Sunday, February 26, 2012

Bugsy Malone

Ég fór með fjölskyldunni á Nemó sýningu Versló í ár Bugsy Malone í gær. Eldri dóttir mín hefur verið með tónlistina af YouTube í gangi stanslaust í allan dag, og við vorum öll mjög hrifin. Ég ætla ekki að leggja í einhverjar rosalegar pælingar um þetta, heldur bara þakka fyrir mig og votta krökkunum virðingu mína fyrir þá miklu vinnu sem liggur í þessu, bæði í því að gera sýninguna og líka á árunum sem á undan fara, því svona gerist ekki af sjálfu sér. Mér fannst líka textinn vel þýddur og fluttur, það var gætt vel að jafnvægi í hlutverkum varðandi kynin (áhugavert að skúrkurinn var í anda James Bond illmenna; bækluð kona í hjólastól.... ). Frábær skemmtun og síðasti séns á þriðjudagskvöld, miðar seldir á midi.is!

Náttúrufræðibrautarkrútt

Nú vil ég strax taka það fram að sumir bestu vinir mínir, og margir nánir ættingjar  (pabbi minn, litla systir mín o.fl.) starfa á sviði raunvísinda. Ég ber mikla virðingu fyrir vísindum og hvítum sloppum, lotukerfum, svartholum, erfðamengjum, diffrun og efnajöfnun.

En.

Mér finnst margt annað skipta miklu máli og ég átta mig ekki alveg á því af hverju meirihluti menntaskólanema er á náttúrufræðibraut. Ég skil heldur ekki af hverju meirilhluti framhaldsskólanema þarf að taka spænsku sem þriðja mál, en það er önnur saga.

En.

Nemandi minn í heimspeki (sem er ekki á náttúrufræðibraut) kynnti mig fyrir hugtakinu 'náttúrufræðibrautarkrútt' nýverið. Slíkt krútt getur lært um diffrun og efnajöfnun fyrir próf og skilað nokkuð góðum árangri þar, en berist umræður að þjóðfélagsmálum, menningarmálum, bókmenntum eða öðru slíku þá verður viðkomandi eitt stórt spurningamerki og missir fljótlega áhugann...

Verandi málabrautarmaður í grunninn þá hafði ég gaman af þessu. Náttúrufræðibrautarnemarnir á svæðinu svöruðu fyrir sig með því að kalla félagsfræðibrautina 'rennibraut' og túlki hver það fyrir sig.

Kjarni málsins sem ég vil draga fram er að til þess að við höldum uppi fjölbreyttri og skilvirkri menntun og höldum menningunni og lýðræðinu gangandi dugar ekki að hafa mikinn meirihluta ungs fólks á náttúrufræðibrautum. Og það sem er skuggalegt er að svo skortir fólk til að halda áfram í raungreinum.... samt eru allir á þessum brautum af því að þau vilja 'halda öllu opnu' - þetta er eiginlega hálf öfugsnúið; krakkarnir velja braut svo þau geti farið inn á svið verkfræði og raunvísinda en raunin er svo sú að mjög fáir velja þá leið í reynd, en hafa í staðinn látið sér leiðast í framhaldsskóla (og lært spænsku) í stað þess að sökkva sér í að pæla í menningu, sögu og bókmenntum....

Ég held að hér sé mál sem við þurfum að hugleiða alvarlega. Ég vil jafnvel ganga svo langt að segja að þessi ofuráhersla á að allir taki náttúrufræðibraut sé einkenni á meinsemd sem hefur átt sér margar aðrar og skuggalegri birtingarmyndir.

