Ármann Halldórsson skrifaði þann 23. september 2011 kl. 18:08
Nýverið póstaði ég áfram einhverjum bloggum á síðunni minni þar sem farið var hamförum út af ruglinu í Möggu Pálu og Jóni Gnarr þar sem þau lögðu til afnám skólaskyldu. Ég er ekki alveg inn í hvaða hugmyndir Jón var með nákvæmlega, en ég heyrði í Möggu Pálu á Rás 2 í vikunni þar sem hún svaraði ýmsu af því sem henni var borið á brýn í gagnrýninni. Ég var þá þegar orðinn nokkuð tvíbentur í afstöðu minni, en ég held ég sá alveg hjartanlega sammála henni um að við ættum að velta fyrir okkur kennsluskyldu í stað skólaskyldu. Nú er það svo að það er leyfilegt að heimaskóla á Íslandi, en skilyrði til þess er að annað foreldrið sé kennaramenntað. Enginn nýtir sér þetta, og líklega vitir fáir af þessu. Magga Pála leggur til losað verði um þessi skilyrði og heimaskólun heimiluðum, þó þannig að einhvers konar eftirlit og utanumhald væri til staðar. Eftir að hafa hugsað all mikið um þetta þá er ég alveg sammála henni, og enn meira eftir að hafa horft á frábæran fyrirlestur Astra Taylor um þetta mál, sem ég linka á hér:
Ég hef reyndar alltaf verið svolítið á varðbergi gagnvart Möggu Pálu og Hjallastefnunni, hef haft svona 'of gott til að vera satt' fordóma, og svo finnst mér hún alltaf hafa aðeins eitthvað svona, tja, austur-þýskt yfirbragð.... biðst innilega afsökunar á þessum dónaskap. Hins vegar er ég alltaf til í að endurskoða viðhorf mín, og mér þótti hún í viðtalinu í nýliðinni viku tala af mikilli yfirvegun og visku um skólamál. Ég er algjörlega sammála henni að einsleitni sé algjör dauðadómur fyrir skólakerfið.
Astra og Magga Pála hreyfðu svo líka rækilega við mér með ábendingunum um hvernig manni hættir til að verða óhuggulega mainstream í hugsun, hvernig róttækar hugmyndir (eins og Summerhill o.fl.) hafa vikið fyrir einhverju moði og hvernig allir hafa einhvern veginn siglt inn í einhverja samsoðna málamiðlun.
Ég legg til að allir áhugamenn um menntamál láti sig hafa það að hlusta á fyrirlesturinn sem hér fylgir. Lykilatriðið finnst mér vera sá punktur hjá Astra (Östru?) að það hlýtur að vera til einhver millivegur... ég meina hvernig væri að t.d. í framahaldsskólum væri tveimur prófatímabilum af átta (ÁTTA!) skipt út fyrir skapandi verkefni, þar sem allir tækju sig til og gerðu stuttmynd eða eitthvað... eða að tímasókn í framhaldsskólum yrði minnkuð um kannski, tja, 10% .... (svona er ég orðinn sturlaður róttæklingur sjáiiði til.... bíðiði bara.... )
No comments:
Post a Comment