Thursday, February 15, 2024

Skóli eftir máli

Ég hlustaði á frábært viðtal við Harald Sigurðsson, skipulagsfræðing í Víðsjá nýlega, sem má finna hér. Viðtalið erum um bók hans Samfélag eftir máli, og virkilega áhugavert að heyra hvernig hann tengir titilinn við sögu Svövu Jakobsdóttur, Eldhús eftir máli.

Harladur tengir pælingar sínar og rannsóknir í skipulagsfræðum við verk Jane Jacobs  sem er mikilvægur hugsuður á þessu sviði, en ég þekki hana og hennar verk í gegnum skrif James C. Scott sem spinnur út frá hugmyndum Jacobs í bók sinni Seeing like a State, sem er mikið merkisverk. Rauði þráðurinn í þessum pælingum er djúpstæður and-módernismi og ímugustur á allri ofskipulagningu, svæðisskiptingu og tilraunum til að byggja skipulag á einhverjum mælingum og hugmyndum sérfræðinga um hvernig mannlífi sé best hagað. Eins og ég skil Harald, Jacobs og Scott er mikilvægt að hafa í huga hvað fólkið sjálft vill og leyfa hlutum að þróast aðeins í rólegheitum af sjálfu sér. Blanda alskonar starfsemi í hverfum, hafa fjölbreyttar byggingar og byggingarefni, blanda saman samfélags, aldurshópum o.s.frv. 

Skólinn er svo sannarlega skóli eftir máli og kassalögun og rúðustrikun menntakerfisins svo gott sem algjör. Takið eftir að niðurbrot tímans í stundatöflu og niðurbrot rýmisins í skólastofur og ganga er nánast hliðstætt. 







Vissulega eru til dæmi um alskonar tilbrigði, en ég hef heimsótt mikinn fjölda skóla í Evrópu og nokkra í Bandaríkjunum og þetta grunnform í nálgun á tíma og rúm er algjörlega dómínerandi alstaðar. 

Þessi nálgun er mér algjörlega eðlileg og runnin í merg og bein, og svo á við um nánast um alla, og að láta sér detta í hug að hægt væri að gera þetta einhvern veginn öðruvísi virðist fjarsæðukennt. Ef maður hugsar út í að hugmyndin að baki hönnuninni á skólahúsnæðinu og stundatöflunni byggir á einhverjum mannanna verkum og væntanlega einhverjum misgóðum mælingum fyrri tíma þá kannski gæti maður aðeins farið að hnikla brýrnar og enn frekar ef farið er að velta fyrir sér að þetta fyrirbæri sem við erum öll látin ganga í gegnum (bókstaflega) er ekkert svo sérstaklega gamalt (ekki frekar en t.d. hinn heittelskaði einkabíll).

Í háskólum samtímans og framhaldsskólum Íslands hefur svo mælistikunni og ferköntuninni verið brugðið á viðfangsefnin í þessum kössum í tíma og rúmi sem skólakerfið býður upp á, í formi svokallaðra "eininga" og "áfanga". Hér er um að ræða hugsmíð sem bútar niður þekkingu í rafsuðu, dönsku og heimspeki í hluta sem séu með einhverjum hætti sambærilegar. Þetta er nokkuð dularfull pæling, en þó hugmyndin sé frekar ung er hún þegar orðin mörgum mjög töm og þykir allt að því dónalegt að brydda upp á að eitthvað sé athugavert við hana. 

Við þessu má bregðast með að segja að það þurfi að hafa skipulag á hlutunum, og vissulega þarf stað og tíma til að læra og svo að hafa einhver verkfæri til að átta sig á hvort fólk kunni hluti eða ekki. Mér finnst samt hæpið að sú niðurstaða sem altumlykjandi staðlar samtímans byggja á að það hljóti að vera þannig að öll viðfangsefni fyrir alla hópa lærist best svona. Gæti aldursblöndun átt við stundum? Er gott að vera stundum einn með sjálfum sér? Gæti verið gott að fá að vera í friði með jafningjum sínum í meira en korter milli kennslustunda? Getur verið að maður læri betur ef maður þarf ekki stöðugt að vera með það bakvið eyrað að einhver sé með augu og eyru á öllu sem maður gerir? Er það kannski möguleiki að það sem henti og hentaði mér, henti þér kannski ekki? 

Ég er ekki að mæla fyrir einhverri alsherjar byltingu, enda það síðasta sem þarf eitthvað nýtt "átak" enda er ég málsvari "átaks gegn átökum". Ég held hins vegar að í rólegheitum væri frábært að gefa meira rými fyrir fjölbreytni, bæði að skólar almennt taki að auka fjölbreytni í sínum störfum, að tilraunaskólar og prógrömm af ýmsu taki fái að blómstra, að fólki gefist raunverulegt tækifæri til að prófa sig áfram og gera tilraunir með heimaskólun og afskólun og svo framvegis, að kannski verði til skólar sem hafi mýkri, sveigðari og meira flæðandi nálgun .... þróunin í þá átt verður hins vegar að vera mjúk, sveigð og flæðandi og án alls æsings .... 



