Wednesday, December 5, 2018

12 daga twitter

Nú tek ég þátt í skemmtilegu dæmi á Twitter, sem heitir 12dagatwitter þar sem ýmsum atriðum tengdum menntun, kennslu og upplýsingatækni eru gerð skil með tístum þátttakenda. Áhugi minn á því að vera með í þessu tengist því að mér finnst að mikið af svona, tja, framsæknari aðferðum og hugmyndum í kennslu eigi sér farveg með tækninni og að kennarar sem eru áhugasamir um að nýta sér það nýjasta þar séu ástríðufullir fagmenn sem hafa mikið fram að færa.

Hitt er svo annað mál að það eru líka vandamál tengd tækninni - og hérna ætla ég bara að nefna þrjú, og þá raðað eftir alvarleika:

1) Tækin sem við notum eru og gögnin sem við miðlum með þeim eru eign stórfyrirtækja. Um leið og maður opnar Facebook síðu fyrir hópinn sem maður fer með í nemendaskiptin eru alls konar samskipti, myndir og allt svoleiðis komnar í vörslu Zuckerberg og félaga sem geta þá nýtt þetta með ýmsum hætti.... þegar maður opnar YouTube til að sýna vídeó um vistfræði Amazon skógarins getur skyndilega opnast auglýsing um rússneska hjúskaparmiðlun... Markaðsvæðing menntakerfisins kemur þarna aðeins inn bakdyrameginn og er raunverulegt vandamál.

2) Allt skólastarf þarf að laga sig að upplýsingakerfum sem eru í eigu fyrirtækja úti í bæ (Mentor, Inna). Það kann að vera að allir þar séu miklir fagmenn, en það er þannig að oft þarf að laga skólastarfið að kerfinu en ekki öfugt og þetta er slæmt. Þannig getur upplýsingatæknin af sér einsleitni og kerfishugsun sem er ósjarmerandi. Hafandi sagt það finnst mér INNA að mörgu leyti skemmtilegt umhverfi og nota það mjög mikið, og það að allt sé vistað miðlægt og svoleiðis hefur kosti, en ég tel að þetta sé líka vandamál.

3) Símar, tölvur og önnur snjalltæki eru mjög öflug til afþreyingar, og þegar maður vill t.d. halda uppi umræðum í tímum þá eru þau mjög til trafala. Vitaskuld er hægt að setja reglur og vera með stöðugt eftirlit, en þá þarf að eyða tíma og orku í það sem er leiðinlegt. Væntanlega munum við finna okkur leiðir til að lifa með tækninni, enda set ég þetta sem atriði númer þrjú. Mér þykja allar hugmyndir um bönn á þessu sviði fráleitar, bara svo það sé alveg á hreinu, en ég þekki það mjög vel að tækin hafa ekki orðið til þess að gera kennslustundir hjá mér í heimspeki (þar sem ég nota umræður mikið) betri.

Gaman að fá smá viðbrögð kannski - bendi á að yfirskrift bloggsins er hrátt og hresst :-)

Monday, November 19, 2018

Bekkjarkerfi og áfangakerfi II

Í tilefni af umræðum um bekkjarkerfi og áfangakerfi sem tengjast bloggi mínu um efnið sem hafa spunnist á Facebook þá ætla ég að bæta aðeins við og bregðast við ákveðnum pælingum hér. Umræðan er á nokkuð óvísindalegum nótum, og tengist reynslu og tilfinningu okkar fyrir kerfunum sem kennarar annars vegar og nemendur hins vegar.

Kveikja umræðunnar var hugtakið "umhyggjusamband" nemenda og kennara sem er áhugavert fyrirbæri. Bekkjarkerfi er ekki forsenda slíks sambands, en ég held að slíkt samband myndist ekki milli kennara og nemenda í hóp sem kennari kennir eina önn, til þess þarf lengri tíma. Að sama skapi myndast ekki sterkt tengsl milli nemenda sem sitja saman eina önn í hóp, ólíkt því sem gerist í bekk sem er saman í flestum fögum yfir lengra tímabil. Tilgáta mín væri þá að í þeim tilfellum þar sem nemendur hafa sömu kennara um lengri tíma en eina önn í bekkjarskólum geti slíkt samband myndast. Að sama skapi myndast örugglega sterk slík sambönd innan lítilla skóla, enda hafa þar nemendur oft sömu kennara um lengri tíma og nánd milli nemenda og kennara er miklu meiri, og skiptir þá engu þó þeir skólar séu áfangaskólar. Að sama skapi held ég að svipað geti verið upp á teningnum á litlum brautum, og myndi ég nefna sem dæmi Alþjóðabrautina hjá okkur í Versló, sem ég tel vera mjög merkilegt menntamenningarfyrirbæri fyrir margra hluta sakir.

