Thursday, February 27, 2020

Hvatningarverðlaun - alskonar



Í umræðuhópum um skólamál á Facebook hafa myndast miklir þræðir út af hvatningarverðlaunum skóla og frístundaráðs.  Því miður hefur umræðan bara verið um símalausa Ölduselsskólann, en hin eru líka vægast sagt eftirtektarverð. Mér finnst þessi verðlaun til marks um að ótrúlega margt spennandi og jákvætt er í gangi í skólum landsins á öllum stigum og ég er ótrúlega stoltur og glaður að vera kennari á Íslandi.

Verkefnið í Foldaskóli sem snýr að því að vinna með og hvetja til spilunar á hlutverkaspilum er náttúrulega frábært. Aukin leikur og spilun í skólum, í námi og frístundastarfi er alveg frábært og hlutverkaleikir eru sérstaklega fallnir til að styrkja félagsfærni, sköpunargáfu og frumkvæði hjá nemendum - roll for initiative segi ég nú bara.

Verkefnið með bangsagístingarnar í Seljaskóla og styrking skólasafnsins sem þar er á ferðinni hljómar líka frábærlega. Hér er líka um að ræða skapandi verkefni þar sem leikurinn og ímyndunaraflið fær lausan taum. Í þessari viðurkenningu sér maður líka hvernig það eru oft ákveðnir eldhugar sem hrífa fólk með sér sem gera að verkefni fá aukabúst og verða að einhverju sem getur haft umbreytandi kraft.

Símalausa verkefnið í Ölduselsskóla er svo verkefnið sem bitist hefur verið um. Fram stíga ákafir stuðningsmenn upplýsingatækninnar og svo jafnákafir hatursmenn símanna. Sem starfandi kennari þá veit ég að innreið símanna er mikil áskorun, og þarna hefur Ölduselsskóli valið ákveðna leið. Ég er ekki endilega viss um að hún sé haldbær til framtíðar, en hins vegar ef ég hef skilið rétt var farinn lýðræðisleg leið í hönnun verkefnisins og það sé nokkuð góð samstaða um þetta í skólanum. Ég held að hérna komum við að alskonar - er ekki gott að hafa bæði tæknióða og tæknitrega skóla ... alveg eins og það er gott að hafa bæði stranga og afslappaða kennara .... verkgreinar og bóklegar greinar; þögn og hávaða? Þurfum við ekki að prófa alskonar þegar við tökumst á við nýjungar og sýna því virðingu sem fólk er að þreifa sig áfram með?

Verðlaun af þessu tagi eru held ég frábær leið til að vekja athygli á því sem er vel gert og líka til að fagna fjölbreytileikanum - og í þessum verðlaunum þá eru tvö af þremur verkefnum um eflingu leiksins sem náttúrulega gleður mig alveg sérstaklega.

Áfram alskonar  - roll for iniative!

No comments:

Post a Comment