Saturday, January 20, 2024

Kulnun kennara

Athugið: Þessi pistill er skrifaður fyrst og fremst frá sjónarhóli framhaldsskólakennara og er ekki byggður á rannsóknum, meira svona hráar og hressar pælingar byggðar á perónulegri reynslu og pælingum. 

Kennarastarfið er krefjandi, en líka mjög skemmtilegt, gefandi og áhugavert. Margt mæðir á okkur og getur valdið streitu. Hér falla undir erfið samskipti við nemendur, foreldra, erfiðir stjórnendur og samstarfsfólk. Ekkert af þessu eru þættir sem við getum beinínis stjórnað. Þess vegna er mikilvægt að huga að þeim þáttum í starfinu sem við getum stjórnað og reyna að tryggja að þeir valdi ekki streitu ofan á það sem ekki verður við ráðið. 


Þegar kemur að því að skipuleggja kennslu, velja námsefni og skipuleggja námsmat er ákaflega mikilvægt að kennarar hafi í huga andlega sjálfsvörn og standi vörð um tíma sinn. Frelsi kennara í starfi er mjög mikið og við erum okkar eigin helstu óvinir í því að búa til of mikið vinnuálag. Jafnframt eru margir kennarar sem koma sér upp ósiðum eins og að vinna á síðkvöldum og um helgar. Það er mjög gott að geta sveigt tímann að eigin þörfum en hér þarf að stíga mjög varlega til jarðar. Þegar nýir kennarar koma til starfa er mikilvægt að þeir velji sér góðar fyrirmyndir í þessu sambandi. Vinnan við undirbúning, yfirferð og allt er meiri í upphafi ferils, en mikilvægt að taka strax skýra ákvörðun um hvert metnaðarstigið á að vera. Í mínum huga er til dæmis mun mikilvægara að vera vel upplagður og úthvíldur í kennslu heldur en að svipta sig nætursvefni til að nemendur fái ritgerð degi eða tveimur fyrr til baka. 

Annað vandamál sem líka tengist þessu frelsi er freistingin til að breyta aldrei neinu. Sömu verkefnin, sömu prófin sama bókin ár eftir ár eftir ár og maður verður leiðari og leiðari og leiðari.... og þá er kannski ekki að spyrja að leikslokum. 

Listin felst þá í því að finna eðlilegt jafnvægi milli metnaðar og nýjungagirni og doða og tilbreytingaleysis. Það er líka mikilvægt að leita eftir því að fást við fleira en bara kennsluna, taka þátt í þróunarverkefnum, fara á námskeið, taka þátt í alþjóðastarfi, kynna sér og vera með í starf fagfélaga og stéttarfélagsins - innan skynsemismarka að sjálfsögðu! 

Ég nefndi erfitt samstarfsfólk hér að ofan og þetta er náttúrulega viðkvæmt mál en það getur verið að ákveðnir aðilar í kennarahópi leiði hópinn inn í öfgar í aðra hvora áttina. Þarna þarf maður sjálfur að vera á vaktinni og ef vel lætur þá ættu stjórnendur að vera það einnig en það kemur því miður fyrir að þeir séu erfiðir líka. Þá gæti verið spurning að svipast um eftir öðrum skóla eða skipta bara um starfsvettvang.... 


Monday, January 8, 2024

Hugsuðurnir hans Atla

Atli Harðarsson hefur nýlega skrifað tvær mjög áhugaverðar greinar á Skólaþræði, um tvo menntaheimspekinga, og hvort tveggja hugsuði sem leita í brunna meginlandsheimspeki og pragmatisma, annars vegar Gert Biesta og hins vegar Maxine Greene. Verður að segjast eins og er að þetta eru frábærar greinar sem vekja mann til umhugsunar. Það er sérstaklega gaman þegar maður rekst á hugmyndir og pælingar sem ríma við eitthvað sem hefur verið að brjótast um innan í manni lengi en maður hefur ekki getað fundið samhljóm með. 

Þessir tveir hugsuðir eru greinilega á mjög svipuðum nótum í sínum pælingum og hugmynd Biesta um "subjectification" sem markmið menntunar passar mjög vel við Greene. Hugmyndin er að menntun felist í því að nemendur uppgötvi sjálfa sig, finni sér sinn eigin stað í heiminum, að vekja þá til meðvitundar um heiminn og kveikja í þeim þrá til að móta sitt eigið líf og hugsanlega taka þátt í mótun samfélagsins líka. 

