Monday, June 8, 2015

Generatív samræða

Hér kemur hugmynd að samræðuæfingu sem ég prófaði nýverið. Hugmyndin byggir á fyrirbærinu 'generative music' og er inspíreruð af vinnu minni við Biophiliu Bjarkar Gumundsdóttur.

Nemendur sitja í hring og hafa tvo miða til að skrifa á. Áður en æfingin hefst þá er fjallað um hvað regla er. Gott er að gefa sér smá tíma í þetta, og þá koma upp þessar tvær hugmyndir:
-regla eru einhvers konar siðferðileg fyrirmæli, yfirleitt þá bann: það má ekki lemja
-regla leggur fram fyrirmæli um það hvað gerist ef einhver tiltekin skilyrði eru fyrir hendi

Seinni tegundin af reglum er það sem kallað er algóriþmi og er grundvallarfyrirbæri í tölvuforritun.

Þegar komið er á hreint hvers konar fyrirbæri þetta er þá eiga allir að skrifa reglu á blað sem dugar til að velja út einn úr hópnum. Reglan gæti þá verið - sá sem hefur komið til X margra staða/ sá sem býr syðst/ sá sem er fyrstur í stafrófinu. Kennari safnar saman miðunum með reglunum.

Næst snýst umræðan að hugtökum, Hér er hægt að hafa opið eða þröngt svið, en ég valdi að tala um 'heimspekileg hugtök' - sem væru þá hugtök sem eru opin og þarfnast rökræðu til skilgreiningar, þetta eru hugtök á borð við réttlæti, fegurð o.s.frv. Mikilvægt að telja ekki upp of mörg dæmi.

Þegar komið er á hreint hvers konar hugtök á að ræða eru allir beðnir um að skrifa hugtak á seinni miðann, þeim miðum er safnað saman.

Síðan fá allir miða með reglu og miða með hugtaki. Kennari kemrur með einhverja reglu (t.d. nemandinn sem er nýastur í bekknum eða eitthvað) og sá byrjar. Viðkomandi les þá hugtakið sem hún er með og ræðir það stuttlega, markmiðið er ekki að negla það niður heldur að vekja hugrenningatengsl. Þegar búið er að komast að e-s niðurstöðu um það les hún regluna sem hún er með og sá sem er merktur þeirri reglu tekur til máls. Ef reglan virkar ekki þarf að ræða það og laga hana þannig að hún virki. Reglurnar og hugtökin eru hvor tveggja viðfangsefni rannsóknarinnar.

Kostur við þessa aðferð er ákveðið nafnleysi og að vera settur á vald reglunum. Hættan er ef settar eru fram óviðeigandi reglur, og kannski er rétt að renna yfir reglurnar áður en maður dreifir þeim, einkum hjá unglingum.

Markmið: hvað er regla, hvað er hugtak, upphitun, kynnisleikur

No comments:

Post a Comment