Saturday, October 18, 2014

biophilia, box, snjallsímar, ameríka, leikur og helgi veruleikans

Síðan ég bloggaði síðast hef ég meðal annars kynnst biophiliu Bjarkar, kíkt í nokkra tíma í amerískum einkaskóla, fylgst með nokkuð þungu sinni með umræðu um niðurskurð og einkaframtak í íslensku skólakerfi, farið á stutt námskeið í hnefaleikum (ég féll og þarf að taka námskeiðið aftur)  og líkt og margir kennarar klórað mér í hausnum yfir ógnarvaldi sem að félagsmiðlar og snjallsímar hafa yfir nemendum mínum.

Ég dreg af öllu þessu (og öllu hinu líka) margvíslega lærdóma.... t.d.

-Það er ótrúlega skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt og fara inn í aðstæður sem eru óþægilegar, eins og t.d. að verða nemandi í sporti sem er mjög erfitt og feisa það að vera lélegastur í bekknum - kannski er það einmitt þetta sem nemendur eru að forðast með því að leita á náðir snjallsímans
-Mikilvægi þess að læra í mynstrum. Biophilia er eitt algjörlega magnað listaverk sem kennir manni margt, og einn lykillærdómurinn er að skoða allt og sjá mynstrin, í tónlist, náttúrunni og mannssálinni. Þetta sér maður líka í ljóðum og hvarvetna, og líka í jafneinföldum hlut eins og uppbyggingu ritgerða. Mín tilfinning er sú að á minni tíð sem nemandi á neðri skólastigum hafi svona kerfishugsun ekki verið mjög almenn.... hnefaleikar byggja líka upp á því að læra að hugsa og hreyfa sig samkvæmt kerfi og finna svo leið til að finna frelsi og sköpun innan kerfisins.
-Í heimsókn í ameríska skólann varð ég mjög hugsi yfir misskiptingu auðs í því samfélagi, en ég ætla að láta það liggja milli hluta. Ég var aðallega heillaður af því að sjá hvrenig kennararnir samsömuðu sig efninu og náðu athygli og virkni hjá nemendum. Ég fór í enskutíma hjá gamalreyndum kennara og líka í eðlisfræðitíma. Ekki var um að ræða neinar kennslufræðilegar flugeldasýningar en kannski frekar það sem ég myndi vilja kalla mjög 'mindful' nálgun á viðfangsefnin þar sem nemendur hrifust með og tóku þátt nánast knúnir áfram af því andrúmslofti sem kennarinn skapaði - eitthvað sem mætti kannski kalla karísmatíska kennsluaðferð.Gátan hér er kannski hvað er það sem þetta fólk gerir og hefur og hvernig getur maður ræktað það með sér. Sú staðreynd að þau geta einbeitt sér að efninu, eru með litla hópa og engin félagsleg vandamál meðal nemenda að kljást við er lykilatriði, að sjálfsögðu, en kannski er það einmitt við slíkar aðstæður sem hægt er að greina hvernig maður gæti nálgast þetta....
-Og í beina framhaldi þá er það helgi heimsins, djúp virðing fyrir viðfangsefninu, aðstæðunum og sjálfum sér sem er kannski það sem þarf að finna og ná fram í tengslum við menntunina. Nákvæmlega það gegnsýrir einmitt listaverk Bjarkar og ef vel er með farið gæti það orðið til að kveikja á þeirri tilfinningu hjá nemendum. En þá dugar ekki að vera stöðugt með hugann við hvað verður á prófinu og hvort að gráðan sem þú stefnir að skili þér x eða y í laun.... og sú ögun líkamans sem er fólgin í því að ná tökum á hinum sætu vísindum (the sweet science=box) krefst þessa líka. Við getum ekki fjarlægt snjallsímana af plánetunni, en ef við getum blásið nemendum okkar í brjóst dýpri virðingu og djúpstæðri forvitni gæti verið að við getum slegið á ægivald þeirra.

Hér er kannski lesandinn einmitt komin með fleiri spurningar en svör og þess vegna hætti ég í bili.



Tuesday, June 24, 2014

ólæsi - ofskólun?

Vá, langt síðan síðast... orðinn master í menntunn í millitíðinni og whatnot.

Allavega, örstutt, hrá og hress, pæling.

Umræða um ólæsi og að skólarnir eigi einhvern veginn að standa sig betur í að framleiða læsi hefur verið ofarlega á baugi undanfarið.

Mér dettur í hug hvort að það gæti verið að lausnin á þessu gæti verið að gefa meira lausan tauminn og gefa pláss fyrir alskonar.

Fyrirbæri sem ég hef gaman af eins og rokk og spunaspil eru t.d. sprottinn upp utanvið og gjarna að einhverju leyti í andstöðu við skólana og eiga rætur sínar á tímum þegar skólasókn er minni, og ef ég skil pælingarnar rétt læsi var betra. Sama á við um rætur aktívisma og jafnréttisbaráttu af ýmsu tagi.

Lausnin gæti þá verið að minnka skólasókn til að auka læsi, og/ eða breyta starfinu í skólunum yfir línuna þannig að sjálfræði og sköpun nemenda aukist til muna.

Mætti etv. orða þetta þannig að við þvingum ekki læsi upp á fólk til þess að það standi sig sem einhverjir ímyndaðir fyrirmyndarþegnar í einhverju lýðræði sem okkur finnst frábært, heldur frekar þannig að við búum til óþvingaðar og lýðræðislegar aðstæðir og upp úr þeim munu spretta alskonar elegant konur og menn sem munu móta lýðræði framtíðarinnar - sem við höfum engan grun um hvernig verður.

Hafið þökk fyrir lesturinn.