Saturday, January 20, 2024

Kulnun kennara

Athugið: Þessi pistill er skrifaður fyrst og fremst frá sjónarhóli framhaldsskólakennara og er ekki byggður á rannsóknum, meira svona hráar og hressar pælingar byggðar á perónulegri reynslu og pælingum. 

Kennarastarfið er krefjandi, en líka mjög skemmtilegt, gefandi og áhugavert. Margt mæðir á okkur og getur valdið streitu. Hér falla undir erfið samskipti við nemendur, foreldra, erfiðir stjórnendur og samstarfsfólk. Ekkert af þessu eru þættir sem við getum beinínis stjórnað. Þess vegna er mikilvægt að huga að þeim þáttum í starfinu sem við getum stjórnað og reyna að tryggja að þeir valdi ekki streitu ofan á það sem ekki verður við ráðið. 


Þegar kemur að því að skipuleggja kennslu, velja námsefni og skipuleggja námsmat er ákaflega mikilvægt að kennarar hafi í huga andlega sjálfsvörn og standi vörð um tíma sinn. Frelsi kennara í starfi er mjög mikið og við erum okkar eigin helstu óvinir í því að búa til of mikið vinnuálag. Jafnframt eru margir kennarar sem koma sér upp ósiðum eins og að vinna á síðkvöldum og um helgar. Það er mjög gott að geta sveigt tímann að eigin þörfum en hér þarf að stíga mjög varlega til jarðar. Þegar nýir kennarar koma til starfa er mikilvægt að þeir velji sér góðar fyrirmyndir í þessu sambandi. Vinnan við undirbúning, yfirferð og allt er meiri í upphafi ferils, en mikilvægt að taka strax skýra ákvörðun um hvert metnaðarstigið á að vera. Í mínum huga er til dæmis mun mikilvægara að vera vel upplagður og úthvíldur í kennslu heldur en að svipta sig nætursvefni til að nemendur fái ritgerð degi eða tveimur fyrr til baka. 

Annað vandamál sem líka tengist þessu frelsi er freistingin til að breyta aldrei neinu. Sömu verkefnin, sömu prófin sama bókin ár eftir ár eftir ár og maður verður leiðari og leiðari og leiðari.... og þá er kannski ekki að spyrja að leikslokum. 

Listin felst þá í því að finna eðlilegt jafnvægi milli metnaðar og nýjungagirni og doða og tilbreytingaleysis. Það er líka mikilvægt að leita eftir því að fást við fleira en bara kennsluna, taka þátt í þróunarverkefnum, fara á námskeið, taka þátt í alþjóðastarfi, kynna sér og vera með í starf fagfélaga og stéttarfélagsins - innan skynsemismarka að sjálfsögðu! 

Ég nefndi erfitt samstarfsfólk hér að ofan og þetta er náttúrulega viðkvæmt mál en það getur verið að ákveðnir aðilar í kennarahópi leiði hópinn inn í öfgar í aðra hvora áttina. Þarna þarf maður sjálfur að vera á vaktinni og ef vel lætur þá ættu stjórnendur að vera það einnig en það kemur því miður fyrir að þeir séu erfiðir líka. Þá gæti verið spurning að svipast um eftir öðrum skóla eða skipta bara um starfsvettvang.... 


Monday, January 8, 2024

Hugsuðurnir hans Atla

Atli Harðarsson hefur nýlega skrifað tvær mjög áhugaverðar greinar á Skólaþræði, um tvo menntaheimspekinga, og hvort tveggja hugsuði sem leita í brunna meginlandsheimspeki og pragmatisma, annars vegar Gert Biesta og hins vegar Maxine Greene. Verður að segjast eins og er að þetta eru frábærar greinar sem vekja mann til umhugsunar. Það er sérstaklega gaman þegar maður rekst á hugmyndir og pælingar sem ríma við eitthvað sem hefur verið að brjótast um innan í manni lengi en maður hefur ekki getað fundið samhljóm með. 

Þessir tveir hugsuðir eru greinilega á mjög svipuðum nótum í sínum pælingum og hugmynd Biesta um "subjectification" sem markmið menntunar passar mjög vel við Greene. Hugmyndin er að menntun felist í því að nemendur uppgötvi sjálfa sig, finni sér sinn eigin stað í heiminum, að vekja þá til meðvitundar um heiminn og kveikja í þeim þrá til að móta sitt eigið líf og hugsanlega taka þátt í mótun samfélagsins líka. 

Grein Atla um Greene er líka frábær, en ég mæli líka sérstaklega með heimildamynd um Greene sem má finna á YouTube (hlekkur að neðan). Saga hennar er saga um hvernig hún berst gegn þreföldum fordómum í ferli sínum innan amerískra háskóla. Hún var kona sem átti fjölskyldu, en það þótti hin mesta furða að svoleiðis fólk ætlaði sér eitthvað í heimspeki. Hún var gyðingur, en lengi framan af ferlinum voru gyðingar útilokaðir frá störfum við margar stofnanir. Í síðasta lagi hafði hún áhuga á og skrifaði út frá meginlandshefð í heimspeki inn í heimspeki menntunar, einkum tilvistarhyggju, en kollegum hennar í amersískri heimspeki miðrar tuttugustu aldar þótti slíkt jaðra við hreinan dónaskap.

Hugmyndir Greene eru í mjög svipuðum anda og Biesta, en hennar hugmynd um kennara og menntun okkar er að til að ná því að hjálpa öðrum að finna sér stað í tilverunni þurfum við að hafa gert það sjálf. Þannig er undirbúningur kennnarans undirbúningur í hugsun og sjálfsrækt, og mikilvægt að hver og einn finni sér sína leið. Og greinarnar sem eru lang mikilvægastar í þessu samhengi eru húmanískar greinar og skapandi greinar - en það er í gegnum þær sem við náum tengslum við okkur sjálf og umheiminn. 

Grein um Biesta:  

https://skolathraedir.is/2023/12/08/ad-vakna-til-vitundar-um-bokina-world-centred-education-eftir-gert-biesta/

Grein um Maxine Greene: https://skolathraedir.is/2024/01/06/maxine-greene/

Heimildamynd um Greene: https://www.youtube.com/watch?v=36wW31VaTSk&t=2705s