Grein Atla um Greene er líka frábær, en ég mæli líka sérstaklega með heimildamynd um Greene sem má finna á YouTube (hlekkur að neðan). Saga hennar er saga um hvernig hún berst gegn þreföldum fordómum í ferli sínum innan amerískra háskóla. Hún var kona sem átti fjölskyldu, en það þótti hin mesta furða að svoleiðis fólk ætlaði sér eitthvað í heimspeki. Hún var gyðingur, en lengi framan af ferlinum voru gyðingar útilokaðir frá störfum við margar stofnanir. Í síðasta lagi hafði hún áhuga á og skrifaði út frá meginlandshefð í heimspeki inn í heimspeki menntunar, einkum tilvistarhyggju, en kollegum hennar í amersískri heimspeki miðrar tuttugustu aldar þótti slíkt jaðra við hreinan dónaskap.

Hugmyndir Greene eru í mjög svipuðum anda og Biesta, en hennar hugmynd um kennara og menntun okkar er að til að ná því að hjálpa öðrum að finna sér stað í tilverunni þurfum við að hafa gert það sjálf. Þannig er undirbúningur kennnarans undirbúningur í hugsun og sjálfsrækt, og mikilvægt að hver og einn finni sér sína leið. Og greinarnar sem eru lang mikilvægastar í þessu samhengi eru húmanískar greinar og skapandi greinar - en það er í gegnum þær sem við náum tengslum við okkur sjálf og umheiminn. 

Grein um Biesta:  

https://skolathraedir.is/2023/12/08/ad-vakna-til-vitundar-um-bokina-world-centred-education-eftir-gert-biesta/

Grein um Maxine Greene: https://skolathraedir.is/2024/01/06/maxine-greene/

Heimildamynd um Greene: https://www.youtube.com/watch?v=36wW31VaTSk&t=2705s

Thursday, December 21, 2023

Íslenskir nemendur í dönsku umhverfi

Þessi póstur er ekki nema óbeint og á ská innlegg í einhvers konar Pisa umræðu, og getur ekki talist vísindaleg, heldur er þetta lítil reynslusaga tengd starfi mínu sem kennari í svokölluðum NGK bekk í Versló. Ég sinni umsýslu og praktískum málum þessu tengd, en að auki kenni ég bekknum ensku, og þá samkvæmt dönsku kerfi sem er all ólíkt íslenska áfangakerfinu, en ég hef nú eitthvað tjáð mig um það annars staðar og geri mér ekki mat úr hér. 
Nýlega var ég á fundi með kollegum mínum í Færeyjum og Danmörku um verkefnið, og þar kom fram pæling sem ég hef oft heyrt áður en hún er sú að upplifun danskra kennara er að íslensku nemendurnir séu óvanir að tjá sig í tímum, séu óvanir því að vera beðnir um að hafa skoðun á hlutunum og séu ósjálfstæðir í vinnubrögðum. 
Vissulega er hópur íslenskra krakka sem fer út lítill, en mér finnst þetta samt merkilegt. Íslensku krakkarnir eru vön tíðum skyndiprófum, verkefnablöðum, en ekki vön að taka þátt í umræðum, rétta upp hönd og koma með sín eigin sjónarmið.
Faglega séð eru þessir krakkar sterkir, sérstaklega í ensku, þau standa líka nokkuð vel í stærðfræði en stóri þröskuldurinn er danskan, sem getur ekki talist annað en eðlilegt, og svo er það þessi menningarmunur sem kemur fram og t.a.m. enskukennarnir taka vel eftir. Þar sem hluti af einkunnum krakkana byggir á þátttöku í tímum og virkni í umræðum skiptir þetta máli, og flest þeirra ná sér á strik með þetta á fyrsta árinu. 
Þessir krakkar hafa komið úr hinum og þessum skólum og eru mjög fjölbreyttur hópur, en þarna kann að vera einhver vísbending um að vinnubrögð á unglingastiginu hér hjá okkur séu aðeins í einhæfari kantinum og við gætum lært eitthvað af frændum okkar. 

Monday, July 3, 2023

Grein í Vísi 2 - breytingar í framhaldsskólum

 Tengi hér á grein eftir mig í Vísi, svona til að halda til haga - Breytingar í framhaldsskólum.  Það hafa orðið líflegar og skemmtilegar umræður um þetta á féalgsmiðlum hjá mér, og ég vil halda til haga að

  • þriggja anna kerfið með lotum var þróað í MS en ekki í FG 
  • spannakerfi (fjórar annir) hefur verið þróað í Menntaskólanum á Egilsstöðum
  • fjarnám á framhaldsskólastigi er mjög öflugt og að líkindum einstakt á heimsvísu 
  • MH var með 3 anna kerfi þegar skólinn var stofnaður, en þá var ekki komið áfangakerfi


Thursday, June 29, 2023

Námsmat - grein í Vísi 1

Ég skelli hér inn link á grein sem birtist í Vísi um námsmat eftir mig, svona til að halda utanum það sem ég skrifa hér. Vinur minn benti mér á að það vantar inn í greinina kveikjuna að greininn, en það mun vera Facebook póst frá Ragnari Þór Péturssyni þar sem hann stingur upp á inntökuprófi í Versló og aðra vinsæla skóla, sem mér finnst alveg afleit hugmynd. 

