Sunday, November 15, 2020

Harry Potter í Versló - pælingar með þættinum Kynning - á brautarpallinum


Nú er komið í loftið hlaðvarpið um Harry Potter og ævintýri hans í Versló. Ég setti alla seríuna í loftið í einu, og þannig getur fólk hlustað í þeirri röð sem það vill og á þá þætti sem það vill. Ég ætla að setja inn nokkra bloggpósta sem fylgja hverjum þætti úr hlaði, svona með einhverjum hráum og hressum pælingum um hvern þátt. 

Fyrsti þátturinn er að uppistöðu til samtal mitt og Helgu sem kennir námskeiðið með mér. Það er mikilvægt að þó að ég hafi búið þetta hlaðvarp til þá er ég ekki að eigna mér áfangann, hann er okkar samstarfsverkefni. Það er líka kannski áhugavert í þessu samhengi að þeir sem hafa fylgst aðeins með mér á vettvangi skólamálaumræðunnar er að ég hef (mjög) ákveðnar efasemdir um áfangakerfið, og ég stend við þær. Hins vegar er eitt fyrirbæri sem ég tel mjög jákvætt í áfangakerfinu, en það er einmitt valáfanginn sem Harry Potter áfanginn er dæmi um. Áfangahönnun er náttúrulega listgrein, og það má eiginlega segja að þetta hlaðvarp sé ákveðinn spuni í kringum þá pælingu. Mér finnst valáfanginn bjóða upp á að prófa sig áfram með óvenjuleg viðfangsefni, spennandi aðferðir og ýmsa nýstárlega hluti. Hugmyndir sem kvikna í valáföngum smita oft útfrá sér í aðra áfanga.... Jafnframt eru valáfangar fyrirbæri sem opnar fyrir ákveðna samkeppni milli kennara og greina, sem stundum hefur skemmtilegar og skondnar hliðar.

Annað sem valáfangar bjóða upp á er samstarf milli kennara, innan greina og þvert á greinar. Það er reyndar áhugavert og rannsóknarefni í sjálfu sér hversu lítið kennarar á framhaldsskólastigi vinna saman, en undantekningarnar er einmitt helst að finna í valáföngum. Samstarfið við Helgu i mótun og þróun þessa áfanga hefur verið alveg frábært, reyndar hefur það haft þær afleiðingar að auk þess að kenna þennan áfanga saman höfum við líka kennt saman einum bekk í "venjulegum" áfanga og það hefur nú líka bara gengið svona ljómandi vel! Ég vil endilega benda öllum áhugasömum um kennslu og svo líka um Harry Potter til að ljá hlaðvarpinu mínu eyra!  


Hér er linkur til að hlusta á þáttinn: https://open.spotify.com/episode/0mbkV2EuMjXoLaaZN3eZA0

Saturday, October 17, 2020

Ólafur Stefánsson og Lovegood feðginin

Það er gaman að fólk hafi áhuga á skóla og menntamálum, og sérstaklega áhugavert þegar það hefur sterkar skoðanir. Ólafur Stefánsson, þekktur sem handboltamaður hefur verið mjög gangrýninn á skólakerfið, telur það stíft og ekki hafa breyst í takt við tímann. Hann var í slagtogi við listamanninn skondna og skemmtilega Þorvald Þorsteinsson með þessar pælingar um skeið, en Þorvaldur lést því miður fyrir aldur fram. Voru þeir ef ég man rétt með einhverjar rosalegar pælingar um að stofna e.k. frískóla í Heilsuverndarstöðinni - endilega rifjið þetta upp fyrir mér. 

Nýjasta útgáfa gagnrýni Óla birtist í áhugaverða viðtali við Sölva Tryggvason sem fylgir hér að neðan. Eins og títt er með listamenn, heimspekinga og sjáendur þarf að leggjast í smá túlkunarvinnu til að skilja mál Óla. Hann er ekki sérstaklega skýr í tali og notar mikið af ensku. 

