Ég átta mig á að lesendur munu skiptast í tvo hópa í þessu máli, einhverjir hjartanlega sammála mér og aðrir alls ekki. Ég tel að prestar, vísindamenn, listamenn, trúðar og íþróttafélög af öllu tagi eigi að vera hoppandi út og inn úr skólunum í eins ríkum mæli og hægt er. Mér finnst það að setja reglur um að tiltekin og mjög mikilvægur hluti menningar mannsins sé útilokaður úr skólunum algjörlega fáránleg forræðishyggja. Þar sem eru flinkir prestar og kirkjan er hluti af nærsamfélagi í hverfi/ þorpi / bæ finnst mér að það einkenni þess samfélags eigi að koma inn í skólann. Mér finnst líka að trúarbragðafræðsla ætti að vera með þeim hætti að prestar, múslimar, ásatrúarmenn og siðmenntarmenn ættu að koma inn og hitta nemendur og deila sýn sinni með þeim. Og ég myndi vilja sjá að háskólinn rækti skyldu sína við landsmenn með því að vísindamenn og fræðimenn stigju niður úr fílabeinsturnum sínum og inn í leik-, grunn- og framhaldsskóla.Skólinn á að vera hluti af samfélaginu og stofnunum þess og menningu; skapandi og kraftmikill, rótttækur og spennandi, en líka rótgróinn og menningarlegur.
Ég hef alltaf talið það mikilvægan hluta af kennslu minni í heimspeki að fá gesti. Ég hef fengið búddista, afskólunarsinna (Þorvald Þorsteinsson, sem hvatti krakkana til að hætta í skóla!), alsherjargoða og dómara svo einhverjir séu nefndir. Menntun er alltof verðmæt og mikilvæg til að láta hana kennurunum einum eftir, og trúarbrögð eru rótgróin og mikilvægur þráður í menningunni. Eiginlega finnst mér að það mætti taka hluta af lífsleiknitímunum og skipta tímunum á milli trúfélaga, lífskoðunarfélaga og grasrótarsamtaka. Þannig væri í viku eitt kaþólikkar, svo femínistafélagið, svo siðmennt, síðan græningjar.... o.s.frv. Þetta er hluti af því að afskóla skólanna - og bestu skólarnir eru skólarnir sem fá að vera í friði fyrir velmeinandi en afvegaleiddum möppudýrum. (Geri mér grein fyrir að þessi síðasta setning er svoldið dónaleg, en mér finnst þetta svoldið fyndið svo ég læt það flakka en bið semsé forláts)
No comments:
Post a Comment