Ég notið kennslu og handleiðslu margra frábærra kennara við Háskólann, en hér langar mig aðeins að nefna Þorstein Gylfason heitinn. Þorsteinn kenndi mér fornaldarheimspeki og frumspeki og voru það skemmtilegir kúrsar og kennsla hans sérstök og lifandi. En í raun var Þorsteinn og skrifstofan hans í Aðalbyggingunni einhvers konar tákn og leiðarljós fyrir okkur sem vorum í náminu meðan hans naut við, og skipti þá ekki máli hvort menn voru á svipuðum línum og hann fræðilega. Og þetta var sérstakt leiðarljós, vegna þess að það lýsti upp leið út fyrir alfaraleið, að maður gæti valið sér sína eigin sérstöku leið og fetað hana með stíl og af öryggi. Þorsteini var ekkert óviðkomandi, hann hafði skýrar og afdráttarlausar skoðanir og lá ekki á þeim. Það er mér sérstakt ánægjuefni að hafa verið með í því að gera hann að heiðursfélaga Félags áhugamanna um heimspeki.
Þorsteinn lagði mikið til að gera heimspekina við Háskóla Íslands að því sem hún er í dag og hafði rík áhrif á flesta sem stunda heimspeki á Íslandi. Í anda hans og í minningu legg ég til að við höldum áfram að hugsa merkilegar hugsanir um allt og ekkert og hikum svo ekki við að tjá þær skýrt og skorinort.
No comments:
Post a Comment