Aðaltesan sem hann er með er að yfir öllu skólakerfinu vomi skrímsli. Þetta skrímsli er Aðalnámskrá. Kenningin er á þá lund að undir harðræði Aðalnámskrár leiti allt skólastarf í sama farveg og meðan að ægivald hennar ríkir yfir okkur þá verði frelsi, sköpun og allt sem er gott og fallegt undir í skólum landsins. Í máli þeirra félaga Óla og Sölva finnst mér reyndar fátt benda til að þeir, frekar en flestir kennarar eða fólk almennt hafi lesið Aðalnámskrána sem í gildi er; en rödd Aðalnámskrár er ekki endilega mikið skírari en rödd Ólafs og þarf líka túlkunarfærni til að skilja hana. 

Ég held samt að hugmynd Óla um Aðalnámskra megi túlka sem myndlíkingu fyrir ákveðna rödd og afl sem hafi mikil áhrif í skólastarfi. Hér er einhvers konar blanda af vana, íhaldsemi og ótta við breytingar sem mætti líta á sem einhvers konar yfirsjálf sem stýrir okkur með ósýnilegri hendi. Íslenskir kennarar eru hugsa ég sú stétt veraldarinnar sem er með mest sjálfræði yfir störfum sínum, en engu að síður er töluvert mikil íhaldsemi í gangi.... áhugavert mál. 

Annað sem Óli gerir sem mér finnst skondið er að hann vísar slatta í Harry Potter, segist vera með flokkunarhatt og eitthvað, en ég fæ líka á tilfinninguna að hann hafi ekki lesið bækurnar - eða þá að hann leikur sér með efnið á einhvern hátt sem að gefur þessi tilfinningu sem er þá einhvers konar öfugsnúin snilld. 

Ég kýs að líta á Óla sem einhvers hliðstæðu við Lovegood feðginin í Harry Potter. Luna og Xenophilius eru með alskonar furðulegar hugmyndir sem fólk leiðir hjá sér og lítur niður á (einhvers konar hippar / nýaldarsinnar innan galdraheimsins), en svo kemur í ljós að inn á milli alskonar bulls sem þau eru með glittir í mikilvæg sannindi - t.d. hvað varðar dauðadjásnin. 

Að síðustu finnst mér pælingar þeirra félaga um hugútvíkkandi jurtir og sveppi alveg magnað, og þá fattar maður hvernig allt kemur aftur og allt snýst í hringi... Óli er eiginlega handboltahippi með dellu fyrir skólaumbótum, með spennandi sveppi í hliðartöskunni. 







 

 

 

 

 

Thursday, May 21, 2020

Af hverju má fólk ekki læra það sem það vill þar sem það vill? Um námsval og aðgangsstýringu

Um þessar mundir eru krakkarnir okkar og unga fólkið að glíma við val. Tíundubekkingar eru að velja sér framhaldsskóla og nýstúdentar eru að pæla í hvað þær ætli nú eiginlega að verða þegar þeir verða stórir. Hvort tveggja eru stórar spurningar, þó sú síðari sé nú mögulega stærri.

Margan nýstúdentinn dreymir um að verða læknir. Og mörg þeirra eru tilbúin að leggja mikið á sig til að ná þessu marki, en það er hægara sagt en gert. Fáir komast að og mjög stórum hóp er vísað frá. Stór hluti, hugsanlega meirihluti, þeirra sem er vísað frá myndi örugglega ráða ágætlega við námið. Hluti þeirra sem er vísað frá fer til annarra landa til að læra læknisfræði og verða að frábærum læknum, eftir því sem ég best veit. 

Annar hópur, aðeins minni, og, tja, svona aðrar týpur kannski, eru þau sem vilja verða leikarar. Þar er svipað upp á teningnum - margir verða frá að hverfa, sumir fara í nám í öðrum löndum, og geta, að því ég best veit, náð því að verða flottir leikarar - en með ærnum kostnaði og fyrirhöfn. 

Yfir 500 tíundubekkinga, ár eftir ár, dreymir um að komast í skólann þar sem ég kenni, Versló. Við þurfum að vísa frá stórum hópi krakka, og meirihluti þeirra hefði án efa gengið prýðilega hjá okkur. 

