Nú er að síga á seinni hlutann og þetta hefur verið afar merkilegt.
Lykilatriðið fyrir mér er pælingin í að vinna með afstöðu þátttakenda og að fylgjast með hversu erfitt það er fyrir marga að gefa eftir og fylgja reglum leiksins. Stjórnandinn er virkur og krefjandi, en ekki ósanngjarn. Lykil vandinn hjá mér í stjórnuninni var að ég missti einbeitingu og steypti mér inn í umræðuna efnislega, nokkuð sem ég hefði ekki átt að gera. Samt er það ekki vafamál að það gerði dvölina lærdómsríkari að steypa sér svona í laugina. Ég er líka ekki í nokkrum vafa um að ég kem aftur.
Ég mun taka upp töluvert af hugmyndunum beint í heimspekikennslunni en líka almennt í kennslu og færi mig þannig yfir í að vera með sterkari nærveru í stofunni, ég held ég hafi töluvert sterka nærveru, en stefni í að vera sterkari. Með því að nota líka meiri og virkari samtalsaðferðir í þessum dúr, og þá í enskunni án þess að gera kröfur um heimspekilega nærveru verður það auðveldara, en við sjáum til. Ég held að það vanti oft ákveðna festu í kennsluna hjá mér og ætla að vinna í því. Ég held að festan verði ekki á kostnað fjölbreytninnar eða skemmtilegheita, eiginlega þvert á móti.
Ég kem líka út úr þessari vinnu með skýrari hugmynd um heimspekina og hvað hún fjallar um. Þannig er rökleg vinna með hugtök heimspeki, og þá einkum þannig að hópur í samræðu vinni saman að slíkri vinnu. Annað sem talar mjög sterkt til mín er sú áhugaverða tenging austrænna grunnviðhorfa og vestrænna hugtaka og höfunda sem maður kynnist hérna. Grundvallaratriðið þar er hvernig súbjektið, sjálfið, þrár þess og tilfinningar er yfirgefið og hópurinn fer að hugsa. Ég þarf reyndar að huga miklu betur að og gagnrýna skarpa aðgreiningu Brenifier á tilfinningum og skynsemi, en get þó ekki sagt annað en reynsla úr samræðunum sannar að sú nálgun virkar í reynd og að þegar það virkar þá er eins og ákveðnum skýjum létti og skýrleikinn kemur í staðinn.
Svo verður maður bara að æfa sig og æfa og æfa og smám saman fer þetta að verða manni eðlilegar, og ég þróa minn eigin stíl. Eitt í því að það er mikill munur á því að vera kennari og að vera moderator í samræðu, en kennari þarf að geta fært sig á milli þessara hlutverka og það er áskoruninn sem blasir við mér í starfi.
No comments:
Post a Comment