Nú vil ég strax taka það fram að sumir bestu vinir mínir, og margir nánir ættingjar (pabbi minn, litla systir mín o.fl.) starfa á sviði raunvísinda. Ég ber mikla virðingu fyrir vísindum og hvítum sloppum, lotukerfum, svartholum, erfðamengjum, diffrun og efnajöfnun.
En.
Mér finnst margt annað skipta miklu máli og ég átta mig ekki alveg á því af hverju meirihluti menntaskólanema er á náttúrufræðibraut. Ég skil heldur ekki af hverju meirilhluti framhaldsskólanema þarf að taka spænsku sem þriðja mál, en það er önnur saga.
En.
Nemandi minn í heimspeki (sem er ekki á náttúrufræðibraut) kynnti mig fyrir hugtakinu 'náttúrufræðibrautarkrútt' nýverið. Slíkt krútt getur lært um diffrun og efnajöfnun fyrir próf og skilað nokkuð góðum árangri þar, en berist umræður að þjóðfélagsmálum, menningarmálum, bókmenntum eða öðru slíku þá verður viðkomandi eitt stórt spurningamerki og missir fljótlega áhugann...
Verandi málabrautarmaður í grunninn þá hafði ég gaman af þessu. Náttúrufræðibrautarnemarnir á svæðinu svöruðu fyrir sig með því að kalla félagsfræðibrautina 'rennibraut' og túlki hver það fyrir sig.
Kjarni málsins sem ég vil draga fram er að til þess að við höldum uppi fjölbreyttri og skilvirkri menntun og höldum menningunni og lýðræðinu gangandi dugar ekki að hafa mikinn meirihluta ungs fólks á náttúrufræðibrautum. Og það sem er skuggalegt er að svo skortir fólk til að halda áfram í raungreinum.... samt eru allir á þessum brautum af því að þau vilja 'halda öllu opnu' - þetta er eiginlega hálf öfugsnúið; krakkarnir velja braut svo þau geti farið inn á svið verkfræði og raunvísinda en raunin er svo sú að mjög fáir velja þá leið í reynd, en hafa í staðinn látið sér leiðast í framhaldsskóla (og lært spænsku) í stað þess að sökkva sér í að pæla í menningu, sögu og bókmenntum....
Ég held að hér sé mál sem við þurfum að hugleiða alvarlega. Ég vil jafnvel ganga svo langt að segja að þessi ofuráhersla á að allir taki náttúrufræðibraut sé einkenni á meinsemd sem hefur átt sér margar aðrar og skuggalegri birtingarmyndir.
Hjarðhegðun???
ReplyDeleteEkki verðum við raunvísindmenn varir við þennan áhuga/bakgrunn nemenda. Er þetta stutt tölulegum gögnum (touche)?
ReplyDeleteÞað er nú frekar auðvelt að skoða fjölda nemenda á brautum, í Versló er meirihluti þeirra sem útskrifast á náttúrufræðibraut, athyglisvert að skoða upplýsinagarnar frá Karli Jóhanni hér að neðan um MH - ég bendi líka á hugtakið 'rennibraut' í blogginu... Ég held nú að vandinn sé sá að ekki er um áhuga að ræða, heldur, einmitt eins og Biddan bendir á hjarðhegðun.
DeleteÍ Hamrahlíð byrja flestir á náttúrufræðibraut en við útskrift er félagsfræðabraut orðin fjölmennust (málabraut er hins vegar alltaf minnst af þessum þremur).
ReplyDeleteÉg held nú að það sé reynt að halda að öllum nemendum töluverðri menningarvitund og umræðu um samfélagið. Stundum er hins vegar eins og félagsfræða-og málabrautarnemendur þurfi ekkert að vita um raunvísindi til að fá stúdentspróf.
Þarf ekki að ýta meira undir að fólk geri það sem því finnst áhugavert og skemmtilegt og minna af því sem gæti hugsanlega gefið vel í aðra hönd síðar meir?
Þarf ekki að breyta einhverju svo allir þessir náttúrfræðinemendur skili sér í raunvísindanám að loknum stúdent?