Það er stundum talað um að hægt sé að kjósa með fótunum. Og stundum er líka talað um að á Íslandi sé eitthvað sem er kallað lýðræði. Af hverju í ósköpunum tekur stefnumótun og útfærsla í menntamálum ekki tillit til vilja fólks? Það er ekki nokkur leið að segja að í þessum dæmum sem ég tek sé um tískufyrirbrigði að ræða. Tökum hvert dæmi fyrir sig. 

Við gætum alveg menntað miklu fleiri lækna, og ég held að við ættum að mennta a.m.k. þann hóp sem fer utan til náms, og við gætum jafnvel verið land sem tæki á móti nemendum í læknisfræði. Þá væri læknaskortur úr sögunni, til lengri tíma gæti launakostnaður lækkað o.s.frv. Læknisfræði er mögnuð alhliða grein og því fleiri sem læra hana, þeim mun fjölbreytilegri og áhugaverðari rannsóknir verða stundaðar. Möguleikar á alskyns frumkvöðlastarfsemi eru endalausir, og eins og dæmin sanna reynast læknar vel í ýmsum störfum utan hefðbundinna viðfangsefna þeirra. 

Að breyttu breytenda má segja það sama um leikara. Leiklistarmenntun getur nýst í skólum, í ferðaþjónustu og gert lífið fallegra og fyndnara. Kostnaðurinn við að vera með öfluga leiklistarmenntun er hverfandi (ólíkt læknisfræðinni) og hér er líka ágætur möguleiki á því að byggja upp leiklistarnám sem gæti orðið eftirsóknarvert úti í heimi. Tungumáladæmið leysum við bara. Þróun og uppbygging í kvikmynda- og þáttagerð tengist þessu svo, sem og margvíslegir möguleikar í nýjum miðlum o.s.frv. 

Að framhaldsskólanum. Af hverju hefur engum dottið í hug að kannski langar þennan stóra hóp sem vísað er frá Versló á hverju ári að komast í skóla sem líkist Versló?  Af hverju er það ekki kannað hvað er það sem krakkarnir sækjast eftir og pælt í að vinna með það? Öll umræða um þessi mál hefur mér þótt einkennast af hroka og ákveðnu virðingarleysi gagnvart krökkunum. "Það er bara út af félagslífinu". Bara? Félagslíf er ekki neitt bara fyrir framhaldsskólanema. Getur verið að þessa krakka langi í bekkjarskóla? Getur verið að þau sækist eftir að námið sé nokkuð krefjandi? Sækjast þau eftir að viðskiptamenntun sé hluti af stúdentsprófinu?  Örugglega allt þetta og meira til, en ég held að það væri mjög til ánægjuauka í samfélaginu ef við myndum byggja stefnu á því sem fólk sækist raunverulega eftir en ekki einhverjum hugmyndum sérfræðinga eða fordómum miðaldra karla eða hvað það nú er sem ákvarðanir eru byggðar á. Mér kom í koll hugmynd um viðbragð við þessu sem væri að stofna kraftmikinn bekkjarskóla, með dassi af viðskiptamenntun, öflugu félagslífi og kalla hann Hressó. 

Í öllum þessum dæmum, kannski sérstaklega læknisfræðinni, þá er það vissulega þáttur í eftirspurninni að framboðið er takmarkað. En hvaða máli skiptir það? Ef t.d. það að möguleikar á því að komast í skóla sem hefur þau gæði fram að bjóða sem við Verslo bjóðum er opnari leiðir til þess að aðsóknin að Versló, og svo Hressó líka, minnkar,  og allir vilja komast í Tækniskólann eða eitthvað, þá bara skiptum við aftur um kúrs. Ef við bjóðum upp á nám í læknifræði sem fyllist ekki, þá gætum við boðið fólki frá öðrum löndum að koma og læra hjá okkur, nú eða við bara smá drögum úr framboðinu, og varðandi kostnaðinn þá efa ég það stórlega að raunverulega sé verið að spara nokkuð með því að senda stóra hópa af frábæru námsfólki til Ungverjalands til að læra læknisfræði.

