Wednesday, December 5, 2018

12 daga twitter

Nú tek ég þátt í skemmtilegu dæmi á Twitter, sem heitir 12dagatwitter þar sem ýmsum atriðum tengdum menntun, kennslu og upplýsingatækni eru gerð skil með tístum þátttakenda. Áhugi minn á því að vera með í þessu tengist því að mér finnst að mikið af svona, tja, framsæknari aðferðum og hugmyndum í kennslu eigi sér farveg með tækninni og að kennarar sem eru áhugasamir um að nýta sér það nýjasta þar séu ástríðufullir fagmenn sem hafa mikið fram að færa.

Hitt er svo annað mál að það eru líka vandamál tengd tækninni - og hérna ætla ég bara að nefna þrjú, og þá raðað eftir alvarleika:

1) Tækin sem við notum eru og gögnin sem við miðlum með þeim eru eign stórfyrirtækja. Um leið og maður opnar Facebook síðu fyrir hópinn sem maður fer með í nemendaskiptin eru alls konar samskipti, myndir og allt svoleiðis komnar í vörslu Zuckerberg og félaga sem geta þá nýtt þetta með ýmsum hætti.... þegar maður opnar YouTube til að sýna vídeó um vistfræði Amazon skógarins getur skyndilega opnast auglýsing um rússneska hjúskaparmiðlun... Markaðsvæðing menntakerfisins kemur þarna aðeins inn bakdyrameginn og er raunverulegt vandamál.

2) Allt skólastarf þarf að laga sig að upplýsingakerfum sem eru í eigu fyrirtækja úti í bæ (Mentor, Inna). Það kann að vera að allir þar séu miklir fagmenn, en það er þannig að oft þarf að laga skólastarfið að kerfinu en ekki öfugt og þetta er slæmt. Þannig getur upplýsingatæknin af sér einsleitni og kerfishugsun sem er ósjarmerandi. Hafandi sagt það finnst mér INNA að mörgu leyti skemmtilegt umhverfi og nota það mjög mikið, og það að allt sé vistað miðlægt og svoleiðis hefur kosti, en ég tel að þetta sé líka vandamál.

3) Símar, tölvur og önnur snjalltæki eru mjög öflug til afþreyingar, og þegar maður vill t.d. halda uppi umræðum í tímum þá eru þau mjög til trafala. Vitaskuld er hægt að setja reglur og vera með stöðugt eftirlit, en þá þarf að eyða tíma og orku í það sem er leiðinlegt. Væntanlega munum við finna okkur leiðir til að lifa með tækninni, enda set ég þetta sem atriði númer þrjú. Mér þykja allar hugmyndir um bönn á þessu sviði fráleitar, bara svo það sé alveg á hreinu, en ég þekki það mjög vel að tækin hafa ekki orðið til þess að gera kennslustundir hjá mér í heimspeki (þar sem ég nota umræður mikið) betri.

Gaman að fá smá viðbrögð kannski - bendi á að yfirskrift bloggsins er hrátt og hresst :-)