Monday, October 3, 2011

Ammma, menntakvika, jafnrétti.... hrátt en hresst



Ármann Halldórsson skrifaði þann 30. september 2011 kl. 12:38
Nú sit ég hér á Menntakviku og ákvað að glósa bara beint. 

Fyrst langar mig aðeins að nefna fyrirlestur Ingvars Sigurgeirssonar á þriðjudaginn, 'Hvernig kenna góðir kennarar?' Ég var hrifinn af fyrirlestrinum, en fannst þó mest gaman að amma mín, Sigrún Guðbrandsdóttir var fyrsta dæmið sem hann nefndi um frábæran kennara sem hann átti minningar um úr æsku, úr Vogaskóla veturinn 1962-3. Amma hafði ótrúlega frásagnargáfu, var ótrúlega hugmyndarík (og pínulítið kaótísk) og sýndi manneskjunum djúpan skilning í öllu því veseni sem þær standa í. Amma var ótrúleg amma og nýttust þá örugglega sömu eðlisþættirnir og í kennslunni - held hún hafi að ýmsu leyti þótt börn áhugaverðari en fullorðnir.... minnist þes alltaf hvernig við  fórum með henni í skólastofuna hennar til að gefa fiskum og vökva blóm. Þetta rímar við eina af grunnfullyrðingum Ingvars í fyrirlestrinum: góðir kennarar bjóða nemendum sínum frjótt námsumhverfi. Persóna kennarans er lykilatriði og sú lífssýn sem hann birtir í allri sinni framgöngu skiptir öllu. Tæknivæðing fagsins (þá er ég ekki að tala um tölvunotkun) með einhverjum endalausum áætlunum, markmiðum, einingum og öðru slíku er andstæð þessu sjónarmiði. Kynfræðslutíminn með kanínunum hljómaði svo mjög spennandi, amma hefði nú líklega ekki staðið fyrir slíku .... 

Dæmin sem Ingvar tók svo almennt (líkt og amma sennilega) voru af kennurum og kennsluháttum sem liggja utan alfaraleiðar. Þó er það þannig að við sjáum í þessu að margt af því sem verður móðins og menn hafa deilt hart um í tengslum við samfélagsfræði og aðra slíka hippamennsku var löngu orðið að sterkum þræði í starfi frábærra kennara og á sér rætur í hefðum og menningu langt aftur í aldir. Ég hafði líka mjög gaman af úttekt hans á tilsvörum unglinga um hvað þeir mætu mest í fari kennara sinna. Glaðværð, húmor og léttleiki var í fyrsta sæti; mannlegur skilningur og stuðningur í öðru, góðar útskýringar í þriðja (ef ég man rétt). Svo var það almennt að nemendur voru nokkurn veginn í svipaðri stöðu varðandi strangleika; jafnmörgum þóttu kennarar of strangir og svo ekki nógu strangir! Ég hef nú reyndar aldrei fengið þá útkomu að vera 'of strangur' - hitt hefur komið fyrir.....