Ég er ekki að tala um einhverja einfeldningslega markaðslausn hérna, heldur lýðræði sem byggir á því að velta fyrir sér raunverulegum tilhneigingum, rannsóknir á þeim (viðfangsefni fyrir félagsvísindafólk) og stefnumótun út frá því. Ég geri mér alveg grein fyrir að það eru einhverjir sem eiga ekki erindi í læknisfræði eða leiklist en langar samt, og það er alveg sjálfsagt að gera strangar kröfur. En munurinn á því að bjóða t.d. 120 pláss á ári í læknisfræði versus núverandi 60 er mjög mikill. Annað er að svona breyting verður ekki gerð á einni nóttu, en ætti að vera hluti af markvissu uppbyggingarstarfi. Hugmyndin um að valið inn í nám á borð við læknisfræði eða leiklist eins og það fer fram í samtímanum sé með einhverjum hætti öruggt, réttlát eða byggt á traustum vísindum stenst ekki nána skoðun.  Að sama skapi þýðir þetta líka að draga verður úr framboði á öðru námi, sem er náttúrulega sorglegt, en þannig er nú lífið bara. 

Að þessu sögðu óska ég nýstúdentum og tíunda bekkingum til hamingju með áfangann og óska þess að sem allra allra flest ykkar finnið ykkur nám og viðfangsefni sem fylla líf ykkar tilgangi og daga ykkar gleði.

Friday, March 20, 2020

Heimaskóli.is

Skóli er merkilegur staður, þar sem við lærum, lifum og leikum. Námið er mikilvægt, en félagslegi þátturinn hefur líka afskaplega mikið að segja.  Að geta ekki lengur farið í skólann sinn er alveg glatað.

En.

Þegar við erum að gera það sem við getum til að námið og skólinn haldi áfram í rafheimum detta mér nokkrir punktar í hug fyrir kennara og nemendur. Kennarar: 
  • Ekki missa okkur í verkefnum og tækninýjungum og stöðugum prófum og skilum, halda sig við eðlilegan damp og hugsanlega slaka aðeins á klónni. 
  • Gera verkefnin persónuleg og áhugaverð, jafnvel lauma smá kímni með þar sem hægt er. 
  • Nota myndir, myndbönd, hljóð og svo framvegis, eftir því sem tæknileg geta leyfir.
  • Vera í góðu sambandi við samkennara, vera klár í að peppa og leiðbeina þar sem maður getur.
  • Vera vakandi yfir því ef nemendur eru ekki að bregðast við og skila og vera í sambandi við námsráðgjafa og stjórnendur um það. 
Og nemendur:

  • Fylgjast vel með, vinna verkefni eins samviskusamlega og gerlegt er.
  • Taka þátt í umræðum og vera virk í að láta vita ef t.d. flækjustig þess sem ætlast er til verður of hátt. 
  • Vera virk í að vera í sambandi við samnemendur og peppa, leiðbeina og halda uppi stemmingu.  
  • Hugsanlega lauma hugmyndum að leiðum að kennurum ef hugmyndir kvikna. 

Og allir að muna

  • also this shall pass.

Thursday, February 27, 2020

Ofmat

Ég held að íslenskir skólir eigi við ofmatsvanda að etja. Þá alveg sérstaklega framhaldsskólar. Í týpískum áfanga er það þannig að

farið er yfir efnið
unnið er verkefni úr efninu (mat)
prófað er úr efninu í skyndiprófi (mat)
prófað er úr efninu á lokaprófi (mat)

Þannig er hver efnisþáttur þrímetinn á þremur mánuðum.

Þetta er vitaskuld algjölega galið.

Það þarf ekki að gera verkefni úr eða prófa allt, ekki einu sinni einu sinni.

Ef það á að prófa úr efni sem er verið að vinna með í eina önn er nóg að gera það einu sinni (á skyndiprófi eða lokaprófi). Sú hugmynd að það verði að hafa skyndipróf svo nemendur "viti hvernig eigi að taka próf" er fráleit.