Í bekkjarskóla er það þannig að hver bekkur hefur ákveðinn karakter, félagslega og námslega. Ef vel er þá virkar bekkurinn sem eins konar "lærdómssamfélag" þar sem sterkir nemendur eru til stuðnings þeim sem veikari eru fyrir námslega (og félagslega) - og bekkurinn stendur saman þegar á gefur, bregst sameiginlega við ósanngirni af hendi kennara o.s.frv., veitir nemendum ákveðið skjól sem ekki er fyrir hendi í áfangaskóla. Ef námsandinn er ekki jákvæður í bekknum og ef leiðandi aðilar innan hans hafa tilhneigingu í leiðindi getur andinn orðinn lærdómsfjandsamlegur, sem er afleitt.

Sjálfur var ég nemandi í áfangaskóla´, MH,  og var mjög ánægður. Ég var í frábærum vinahóp, sterkur nemandi og naut þess að geta valið mikið af áföngum á sviðum sem hentuðu mér - og ég náði góðu sambandi við kennara. Valið, sveigjanleiki og að sækja sér styrk í vinahópinn er það sem áfangaskólinn gefur, og það er auðveldara að feta sína eigin braut - bekkjarskólar geta vissulega ýtt undir ákveðna meðalmennsku. Fyrir ýmsa er það þannig að valið sem að skólinn sem þau eru í býður er ekki endilega eitthvað sem hentar þeim, vinahópurinn er kannski alls ekki öflugur innan skólans og samband við kennara er mjög takmarkað. Mig grunar t.d. að fyrirkomulag varðandi umsjónakennara nái ekki að skila sér í sterkum tengslum nemenda og kennara í áfangaskólum.

Önnur áhugaverð atriði eru kostir og gallar þess að nemendur hafi heimastofur, þróun og útfærsla félagslífs (t.d. bekkjarpartí), ákveðnar pælingar varðandi t.d. hópavinnu (sem þarf að hugsa með öðrum hætti í bekkjarkerfi en áfangakerfi) - og svo síðast en ekki síst það sem ég held að næsta blogg í þessum flokki beinist að möguleikar á að gera bekkjarkerfið framsæknara. 

Friday, November 16, 2018

Umhyggjusamband nemenda og kennara - hvað gildir það?

Fyrir allnokkrum árum varð ég var við það að samkennari minn (sem því miður er hættur fyrir aldur fram) var að vasast í því að hringja í, og jafnvel sækja nemendur sjálfur sem áttu erfitt með mætingar. Þótti mér nokkuð langt gengið í meðvirkni þarna - en samt - það er eitthvað fallegt við þetta. Áhugavert er að þessi kennari var klárlega það sem mætti kalla "af gamla skólanum" , var bæði strangur og gerði miklar kröfur til nemenda sinna eftir því sem ég best veit.

Þróun menntunar - líkt og samfélagsins í heild - einkennist af ákveðinni kerfisvæðingu. Ég hlýddi á ágætan lestur Atla Harðarsonar um þetta nýlega og þar m.a. kom hann inn hvernig það er ekki spurt "Talarðu dönsku?" heldur "Hvað ertu með margar einingar í dönsku?" Þegar skólar verða að einkunna og eininga verksmiðjum er hætt við að persónulegi þátturinn gefi undan.

Alvarlegur galli á áfangakerfinu er að kennari er bara með hóp í eina önn. Í vissum tilfellum er þetta kappnóg, en hins vegar hugsa ég að til að mynda almennilegt "umhyggjusamband" þá þurfi heilan vetur - fyrir mig dugir önnin ekki. Ég næ alltaf langbesta sambandinu við fyrsta árs bekkina sem taka tvo áfanga í röð og ég er með í heilan vetur.

