Sunday, March 4, 2012

Firrtir á Facebook - nemendur nútímans

Í liðinni viku var viðtal við einn af mínum helstu mentorum í menntamálum, Guðrúnu Geirsdóttur komst í umræðuna í síðustu viku vegna viðtals í morgunútvarpi í tilefni fyrirlesturs sem hún hélt um Háskólanema nútímans. Voru margir kollegar mínir kampakátir yfir þessu og var innihald málflutnings hennar túlkaðar á þá vegu að nemendur nú til dags væru óalandi, yfirborðskenndir, dekraðir og grunnhyggnir. Lykilatriði í skilningi (margra) kennara á nemendum sínum er að þeir séu umtalsvert hysknari (er það ekki örugglega með ypsilon?) en nemendur voru fyrir bara örfáum árum síðan.

Ég hlustaði á viðtalið, missti því miður af fyrirlestrinum, en Guðrún sendi mér svo tengil á grein eftir fræðikonuna Sarah J. Mann sem má lesa hér og fékk ég þannig endanlega staðfestingu á að þetta var nú kannski heldur einhliða túlkun á máli hennar - og að þetta er miklu dýpri (og þar af leiðandi áhugaverðari) pæling en frumtúlkun benti til.

Mann leggur hugmyndina um firringu til grundvallar greiningar á veruleika háskólanema í grunnnámi, og sækir skilning sinn á hugtakinu jafnt til sálgreiningar og marxisma. Hún er ekki að pæla í Facebook, enda er greinin frá 2001, og ljóst má vera að pælingar um nemendur á Facebook á fyrirlestrum og vælandi um glærur á netsíður áfanga hlýtur að vera einkenni á einhverju djúpstæðara. Það þarf ekki að skoða þessi mál lengi til að sjá að þau einkenni sem lýst er hjá háskólanemum eiga vel við um framhaldsskólanema líka - sumt í jafnvel enn ríkari mæli, annað kannski síður.

Mér sýnist að í greiningu Mann og tillögum hennar að lausnum sé gríðarlega spennandi hráefni sem ég þarf að melta og greina betur. Hér vil ég nefna hugmyndir hennar um nálgun nemenda á nám sitt. Í stað þess að hafa e.k. heildræna og djúpa nálgun á nám sitt þá hafi nemendur tileinkað sér yfirborðskennda nálgun (áherslu á staðreyndir og utanaðbókarlærdóm) og taktíska nálgun (áherslu á að ná því sem væri á prófum til að hámarka einkunnir). Afleiðingin af þessu er að þeir verða firrtir veruleika námsins, þeir skauta framhjá því að nálgast hlutina persónulega og forðast að fara á dýptina. Ég myndi vilja gerast nokkuð grófur og varpa því fram að kannski gildi eitthvað svipað um hluta af kennurum, og þá kannski fremur í framhaldsskólum en háskólum. Þá erum við með þá stöðu að kennarar eru firrtir og svo nemendur enn firrtari.... bara pæling.....Framhaldsskólinn líður líka fyrir að vera litla systkini háskólanna, þannig að allt sem þar gerist vísar alltaf fram á við og skiptir í raun ekki máli nema sem inngangsmiði í himnaríki háskólann - firringin er þannig í innbyggð í allt okkar starf....

Firring af þessu tagi leiðir til óöryggis og kulnunar hjá kennurum - og birtist í áhuga- og agaleysi hjá nemendum. Lausnin felst ekki í fleiri boðum og bönnum heldur í grundvallandi hugarfarsbreytingu - og líkt og Mann bendir á þá hljóta allar raunverulegar lausnir á þessu vandamáli að vera rótttækar.

Við spáum í þetta....

9 comments:

  1. Er þetta ekki hluti af stærra vandamáli, sem talað hefur verið um í sambandi við fjarnámið (sem er þá líka bara partur af vandamálinu): nemendur eru á markaðstorgi eininganna og leita þar eftir því ódýrasta frekar en því besta.

    ReplyDelete
  2. Velti reyndar fyrir mér að í þessum umræðum komi líka til sögunnar verulegur munur milli ólíkra greina í háskólum og framhaldsskólum .... Ég held að firringin sé ekki nýtt fyrirbæri en hins vegar eitthvað sem sé mikilvægt að takast á við. Ég held líka að það sé ákveðin linkind í gangi, en hún er ekki endilega akademísk, heldur kannski fremur siðferðileg - við hikum við að gera kröfur til, og leggja mat á afstöðu og viðhorf. Ég hef í ríkari mæli tileinkað mér þá hugmynd að ræða opinskátt í tímum framkomu og búkhljóð (t.d. stunur) .... Ég er ekki að segja að það sé lausn í sjálfu sér, en ríkari meðvitund um ábyrgð gagnvart sjálfum sér, umhverfinu og samnemendum hlýtur að vera einhvers virði...