Annað undirliggjandi eru pælingar um símatsáfanga vs. prófaáfanga í framhaldsskóla og kannski svona pælingin að benda á að munurinn sé kannski ekki svo afgerandi. 

Greinin mín í Vísi

Sameiningar og allir í verknám

 Í síðustu viku kom upp umræða að sameina eigi Kvennaskólann og Menntaskólann við Sund og starta nýjum skóla í Stakkahlíð, sem nú um stundir hýsir Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ein af ástæðum þess að flytja þurfi MS er sögð að húsnæði skólans sé myglað, en svo er víst Stakkahlíðin líka mygluð - svo mögulega væri verið að fara úr myglunni í fúkkann. Rökin fyrir svona sameiningu eru fjárhagsleg hagræðing og einhver samlegðaráhrif sem samkvæmt reiknimeisturum skili til lengri tíma hagnaði. Jafnframt er talað um minnkandi árganga svo þörfin fyrir framhaldsskólapláss muni fara minnkandi á næstu árum.  

Þetta er gott og blessað, en rökin fyrir því að velja þess tilteknu skóla eru ekki augljós. Skólarnir tveir eru mjög ólíkir og í þeim báðum hefur farið mikil vinna í að þróa og prufukeyra fyrirkomulag náms sem má segja að séu á sitthvorum enda e.k. rófs bekkjarkerfis og áfangakerfis. MS er með einhvers konur ofuráfangakerfi með þrjár annir og lotufyrirkomulag, Kvennó með bekkjarkerfi með töluvert miklu vali sem var þróað sem ákveðin fyrirmynd fyrir aðlögun að styttingu framhaldsskólans - og það fyrirkomulag er t.d. að ýmsu leyti fyrirmynd kerfisins sem tekið var upp við styttingu í skólanum mínum, Versló. Bæði þessi kerfi hafa fallið vel í kramið hjá framhaldsskólanemum og mikil aðsókn verið að báðum þessum skólum undanfarin ár. Svo má líka benda á að námsfyrkomulagið í langvinsælasta skóla landsins, sem er víst einmitt Versló, líkist um margt fyrirkomulaginu í Kvennó. Ef sameina á þessa tvo skóla er útilokað að halda í bæði þessi módel og mikil óvirðing við þróunarstarfið í báðum þessum skólum að taka alla þá vinnu og henda henni í ruslið. Miklu nær vær að sameina skóla sem eru með hefðbundnari útfærslur á áfangakerfinu, nú eða að sameina tvo bekkjarskóla (FB/ FÁ, MH/ FÁ, MR/Kvennó, Kvennó/ Versló .... ). Það er aðalsmerki íslenska framhaldsskóla hversu fjölbreytileg flóran er hjá okkur og sveigjanleikinn í kerfinu er mikill. Hins vegar er það svo að bekkjarkerfið er í ákveðinni varnarbaráttu (það virðist ekki henta yfirvöldum þó eftirspurn eftir því sé mikil hjá nemendum) og ég óttast mjög að þessi nýi skóli myndi frekar dám af áfangafyrirkomulaginu í MS en kerfinu í Kvennó. 

Önnur hlið á þessu máli eru áætlanir um að mikið stærri hluti nemenda fari í verknám. Jákvætt er að nýlega hefur eftirspurn eftir verknámi aukist, en hins vegar finnst mér það mjög hæpið að ætla að handstýra stórum hluta árganga í eitthvað tiltekið nám, og velti því mjög fyrir mér hvernig eigi að fara að því. Hér óttast ég að ákveðnir hópar sem fara í bóknám tryggi stöðu sína enn frekar í samfélaginu og hér sé uppskrift að meiri stéttaskiptingu og elítumyndun. Aukin tölvuvæðing, meiri alþjóðasamskipti, breytingar á stöðu íslenskunnar og margt fleira held ég geti einmitt kallað á öflugt bóknám þar sem þekking á tungumálum, samfélaginu og grunngerð þess og flóknari færni tengd tölvum og tækni verði mikilvægari en verknám. Ég veit þetta náttúrulega ekki, en eins og ég hef bloggað um áður þá finnst mér að það eigi að hlusta á það hvað fólk vill þegar boðið er upp á nám en ekki semja einhverjar loftkenndar fimm ára áætlanir sem byggja á heimi sem er að líða undir lok og tengist ekki endilega þeim heimi sem býður okkar í þoku framtíðarinnar.