Mér leiðist námsmat alveg ofsalega, en ég er ekki endilega á móti því. Mér finnst að kennari ætti fyrst og fremst að ... tja .... kenna. Skondin hugmynd.

Orkan sem fer í að búa til og fara yfir öll þessi endalausu próf og verkefni ætti að vera í að hanna áhugaverðar kennslustundir og námsferla, að hugsa um og sinna velferð nemenda og að sökkva sér í nýjungar og ferska strauma í kennslugreininni sinni.

Það fyndna er að það bað okkur engin um að hafa þetta svona og það er engin sérstök krafa frá neinum að þetta eigi að vera svona... Nemendur kvarta undan alltof miklu álagi, og þetta álag er heimasmíðað af okkur og er ekki að skila neinu í auknu námi hjá krökkunum, hvað þá að þetta geri þau að betri manneskjum.

Ég legg til að hver kennari minnki tímann sem hann ver í mat um 30-50% og nýti hann í eitthvað annað starfstengt, og sjá ég held að menntakerfið verði miklu betra, minni kulnun, betra nám, rólegri kennslustundir og ég veit ekki hvað.

Og svo legg ég til róttæka endurskoðun áfangakerfisins. 

Hvatningarverðlaun - alskonar



Í umræðuhópum um skólamál á Facebook hafa myndast miklir þræðir út af hvatningarverðlaunum skóla og frístundaráðs.  Því miður hefur umræðan bara verið um símalausa Ölduselsskólann, en hin eru líka vægast sagt eftirtektarverð. Mér finnst þessi verðlaun til marks um að ótrúlega margt spennandi og jákvætt er í gangi í skólum landsins á öllum stigum og ég er ótrúlega stoltur og glaður að vera kennari á Íslandi.

Verkefnið í Foldaskóli sem snýr að því að vinna með og hvetja til spilunar á hlutverkaspilum er náttúrulega frábært. Aukin leikur og spilun í skólum, í námi og frístundastarfi er alveg frábært og hlutverkaleikir eru sérstaklega fallnir til að styrkja félagsfærni, sköpunargáfu og frumkvæði hjá nemendum - roll for initiative segi ég nú bara.

Verkefnið með bangsagístingarnar í Seljaskóla og styrking skólasafnsins sem þar er á ferðinni hljómar líka frábærlega. Hér er líka um að ræða skapandi verkefni þar sem leikurinn og ímyndunaraflið fær lausan taum. Í þessari viðurkenningu sér maður líka hvernig það eru oft ákveðnir eldhugar sem hrífa fólk með sér sem gera að verkefni fá aukabúst og verða að einhverju sem getur haft umbreytandi kraft.

Símalausa verkefnið í Ölduselsskóla er svo verkefnið sem bitist hefur verið um. Fram stíga ákafir stuðningsmenn upplýsingatækninnar og svo jafnákafir hatursmenn símanna. Sem starfandi kennari þá veit ég að innreið símanna er mikil áskorun, og þarna hefur Ölduselsskóli valið ákveðna leið. Ég er ekki endilega viss um að hún sé haldbær til framtíðar, en hins vegar ef ég hef skilið rétt var farinn lýðræðisleg leið í hönnun verkefnisins og það sé nokkuð góð samstaða um þetta í skólanum. Ég held að hérna komum við að alskonar - er ekki gott að hafa bæði tæknióða og tæknitrega skóla ... alveg eins og það er gott að hafa bæði stranga og afslappaða kennara .... verkgreinar og bóklegar greinar; þögn og hávaða? Þurfum við ekki að prófa alskonar þegar við tökumst á við nýjungar og sýna því virðingu sem fólk er að þreifa sig áfram með?

Verðlaun af þessu tagi eru held ég frábær leið til að vekja athygli á því sem er vel gert og líka til að fagna fjölbreytileikanum - og í þessum verðlaunum þá eru tvö af þremur verkefnum um eflingu leiksins sem náttúrulega gleður mig alveg sérstaklega.

Áfram alskonar  - roll for iniative!