Hér ætla ég að leggja örlítið út af fyrirlestrum Jóns Torfa Jónassonar og Catherine Snow sem báðir voru haldnir sem hluti af framlagi Menntavísindasviðs til 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Mjög góðir og upplýsandi fyrirlestrar, líkt og flest það sem bar á góma í september í tilefni afmælisins hjá Menntavísindasviði og óska ég þeim til hamingju með myndarskapinn.
Jón Torfi Jónasson var epískur og leit vítt yfir svíðið í lestri sínum enda viðfangsefnið magnað - menntun til framtíðar. Hann er þó að mínu mati kannski beittari og meira afgerandi en oft þegar ég hef heyrt til hans hér og fagna ég því. Útlistun hans á tregðu menntakerfisins er vissulega ekki ný, og ekki sérstaklega hressandi. Hins vegar fannst mér áhugavert hveru jákvæður hann er út í nýja löggjöf í menntamálum og hversu miklu áherslu hann leggur á félagslegt og menningarlegt hlutverk menntastofnana.
Það er þó þegar hann tekur afdráttarlausu afstöðu með áherslu frá Rannsóknarnefnd Alþingis um að efla siðfræði og siðvæðingu skólanna sem ég sperrti eyrun mest. Hann tekur það skýrt fram að það að setja inn nokkra tíma í siðfræði eða heimspeki í skólanna hér eða þar sé alsendis ófullnægjandi viðbrögð við þessari kröfu, og auglýsir hann eftir raunverulegum viðbrögðum við þessu. Ýmsar nýjar áherslur nýrra laga, sjálfbærni, jafnrétti o.s.frv. eru líka augljóslega kall á mun heimspekilegri og opnari nálgun en við þekkjum og höfum þekkt .... og þá hljóta faggreinarnar að gefa eftir - nýir tímar, nýir nemendur: nýir kennarar og ný kennaramenntun. Það felur ekki í sér að við bætum ákveðnum skammti af Hegel og Platon inn í kennaranám heldur að við gerum námið opnara, rannsóknarmiðaðra og lýðræðislegra - og samræðan er form slíks náms.
Catherine Snow er með sértækara viðfangsefni sem er í grundvallaratriðum háþróað læsi. Þetta er viðfangsefni sem ætti að fá okkur til að sperra eyrun miðað nýlegar niðurstöður um slaka stöðu hérlendis á þessu sviði í ákveðnum hópum. Lykilvandi þeirra nemenda sem eiga í vandræðum með að lesa sér til skilnings er skv. Snow lélegur orðaforði. Lélegur orðaforði leiðir til þess að nemandinn skilur ekki textann sem hann les og missir þannig áhuga og einbeitingu og lendir í vítahring. Lausninn á þessu er þannig ekki einfaldlega að lesa meira, það dugar ekki til. Hvaða aðferð hafa þá Snow og kollegar hennar talið besta á þessu máli? Jú, samræður um áhugaverð málefni sem krefjast þess að nemandinn tileinki sér orðaforða sem þarf til að koma skoðunum sínum og niðurstöðum á framfæri - aðferðir sem líkjast mjög þeim sem hafa þróast innan barnaheimspekinnar, í fyrirbærum eins og í sókratísku samræðunni (sem ég hef prófað mig áfram með) og í aðferðum Oscars Brenfier.
Því tel ég það einsýnt að mikilvægur þáttur í uppbyggingu menntunar til framtíðar sé að stórefla þátt samræðu og rökræðu fyrir alla nemendur á öllum skólastigum í margvíslegu samhengi. Ég tel líka að hér opnist möguleiki til að nýta þá færni til að opna fyrir lýðræðislega þátttöku nemenda í eigin námi og að í því felist lykill að þeirri sjálfbærnihugsun sem kemur fram í nýju menntalögunum. Við sem erum að bauka í heimspeki með ungu fólki erum meira en tilbúinn að leggja okkar til að kippa skóla samtímans örlítið inn í framtíðina.
No comments:
Post a Comment