Thursday, December 21, 2023

Íslenskir nemendur í dönsku umhverfi

Þessi póstur er ekki nema óbeint og á ská innlegg í einhvers konar Pisa umræðu, og getur ekki talist vísindaleg, heldur er þetta lítil reynslusaga tengd starfi mínu sem kennari í svokölluðum NGK bekk í Versló. Ég sinni umsýslu og praktískum málum þessu tengd, en að auki kenni ég bekknum ensku, og þá samkvæmt dönsku kerfi sem er all ólíkt íslenska áfangakerfinu, en ég hef nú eitthvað tjáð mig um það annars staðar og geri mér ekki mat úr hér. 
Nýlega var ég á fundi með kollegum mínum í Færeyjum og Danmörku um verkefnið, og þar kom fram pæling sem ég hef oft heyrt áður en hún er sú að upplifun danskra kennara er að íslensku nemendurnir séu óvanir að tjá sig í tímum, séu óvanir því að vera beðnir um að hafa skoðun á hlutunum og séu ósjálfstæðir í vinnubrögðum. 
Vissulega er hópur íslenskra krakka sem fer út lítill, en mér finnst þetta samt merkilegt. Íslensku krakkarnir eru vön tíðum skyndiprófum, verkefnablöðum, en ekki vön að taka þátt í umræðum, rétta upp hönd og koma með sín eigin sjónarmið.
Faglega séð eru þessir krakkar sterkir, sérstaklega í ensku, þau standa líka nokkuð vel í stærðfræði en stóri þröskuldurinn er danskan, sem getur ekki talist annað en eðlilegt, og svo er það þessi menningarmunur sem kemur fram og t.a.m. enskukennarnir taka vel eftir. Þar sem hluti af einkunnum krakkana byggir á þátttöku í tímum og virkni í umræðum skiptir þetta máli, og flest þeirra ná sér á strik með þetta á fyrsta árinu. 
Þessir krakkar hafa komið úr hinum og þessum skólum og eru mjög fjölbreyttur hópur, en þarna kann að vera einhver vísbending um að vinnubrögð á unglingastiginu hér hjá okkur séu aðeins í einhæfari kantinum og við gætum lært eitthvað af frændum okkar.