Thursday, February 15, 2024

Skóli eftir máli

Ég hlustaði á frábært viðtal við Harald Sigurðsson, skipulagsfræðing í Víðsjá nýlega, sem má finna hér. Viðtalið erum um bók hans Samfélag eftir máli, og virkilega áhugavert að heyra hvernig hann tengir titilinn við sögu Svövu Jakobsdóttur, Eldhús eftir máli.

Harladur tengir pælingar sínar og rannsóknir í skipulagsfræðum við verk Jane Jacobs  sem er mikilvægur hugsuður á þessu sviði, en ég þekki hana og hennar verk í gegnum skrif James C. Scott sem spinnur út frá hugmyndum Jacobs í bók sinni Seeing like a State, sem er mikið merkisverk. Rauði þráðurinn í þessum pælingum er djúpstæður and-módernismi og ímugustur á allri ofskipulagningu, svæðisskiptingu og tilraunum til að byggja skipulag á einhverjum mælingum og hugmyndum sérfræðinga um hvernig mannlífi sé best hagað. Eins og ég skil Harald, Jacobs og Scott er mikilvægt að hafa í huga hvað fólkið sjálft vill og leyfa hlutum að þróast aðeins í rólegheitum af sjálfu sér. Blanda alskonar starfsemi í hverfum, hafa fjölbreyttar byggingar og byggingarefni, blanda saman samfélags, aldurshópum o.s.frv. 

Skólinn er svo sannarlega skóli eftir máli og kassalögun og rúðustrikun menntakerfisins svo gott sem algjör. Takið eftir að niðurbrot tímans í stundatöflu og niðurbrot rýmisins í skólastofur og ganga er nánast hliðstætt. 







Vissulega eru til dæmi um alskonar tilbrigði, en ég hef heimsótt mikinn fjölda skóla í Evrópu og nokkra í Bandaríkjunum og þetta grunnform í nálgun á tíma og rúm er algjörlega dómínerandi alstaðar. 

Þessi nálgun er mér algjörlega eðlileg og runnin í merg og bein, og svo á við um nánast um alla, og að láta sér detta í hug að hægt væri að gera þetta einhvern veginn öðruvísi virðist fjarsæðukennt. Ef maður hugsar út í að hugmyndin að baki hönnuninni á skólahúsnæðinu og stundatöflunni byggir á einhverjum mannanna verkum og væntanlega einhverjum misgóðum mælingum fyrri tíma þá kannski gæti maður aðeins farið að hnikla brýrnar og enn frekar ef farið er að velta fyrir sér að þetta fyrirbæri sem við erum öll látin ganga í gegnum (bókstaflega) er ekkert svo sérstaklega gamalt (ekki frekar en t.d. hinn heittelskaði einkabíll).

Í háskólum samtímans og framhaldsskólum Íslands hefur svo mælistikunni og ferköntuninni verið brugðið á viðfangsefnin í þessum kössum í tíma og rúmi sem skólakerfið býður upp á, í formi svokallaðra "eininga" og "áfanga". Hér er um að ræða hugsmíð sem bútar niður þekkingu í rafsuðu, dönsku og heimspeki í hluta sem séu með einhverjum hætti sambærilegar. Þetta er nokkuð dularfull pæling, en þó hugmyndin sé frekar ung er hún þegar orðin mörgum mjög töm og þykir allt að því dónalegt að brydda upp á að eitthvað sé athugavert við hana. 

Við þessu má bregðast með að segja að það þurfi að hafa skipulag á hlutunum, og vissulega þarf stað og tíma til að læra og svo að hafa einhver verkfæri til að átta sig á hvort fólk kunni hluti eða ekki. Mér finnst samt hæpið að sú niðurstaða sem altumlykjandi staðlar samtímans byggja á að það hljóti að vera þannig að öll viðfangsefni fyrir alla hópa lærist best svona. Gæti aldursblöndun átt við stundum? Er gott að vera stundum einn með sjálfum sér? Gæti verið gott að fá að vera í friði með jafningjum sínum í meira en korter milli kennslustunda? Getur verið að maður læri betur ef maður þarf ekki stöðugt að vera með það bakvið eyrað að einhver sé með augu og eyru á öllu sem maður gerir? Er það kannski möguleiki að það sem henti og hentaði mér, henti þér kannski ekki? 

Ég er ekki að mæla fyrir einhverri alsherjar byltingu, enda það síðasta sem þarf eitthvað nýtt "átak" enda er ég málsvari "átaks gegn átökum". Ég held hins vegar að í rólegheitum væri frábært að gefa meira rými fyrir fjölbreytni, bæði að skólar almennt taki að auka fjölbreytni í sínum störfum, að tilraunaskólar og prógrömm af ýmsu taki fái að blómstra, að fólki gefist raunverulegt tækifæri til að prófa sig áfram og gera tilraunir með heimaskólun og afskólun og svo framvegis, að kannski verði til skólar sem hafi mýkri, sveigðari og meira flæðandi nálgun .... þróunin í þá átt verður hins vegar að vera mjúk, sveigð og flæðandi og án alls æsings ....