Skylt þessu er hið mikla "yfirferðarblæti" sem einkennir stemminguna í skólum - en stuttir áfangar og mikil áhersla á að "klára efnið" minnkar tíma sem kennari hefur til að þróa e.k. samband við nemendur, og reyndar hefur það líka slæm áhrif varðandi tilraunir til að auka fjölbreytni í kennsluaðferðum o.s.frv. Þarna kemur líka inn í vandinn sem felst í þessari spurningu - "er þetta til prófs" / "gildir þetta".

Ég tel öruggt að markviss vinna til að efla umhyggjusamband í framhaldsskólum myndi auka gæði náms, minnka brottfall og gera starf kennara og nemenda ánægjulegra í alla staði.

Tuesday, May 1, 2018

Þrjár forsendur fyrir leiðtoga

Samfélög mannfólks og hreyfingar af öllu tagi hafa þörf fyrir leiðtoga og stjórnendur. Hverjir þetta eru og hvernig viðkomandi eru valdir varðar miklu. Við lifum við fyrirkomulag í landinu okkar sem heild, og jafnframt í margvíslegum félagsamtökum sem við köllum lýðræði. Helstu farvegir þess eru annars vegar kosningar og svo hins vegar starf á ýmsum fundum og þingum.  Algengur og hættulegur misskilningur er að kosningarnar séu aðalatriðið, en að mínu viti er það lýðræðislegt félagsstarf sem skiptir mestu máli, og hnignun þess er vandamál. En þessi pístill átti ekki beint að vera um það. Ég ætla að setja fram tilgátu um þrjú grundvallaratriði sem skipta máli í sambandi við stöðu lýðræðislega kjörinna leiðtoga, svona hugsanlega mælistiku til að nota í sambandi við mat á þeim. Ég mun svo koma með eitt dæmi sem sýnir mögulega notkun á módelinu. Rétt að vara við að þetta er ekki sérstaklega frumlegt, en kannski hefur einhver gaman af þessu.

1) Leiðtogi er formlega rétt kjörin. Við valið var öllum reglum fylgt, viðkomandi er það sem kalla mætti "réttkjörin". Hér gildir að tryggt sé að ekki hafi verið svindlað, rétt hafi verið farið með kjörgögn, hlautlausir matsmenn lagt blessun sína yfir ferlið o.s.frv.

2) Leiðtogi nýtur trausts meirihluta þeirra sem hann á að leiða á hverjum tíma. Þetta er nokkuð afstæðara, en hér  hægt að notast við almenna orðræðu, skoðanakannanir o.s.frv. Leiðtogi sem um langt skeið er í embætti í óþökk meirihluta þeirra sem hann á að leiða er afleitur leiðtogi. 

3) Leiðtogi stendur siðferðilega traustum grunni, byggt á sjálfsþekkingu og raunsærri sýn á raunverulegt erindi sitt í stöðuna. Þetta mætti hugsanlega tengja við eitt af grunnsjónarmiðum jógaheimspeki, eða satya sem er að sjá hlutina eins og þeir raunverulega eru. Þetta er vitaskuld vandmeðfarið, en ég myndi líta þannig á að annars vegar er þetta atriði sem leiðtogi á við sjálfan sig, og hins vegar í eins konar persónulegu sambandi viðkomandi við hvern og einn í heildinni sem leidd er... Þessi afstaða kann að vera röng og jafnvel uppblásinn, en ég tel að þetta sé mikilvægt atriði og oft vanmetið.

Dæmið sem ég hef í huga er vitaskuld Trump forseti Bandaríkjanna,
1) mörg vafaatriði.
2) nei, svo virðist ekki vera og
3) .... tja, já, hmm...... Líklega má sér segja að hans afstaða til erindis síns virðist vera sú að þarna sé hann á hárrréttum stað, en margir þeir sem tilheyra ríkinu hans og svo við sem horfum á þetta utanfrá teljum að það byggi á einhverjum hrikalegum misskilningi....

