Tuesday, June 16, 2015

þroski og samræming

Í kennslufræði lærðum við um eitthvað sem heitir 'starfskenning' - þ.e.a.s. grundvallarsjónarmið sem liggur að baki öllu starfi hvers kennara. Þetta er áhugaverð og umdeilanleg hugmynd. Í þessu stutta bloggi set ég fram tilgátu um að það séu tveir megin skólar af starfskenningum meðal íslenskra framhaldsskólakennara. Ég held jafnframt fram að margir kennarar séu í hálfgerðu rugli með sig af því að þeir eru að reyna að lifa samkvæmt báðum grunnsjónarmiðum, en hluti kenningar minnar er að þetta sé hugsanlega útilokað.

Fyrri skólann nefni ég 'þroskakenningu'. Þessi hugmynd er einfaldlega það grundvallarsjónarmið að kennari starfi með hópi nemenda og markmiðið sé annars vegar að þessir nemendur fari frá henni með betri þekkingu á einvherju tilteknu sviði, og helst sem aðeins betri manneskjur, í það minnsta aðeins breyttar. Þessi kenning byggir á ákveðnum sveigjanleika gagnvart ólíkum nemendahópum og aðstæðum, leggur mikla áherslu á virkni nemenda og fjölbreytni í vinnubrögðum. Lykilorð hér eru sköpun og fjölbreytileiki.

Seinni skólann er 'samræmingarkenning'. Hér er áherslan á samræmi í mælingum og yfirferð. Hugmyndin er sú að t.d. stúdent í stærðfræði eigi að kunna ákveðin atriði X, Y og Z og að hlutverk kennarans sé að sjá til þess að nemendur nái þessu áfanga við ákveðin aldur, eða á ákveðnu menntastigi. Jafnframt er kennarinn hér hliðvörður æðri menntunar sem tryggir að gæði í færni og þekkingu þeirra sem fara í háskóla sé tryggður. Hér er mikil natni lögð við að fylgja nákvæmum námsáætlunum og að gera vönduð próf. Lykilorð fyrir þennan skóla eru  samræming og yfirferð.

Í grunninn aðhyllist ég þroskakenninguna, en starfa í umhverfi og innan skólakerfis sem einkennist að langmestu leyti af seinni skólanum. Ég geri mér grein fyrir að hér mála ég þetta nokkuð sterkum litum.Ef kerfið væri allt í anda fyrri skólans óttast margir að veröldin eins og við þekkjum hana myndi líða undir lok, en ég held að hún yrði bara ný og góð.

No comments:

Post a Comment