Wednesday, February 22, 2012

Talað mál og tölvuöld

Ég tel að hlutur hins talaða, samræðna og umræðna sem eru vitrænar, djúpar og gefandi, sé of rýr í menntakerfinu, líkt og fram gengur af því sem ég hef ritað hér undanfarið. Ég hef þó alltaf líka verið mikill áhugamaður um tölvur og tækninýjungar í skólastarfi - og má lesa einhverjar pælingar um slíkt í eldri pistlum. Og á báðum þessum sviðum, og öllum öðrum, tel ég að kennari verða að stunda það sem hann boðar, og helst að skólar í starfi sínu og framgangi sýni að þeir séu vettvangur þeirra gilda og starfsaðferða sem þeir vilja standa fyrir. Þannig verður skóli að vera staður þar sem stöðugt á sér stað lifandi og gagnrýnin umræða og að allir verði þess varir að svo sé. Skóli sem vill vera framarlega varðandi tæknimál verður líka að vera staður þar sem nýjungum í tækni er beitt og andi áhuga og spennu fyrir þeim ríkir. Kennarar í slíkum skóla eru áhugasamir netverjar, blogga og eiga sér tilvist og stöðu í félagsmiðlum og líður vel í slíku umhverfi. Skólinn á líka að hasla sér völl á þessu sviði, miðla fréttum og upplýsingum með sem ferskustum og fjölbreyttustum hætti; þeim hætti sem passar best fyrir meirihluta þeirra sem í honum er, þeas. nemendurna.

Tuesday, February 14, 2012

Að beita lærdómnum

Já, ég hef aldrei getað farið jafn þráðbeint í að nýta eitthvað sem ég hef lært og núna, en ég tók alla tímana í gær í umræður, svona meira eða minn alá Brenifier - og var vel þreyttur í dagslok. Niðurstaða mín er sú að einfaldar reglur, e-ð sem kalla mætti handverkið, svínvirkar og ég hef sjaldan náð eins miklum árangri í að halda umræðum á ensku í enskutímunum. Önnur niðurstaða er að þetta virkar mismunandi í mismunandi hópum, en hins vegar er hægt að stilla dýptarstigið og ná árangri á hvorn vegin sem er. Það sem Brenifier kallar 'work with attitudes' virkar mjög vel sem agastjórnunartæki.

Í heimspekinni var þetta mikil áskorun og voru menn orðnir nokkuð þreyttir í lok dags. Ég held að einbeitingastigið hafi verið hærra en oft áður, en nokkuð fór að bera á óþolinmæði þegar leið á samræðuna. Ég prófaði aðferð þar sem hann kallar 'think the unthinkable'. Það er hins vegar klárt mál að það er eitt þegar markmiðið er að fara út og suður, en tala nokkuð skipulega, eða ef maður vill fara inn í að greina hugtök og taka þannig aðferðina alla leið. Ég finn þó að ég hef sótt í mig veðrið varðandi ákveðni og öryggi, og eins líka að halda sjálfum mér til hlés, eða öllu heldur stilla þátttöku mína skv. því sem við á.

Svona umræður eru mögulegar í venjulegri stofuuppröðun, en það er mun æskilegra að sitja í hring / U. Bekkjarstærðin er vandamál, en ef maður er snarpur og skiptir stundum yfir í 1-pair-share o.s.frv. getur það virkað vel. Ég held reyndar að besta leiðin til að þjálfa sig í tungumáli sem maður er kominn nokkuð áleiðis með (eins og enska í framhaldsskóla) og besta leiðin til að skerpa heimspekilega hugsun sína, sé sú sama, en það er leið hinnar stýrðu en um leið frjálsu samræðu.

Thursday, February 9, 2012

Lærdómur úr semínari í heimspekipraktík

Nú er að síga á seinni hlutann og þetta hefur verið afar merkilegt.

Lykilatriðið fyrir mér er pælingin í að vinna með afstöðu þátttakenda og að fylgjast með hversu erfitt það er fyrir marga að gefa eftir og fylgja reglum leiksins. Stjórnandinn er virkur og krefjandi, en ekki ósanngjarn. Lykil vandinn hjá mér í stjórnuninni var að ég missti einbeitingu og steypti mér inn í umræðuna efnislega, nokkuð sem ég hefði ekki átt að gera. Samt er það ekki vafamál að það gerði dvölina lærdómsríkari að steypa sér svona í laugina. Ég er líka ekki í nokkrum vafa um að ég kem aftur.

Ég mun taka upp töluvert af hugmyndunum beint í heimspekikennslunni en líka almennt í kennslu og færi mig þannig yfir í að vera með sterkari nærveru í stofunni, ég held ég hafi töluvert sterka nærveru, en stefni í að vera sterkari. Með því að nota líka meiri og virkari samtalsaðferðir í þessum dúr, og þá í enskunni án þess að gera kröfur um heimspekilega nærveru verður það auðveldara, en við sjáum til. Ég held að það vanti oft ákveðna festu í kennsluna hjá mér og ætla að vinna í því. Ég held að festan verði ekki á kostnað fjölbreytninnar eða skemmtilegheita, eiginlega þvert á móti.