Nú, á Menntakviku valdi ég mér málstofur fyrri partinn sem fjalla um jafnréttismál. Fyrst var það Kristín Hjálmarsdóttir og Ásta Jóhannsdóttir sem fjölluðu um Mannasiði Gillz (og ég lenti í miklum umræðum um á Facebook síðu minni). Þær höfnuðu því að hægt væri að greina í sundur grínarann Gillz og svo íþróttafræðingin Egil Einarsson. Þær brugðu upp mörgum dæmum úr ritinu og ég verð að segja að þar var einhver sú ógeðslegasta uppsuða af kvenfyrirlitningu, stéttahroka og kynþáttafordómum sem maður hefur séð lengi. Þetta er texti og orðræða sem á greiðan aðgang að ungu fólki og er þetta verulegt áhyggjuefni. Erfitt er að gagnrýna vegna þess að þá er alltaf sagt 'bara djók'. Ég held þó að mikilvægt sé að taka á þessu með markvissum hætti með því að draga athygli að innihaldsleysinu og líklega með því að halda á lofti öðruvísi efni sem tekur á þessum málum. Þórdís Þórðardóttir fjallaði svo um efni sem leikskólabörn neyta og hvernig það hefur áhrif á kynvitund þeirra. Hér eru karlarnir virkir (ofurhetjur) og konurnar passívar (prinsessur). Lítil meðvitund virtist um þessi mál í Leikskólum. Ég held að í þessu sambandi verði að hugsa rækilega um hvernig efni, og hvernig fantasíur á að kynna fyrir börnum. Úlfhildur Dagsdóttir hefur skrifað um hvernig vísindaskáldskapur og fantasíur taka á þessum málum og í þessu samhengi er mikilvægt að tengja saman þekkingu úr bókmennta og menningarfræðum og svo menntavísindi. Ég hvet alla áhugamenn um fantasíur að verjast þeirri ásökun að allar fantasíur séu eitthvað afturhaldskjaftæði, þó að Tolkien og CS Lewis hafi verið skelfilegar karlrembur. Anna H Jónsdóttir fjallaði svo um fagvitund leikskólakennara - aðalatriðið sem ég fékk út úr því var að annars vegar hefður leikskólakennarar fengið formlega viðurkenningu (meiri menntun, löggilding starfsheitis), en hins vegar hefðu áhrif þeirra á stefnumörkun og praktísk mál minnkað. Stéttin, sem kvennastétt, hefði þannig ekki náð að festa sig í sessi sem fagstétt. Áhugavert var líka að það var sjónarmið leikskólakennara að börn ættu að vera meira heima, en það vekur upp fjölda spurning um almenn áhrif þess á jafnrétti (hver verður heima með börnin); fortíðarþrá o.s.frv. Ég hef hins vegar þá trú að sýn sem slakar á stofnabindingu menntunar, og meiri menntun inn á heimilin og foreldra meira inn í skólana, að stefnan verði á að brjóta niður múra og draga úr sérhæfingu og stofnanabindingu menntunar, og raunar alls ..... vísa hér í fyrri glósur mínar um afskólun. Í lokin kom svo Steinunn Helga Lárusdóttir og fjallaði um jafnréttismál og kennaramenntun, en það var mikil samfella milli hennar erindis og erindis Guðnýjar Guðbjörnsdóttur sem ég nefni hér að neðan. 

Seinni málstofan sem ég fór á var svo um kynjajafnréti í skólum og fræðslu um það. Þorgerður Einarsdóttir tók fyrir hvernig nýlegar niðurstöður um frábæra stöðu okkar í jafnréttismálum væru jafnvel skaðlegar fyrir fræðslumál. Það var athyglisvert að hún benti á að 1976 kom grein um fræðslu í jafnréttislögum um að jafnrétti ætti að vera viðfangsefni í skólum, en það kom fyrst í lög um skólana 2008 og svo í námskrá 2011; og þá einungis sem 'jafnrétti í víðum skilningi'. Þorgerður tók fyrir 'drengjaorðræðuna' og benti á að nýta mætti hana til góðs fyrir bæði kyn, tók pragmatíska afstöðu sem gengur út á að nýta sér það sem fólk kveikir á í stað þess að streitast á móti. Guðný Guðbjörnsdóttir talaði svo um rannsókn sem hún og Steinunn Helga Lárusdóttir unnu. Almennt kemur í ljós að á Menntavísindasviði er þetta viðkvæmt mál og ekki að sjá að mikið sé fjallað um þessi mál. Það kom fram í máli Guðnýjar og Steinunnar að mikilvægt væri að orð eins og 'jafnrétti', 'kyn', kynjafræði, kæmu fram í áætlunum o.s.frv. (þó að ég sé á varðbergi gagnvart 'áæltunum') - þannig að það sé sýnilegt að þessi mál séu á dagskrá. Þó að kennarar segist taka þessi mál fyrir þá sé það ekki endilega nóg. 

Í lokin var svo pallborð Guðný, Þorgerður, Fanný Heimisdóttir,  leikskólastjóri, Jóna Pálsdóttir,  fulltrúi ráðuneytis, Þórður, kennari úr Kvennó , Anna Kristín deildarstjóri kennarasdieldar.  
'boðin aukast, en möguleikar til að fræmkvæma dragast saman' (Fanný)
Skemmtilegur punktur að fólk er oft tregt til að byrja að ræða um jafnrétti, en þegar það er komið í gang þá er það óstöðvandi (leikskólastjórinn og svo kom þetta líka fram í rýnhópum hjá Steinunni og Guðnýju) 
Hjallastefnufólk þykist vera 'búið að ná þessu'. 
Fræðum um jafnrétti en ástundum það ekki (Fanný). 

No comments:

Post a Comment