Svo er bara að prófa að máta þetta á hina og þessa :-) 

Friday, April 13, 2018

KÍ þing 2018 - nokkrar pælingar

Jæja, þá er fulltrúi 109 á ársþingi KÍ 2018, fulltrúi félagsdeildar VÍ í FF kominn heim eftir vægast sagt áhugaverða daga við þingstörf.

Ég ætla hér, í hráu og hressu máli að láta vaða nokkrar hugleiðingar um þingið.... ég ætla ekki að deila því inn á ákveðna félagsmiðla því ég nenni eiginlega ekki að fá þann væna skammt af svívirðingum innblásnum af heift sem myndu fylgja því. Fæ gusuna líklega samt en ég vil samt ekki alveg snarþagna bara út af því.

Það er mikilvægur lærdómur í því hvernig félagsstarf og lýðræði virkar að taka þátt í svona þing. Lýðræði og félagsstarf er þolinmæðisvinna og það reyndi vel á það. Jafnframt er það líka þannig að þetta virkar:
-mál er lagt fram
-nefnd rýnir það
-fulltrúar fá að ræða og lagfæra....

Það var reyndar áhugavert að sum mál sem að mínu mati eru ekki stórvægileg fengu mun meiri umfjöllun en önnur, t.d. kjaramálin, en það er nú bara eðli lýðræðisins og ekki mitt að dæmi ;-)

Atriði sem koma frá nefndum eru oftast gagnleg og svo koma ábendingar annarra fulltrúa oft inn með þeim hætti að hlutir eru færðir til betri vegar og hugsanlega misskilningur leiðréttur o.s.frv. Atriði sem ég velti þó fyrir mér er hvort það ættu að vera einhver vinnulagsreglur um fjölda mála sem lagðar eru fyrir og fram af ákveðnum nefndum - því milli nefnda var töluvert ójafnvægi í þessu.

Hugsanlega það almikilvægasta við þingið er það er vettvangur tengslamyndunar, bæði innan félaga sem mynda KÍ heildina og svo líka þvert á félögin. Ég sat með félögum úr SÍ og FF á borði og myndaðist þar góð stemning og það var bæði fróðlegt og skemmtilegt. Voru félagar mínir margir reyndari en ég og það kom sér oft vel.

Ég lít svo á að KÍ standi fyrir ákveðna hugsjón, og í raun ákveðna pólítík. Kennarar eiga að standa saman, standa vörð um menntun og velferð í landinu og njóta sömu kjara burtséð frá skólastigi. Þetta er mín einlæga trú. KÍ á jafnframt að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og standa með kennurum um allan heim gegn holskeflu niðurskurðar, einkvavæðingar og nýfrjálshyggju sem er helsta ógnin sem steðjar að mannkyninu að mínu mati.

Síðasta atriðið var svo formannsuppákoman. Ég varð fyrir vonbrigðum með útkomunu þar, ég ber ekki traust til formannsins og fannst framganga stuðningsliðs hans þarna fremur sérkennileg og málið allt hið undarlegasta. Í þessu reyndist ég vera í minnihluta (þó nokkuð stórum) þingfulltrúa. Ég bý hins vegar í landi þar sem þeir sem hafa farið með æðstu stjórn hafa nánast aldrei verið mér að skapi svo þetta er kunnugleg tilfinning - en svona er lýðræðið. Það var hins vegar líka lýðræðislegt að það kæmi skýrt fram að allnokkur hópur okkar telur að staða Ragnars Þórs sé þannig að hann sé ekki heppilegur formaður, og dramatíkin og æsingurinn í viðbrögðunum við því fannst mér alveg út úr kortinu. En það er nú kannski bara ég. Og þessi málatilbúnaður um að nú bara fari allir nemendur endalaust að ljúga upp á okkur er afar ógeðfelldur.

KÍ lifir þetta af, og við sjáum hvað gerist á næstunni. Það er nóg af áskorunum í kjaramálum, skólamálum og réttindamálum og innan raða allra félaganna fullt af frábæru fólki sem hefur kraftinn í að díla við það allt saman: sumir miklir aðdáendur meistarans úr Nolló, aðrir sem vildu helst sjá einhvern annan í embættinu. So it goes.