Ég kem líka út úr þessari vinnu með skýrari hugmynd um heimspekina og hvað hún fjallar um. Þannig er rökleg vinna með hugtök heimspeki, og þá einkum þannig að hópur í samræðu vinni saman að slíkri vinnu. Annað sem talar mjög sterkt til mín er sú áhugaverða tenging austrænna grunnviðhorfa og vestrænna hugtaka og höfunda sem maður kynnist hérna. Grundvallaratriðið þar er hvernig súbjektið, sjálfið, þrár þess og tilfinningar er yfirgefið og hópurinn fer að hugsa. Ég þarf reyndar að huga miklu betur að og gagnrýna skarpa aðgreiningu Brenifier á tilfinningum og skynsemi, en get þó ekki sagt annað en reynsla úr samræðunum sannar að sú nálgun virkar í reynd og að þegar það virkar þá er eins og ákveðnum skýjum létti og skýrleikinn kemur í staðinn.

Svo verður maður bara að æfa sig og æfa og æfa og smám saman fer þetta að verða manni eðlilegar, og ég þróa minn eigin stíl. Eitt í því að það er mikill munur á því að vera kennari og að vera moderator í samræðu, en kennari þarf að geta fært sig á milli þessara hlutverka og það er áskoruninn sem blasir við mér í starfi.

Wednesday, February 8, 2012

Fyrir vinnustofu

Jæja, aðeins meira, nokkur prinsipp Oscars:
-heimspekileg samræða er ekki tilfinningaleg
-einlægni kemur í veg fyrir hugsun (góð lygi er betri)
-þegar samræðan leitar í átt að einum öfgum þá togar stjórnandinn hana í aðra (t.d. frá huglægni í hlutlægni)
-stjórnandinn er mjög virkur
-einn talar í einu og beinir svo máli sínu til annarra skv. fyrirmælum stjórnenda
-það sem maður getur ekki sagt skýrt, með einu orði eða setningu er óskýr hugsun
-í samræðunni reynum við að losna frá egóinu og hættum að vera með óþarfa tillitsemi eða áhyggjur af því að særa aðra o.s.frv.
-svona samræður ganga betur með börnum en fullorðnum

Ég tek núna stjórnina og reyni að vera ég sjálfur þó óhjákvæmilega vinni ég með e-ð sem ég fæ frá Oscari. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig fólk tekur þessu og hversu 'heimspekilegur' ég verð metinn....

Tuesday, February 7, 2012

Brenifier og samræðan

Ég er semsá á ótrúlegu semínari heimspekilegrar samræðu undir handleiðslu Oscar Brenifier og konu hans Isabelle Millon. Öll umgjörðin, hópurinn og framkvæmdin er afskaplega athyglisverð, óvenjuleg og heillandi. Í dag prófaði fólk að koma með workshops og þáði gagnrýni hópsins og meistarans. Ég er að endurnýja mig sem kennari og sé að ákveðin tegund af skerpu í nálgun sýnir þátttakendum meiri virðingu en endalaus eftirgjöf. Ég verð með workshop í fyrramálið.... omg.....

Ekki langt menntablogg, en, verður að duga í bili....

Sunday, February 5, 2012

Menntun sem reynsla

Ég er nú enginn sérfræðíngur, og eiginlega afskaplega langt frá því, með þeas Dewey kallinn, en hann var upptekinn af reynsluhugtakinu og lýðræði. Ég er það líka, þó ég hafi ekki náð að setja mig djúpt inn í hans sýn. Ég vil byggja aðeins áfram á umræðunum um samræður og umræður og leggja til. að til þess að einhver merkingarbær reynsla fari fram þurfi að vera e.k. krækja sem dregur inn þátttakendur, nemendur og kennara .... þetta verður þá að vera e.k. áskorun, spenna, eitthvað tilfinningalegt. Annað sem ég held að þurfi er fjölbreytni ...

Því miður vantar held ég dáldið upp á áskoranir, spennu, tilfinningar og fjölbreytni í skólum, þó margt sé frábært í gangi. Ég held að heimspekileg samræða og meiri leikur af ýmsu tagi sé byrjun á því að færa þetta í betra horf....

...er núna staddur á námskeiði í Frans um heimspekilega samræðu, við skulum sjá hvað kemur út úr því....