Friday, January 7, 2022

Framhaldsskólakennarar - tilgáta um fjórar týpur (uppfært frá fyrri pósti)

Hér er smá uppfærsla á gömlum pósti og bætt við heilli týpu, samkvæmt ábendingu Facebook vinar og fyrrum samkennara Bergs Tómassonar. Ábyrgðin á þessu öllu er þó alfarið mín. Ég krunka smá í hinar, en ekki mikið. Ég reyndar verð að biðja fylgismenn Hegels og Páls Skúlasonar afsökunar á því að rjúfa þrítöluregluna. Svo gæti líka alveg verið að það þurfi að bæta við fimmtu. 


 Ég hef verið framhaldsskólakennari í 23 ár, og er á því (af ýmsum ástæðum) að það sé besta starf í heimi (heimurinn er hins vegar afar ófullkominn, svo það er mikið pláss til bætingar)... Ein ástæðan er að stéttin er fjölbreytt og við hvern skóla kennir fólk sem kemur úr ýmsum áttum. Hér að neðan set ég fram tilgátu um fjórar týpur kennara, sem býður upp á möguleika að spegla sjálfan sig. Tvær fyrstu týpurnar tel ég í meginatriðum jákvæður, ég er ekki alveg viss með þá þriðju. 


Það hefur verið bent á að tilgátan eigi líka við önnur skólastig, en varðandi það þá set ég fram þá aukatilgátu ásinn sé ríkjandi í leikskólum og grunnskólum, tvisturinn sækir í sig veðrið á unglingastiginu og er nokkuð áberandi á framhaldsskólastiginu. Óvænt bóla af týpu þrjú kemur svo hins vegar í framhaldsskólanum (þó hún finnist alstaðar) - bendi t.d. á furðulega ritúala í kringum próf í mörgum skólum sem minna á launhelgar Azteka til forna (perur teknar úr á klósettum, full cavity leit á nemendum o.s.frv.) - og þessa furðusiði þarf að hafa í frammi ekki sjáldnar en tvisvar á ári - og margir nemendur látnir tví eða þrí sitja í gegnum ósköpin. Þetta reglublæti er svo ekki bundið við Ísland heldur virðist jafnvel kveða enn rammar að þessu hjá fyrrum herrum vorum í Danmörku. Tvistarnir ráða svo alfarið ríkjum í háskólum. Fjarkinn finnst því miður líka alstaðar, og er eina týpan sem væri best að vera alveg laus við. Heilbrigt hlutfall af þristum er mikilvægt og eðlilegt, en þegar ofvöxtur hleypur í þann hóp er voðinn vís. 

Ég minni á yfirskrift bloggsins, hrátt og hresst, en líka að öllu gamni fylgir nokkur alvara. Mig rámar í einhverja svona flokkun sem var kynnt í kennslufræðinni og var skemmtileg, hér er svo önnur sem má skemmta sér við þar sem erkitýpur Jung eru mátaðar á kennara.











Image result for jennifer honey teaching









1) Ásinn: Ljúfi kennarinn. Fókus þessa kennara er velferð nemenda. Hann er fljótur að læra nöfn, veit hverjir í bekknum eru saman, er flinkur í foreldrasamskiptum og rekst yfirleitt vel í kennarahópnum. Áhugamanneskja um mannleg samskipt og tilvalinn í trúnó í staffa partíum. 


 
Image result for Snape



2) Tvisturinn: Fagidjótinn. Þessi kennari elskar greinina sína og er mjög upptekinn af alskonar nördagangi tengdu henni. Fylgist vel með nýjungum á sínu sviði og mikill brunnur að sækja í ef mann vantar að vita meira um greinina. Veit ekki hverjir eru saman í bekknum og ekki líklegur til að bjóða sig fram í hóp sem á að ræða samskipti á vinnustað. Held að tvistinn megi finna í öllum greinum, en finnst samt einhvern veginn eins og það sé í ákveðnum raungreinum sem þessi er sterkastur. 










Image result for hemúll

3) Þristurinn: Reglupésinn. Þessi kennari hefur mestan áhuga á agamálum, reglum og einkunnum. Orð eins og "einkunnaverðbólga" og "prófsvindl" eru hans ljóðlist og tónlist. Áberandi á kennarafundum, áhugamanneskja um snjallsímabann. Eins og ég nefni að ofan þá samsama ég mig ekki mjög vel með þristinum, en viðurkenni að það er alveg fínt að einhver sé að passa að það sé ekki allt í rugli (þið vitið að mætingar séu færðar, að rusli sé hent og svoleiðis) - þristar geta veitt aðhald. Of margir þristar eru hins vegar stórhættulegir. Og munið: ekki tvö bil á eftir punkti!!!





4) Mér-er-drull. Þessi týpa er sem betur fer kannski ekki algeng, en samt. Talar aðallega um sjálfa sig í kennslustundum, mætingar mögulega stopular, mikil neikvæðni, stefnir í þunglyndi og kulnun. Lausnin er víst ekki að fara að drekka meira, skilst mér - en líklega að finna aftur sinn innri ás eða tvist... helst ekki þrist. Þessi karakter á mögulega fortíð sem (mögulega of) ástríðufullur kennari. Eða, og þetta er held ég oft málið, þessi upplifir sig sem "bara" kennari (fór ekki í doktorsnámið, gafst upp að bíða eftir meikinu með bandinu, hálkláruð skáldsaga vistuð í gamalli Appletölvu sem er ekki hægt að opna .... ) .... eins og með þristinn getur verið hollt að hafa sletta af fjarkanum með sér, en hann má ekki ná yfirhöndinni. Fjarki er reyndar gjarna í stjórnunarstöðu og það er alveg rosalega vond hugmynd.