Monday, October 3, 2011

Opið málþing um gagnrýna hugsun og siðfræði 1 - Salvör Nordal



Ármann Halldórsson skrifaði þann 3. október 2011 kl. 13:30


Sat á laugardaginn málþing með yfirgreindum titli. Fyrir hádegi var alsherjarfundur þar sem voru stærri fyrirlestrar, en eftir hádegi voru nokkrar málstofur, þar sem ég var m.a. með stutt innlegg. Ég blogga hér um fyrsta fyrirlesturinn, og svo fylgja pælingar um hina eftir hendinni.  Þetta er líka hrátt en hresst.
Fyrsta fyrirlesturinn flutti Salvör Nordal, og var hún að tala um lærdóma hrunsins og vinnunnar við skýrslugerðina, enda sat hún í siðfræðihópnum sem samdi áttunda bindi skýrslunnar. Hún lagði töluverða áherslu annars vegar á að í aðdraganda hrunsins og jafnvel í kjölfar þess hafi borið á skorti hjá fólki til að vera nægilega agað í greiningu mála. Annars vegar virðist þessi vandi vera tæknilegur, þeas að menn hafi einfaldlega klúðrað málum og ekki skilið þau fyllilega. Hins vegar er hann siðferðilegur, það er að menn hafi ekki þorað að fara í kjölinn á málum vegna þess að ef þau voru reiknuð til enda var niðurstaðan svo skelfileg að það var bara ekki gert. Hér væri um að ræða e.k. hópsálarfræðilega varnarhætti.
Annar megin þráður í tali hennar fjallaði um 'lagalega tæknihyggju'. Spurningin sem sem ég velti fyrir mér er hversu mikilvægt þetta er í samhenginu. Sennilega er málið það að hér er efni laganna túlkað án samhengis við siðferðilegt eðli þeirra og án samhengis.
Ég geng frá þessu máli með tvo lærdóma, sem eru í raun einn. Í fyrsta lagi þarf að haga málum þannig í kennslu á efri stigum að ráðrúm gefist til að kafa af dýpt ofan í mál. Til að þetta sé hægt verður að gefa upp óraunhæfar hugmyndir um yfirferð efnisatriða. Þetta á við um sögu, félagsfræði og ákveðnar útgáfur af heimspekikennslu. Það þarf góðan tíma til að þjálfa athyglis- og greiningargáfuna. Raunar held ég að þetta eigi við öll fög, stærðfræði, íslensku o.s.frv. Mér finnst t.a.m. glórulaust að eyða nánast þremur heilum áföngum í íslensku í staglkenndri yfirferð yfir íslenska bókmenntasögu. Hinn lærdómurinn er að það að nálgast lögin sem hráan lagabókstaf, án tillits til þess sem undir liggur er svipað og að kenna fyrirbæri eins og setningarfræði tæknilega án þess að velta því fyrir sér hvort að fólk skilur það sem að baki býr.
Að lokum þetta: við erum ekki neitt að nálgast það að bíta úr nálinni með þetta hrun. Og svo vantaði félagssálfræðilega vinkilinn núna... meira um það síðar.

No comments:

Post a Comment