Thursday, February 27, 2020

Ofmat

Ég held að íslenskir skólir eigi við ofmatsvanda að etja. Þá alveg sérstaklega framhaldsskólar. Í týpískum áfanga er það þannig að

farið er yfir efnið
unnið er verkefni úr efninu (mat)
prófað er úr efninu í skyndiprófi (mat)
prófað er úr efninu á lokaprófi (mat)

Þannig er hver efnisþáttur þrímetinn á þremur mánuðum.

Þetta er vitaskuld algjölega galið.

Það þarf ekki að gera verkefni úr eða prófa allt, ekki einu sinni einu sinni.

Ef það á að prófa úr efni sem er verið að vinna með í eina önn er nóg að gera það einu sinni (á skyndiprófi eða lokaprófi). Sú hugmynd að það verði að hafa skyndipróf svo nemendur "viti hvernig eigi að taka próf" er fráleit.

Mér leiðist námsmat alveg ofsalega, en ég er ekki endilega á móti því. Mér finnst að kennari ætti fyrst og fremst að ... tja .... kenna. Skondin hugmynd.

Orkan sem fer í að búa til og fara yfir öll þessi endalausu próf og verkefni ætti að vera í að hanna áhugaverðar kennslustundir og námsferla, að hugsa um og sinna velferð nemenda og að sökkva sér í nýjungar og ferska strauma í kennslugreininni sinni.

Það fyndna er að það bað okkur engin um að hafa þetta svona og það er engin sérstök krafa frá neinum að þetta eigi að vera svona... Nemendur kvarta undan alltof miklu álagi, og þetta álag er heimasmíðað af okkur og er ekki að skila neinu í auknu námi hjá krökkunum, hvað þá að þetta geri þau að betri manneskjum.

Ég legg til að hver kennari minnki tímann sem hann ver í mat um 30-50% og nýti hann í eitthvað annað starfstengt, og sjá ég held að menntakerfið verði miklu betra, minni kulnun, betra nám, rólegri kennslustundir og ég veit ekki hvað.

Og svo legg ég til róttæka endurskoðun áfangakerfisins. 

No comments:

Post a Comment