeirra sem við skólann störfuðu, fremur en það væri ásökun í garð bændastéttar þeirra tíma, að á það væri bent, að ýmsar ræktunaraðferðir þeirra væru nú úreltar, og það enn síður vegna þess að starf skóla okkar hefur enn hvergi nærri náð þeim þroska, að það hafi alls kostar vaxið upp úr hinum úreltu aðferðum, fjarri því. Það eimir mjög eftir af þeim í skólum landsins, meira að segja svo, að oft sér ekki í heiðan himin.“


Ármann Halldórsson (eldri)
: Saga barnaskóla í Reykjavík til 1930, 2001