    ReplyDelete
  3. jú, KJ - einmitt - það þýðir að þú ert ekki hluti af samfélagi, líkt og þú verður þegar þú ert t.d. í hóp sem myndar e.k. 'community of inquiry' með reglulegum djúpum samræðum, eða t.d. hóp sem leikur sér og skapar og rannsakar saman, þar sem athöfnin verður markmið í sjálfu sér....

    ReplyDelete
  4. Þessi yfirborðskennda nálgun á rætur sínar í því að nemendur skynja ekki tilgang námsins. Það sér það hver maður að páfagaukalærdómur á ekkert skylt við nám og námsdvölin fer að líkjast einskonar afplánun sem líkur ekki fyrr en alvara lífsins hefst að námi loknu. Nemendur líta á skólagönguna eins og á röðina í skíðalyftuna - tími til að sóa og því meira sem hægt er að verða sér úti um afþreyingu því fyrr virðist afplánuninni ljúka. Facebook eða dagdraumar í kennslustundum; birtingarformið skiptir ekki máli. Facebook er sýnilegri en reikull hugur og því er stokkið á hana sem vandamálið. En hún er bara afleiðing ekki orsök. Orsökin er...!!!!... ég verð að láta þann búnaðarbálk bíða betri tíma....

    ReplyDelete
  5. Ég vona að ég muni hafa orku til að hugsa örlítið um þetta upphátt á mínu bloggi í kvöld. Þetta komment er eins konar loforð um það. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að velta því fyrir mér hvort háskóli (og ekki síður önnur skólastig) sem staður upplýsingar sé fyrst og fremst fantasía. Ég á við upplýsingu í skilningi Kants og hugmyndina um einstaklinginn sem frjálsan anda sem getur í krafti skynseminnar öðlast þekkingu og skilning. (Eða eitthvað í þá áttina.) Sígild togstreita í kennslu er: hvenær er kennarinn farinn að segja of mikið, hvenær er hann að þröngva sínum hugmyndum (hefðinni, viðurkenndum fræðum) upp á nemendur í stað þess að virða skynsemi, sjálfstæði og frelsi nemandans? Getur kennarinn „frelsað“ nemendur (undan fáfræði, órannsökuðum venjum, valdi annarra...) á sama tíma og hann er trúr „sannleikanum“ (eins og hann birtist í viðurkenndum fræðum). Kannski er tengingin óljós ennþá, enda er ég að hugsa „í beinni“ en punkturinn er: í hvers konar athöfn telja nemendur sig vera að taka þátt í tímanum? Það er að segja: hvert er mótív þeirra - og hvaðan kemur það mótív. Einn vinkill á það (og þetta mál í heild, og ég hefði getað byrjað þar án þessa formála) er munurinn á skiptagildi og notagildi (halló Marx!). Skiptagildi menntunar: þú selur menntun þína á markaði, prófgráðan hefur skiptagildi. Notagildi menntunar: það sem þú raunverulega gert í krafti menntunnarinnar. Til dæmis að skera upp sjúklinga, hanna brú eða túlka texta. Orðræða okkar samfélags um menntun einblínir á skiptagildið. Rökin sem nemendur gefa um námsval ganga yfirleitt út á það. Ok, sé til hvort ég hef tíma/orku til að gera þetta skiljanlegt á eftir.

    ReplyDelete
  6. góð hugtök: skiptagildi, notagildi og svo mætti kannski bæta við gildi fyrir sjálft sig (sem er þá þessi dýpri skilningur kannski) - og þá kannski eigi þau öll rétt á sér, en skiptagildið hafi náð óeðlegri yfirhönd...

    ReplyDelete
  7. Skiptigildi og notagildi eru áhugaverð hugtök sem Þuríður Jóhannsdóttir notaði í fyrirlestri sínum um Yrjö Engeström. Mér finnst þessi hugtök eiga fyllilega við í þessu samhengi.

    Sennilega er einnig að birtast hér hin ævaforna trú fullorðinna að æska hvers samtíma sé á beinni leið til fjandans.....

    ReplyDelete
  8. Já, nú tókst mér ekki að skrifa almennilega í gær. En - „notagildi“ þarf ekki að túlka þröngt, það getur falist í skemmtun, nautn, andlegri upphafningu ... Munurinn felst í því að skipagildið er gildi í viðskiptum, notagildið *er* gildi hlutarins í sjálfu sér.

    ReplyDelete
  9. já, ok, það er áhugavert - þannig að þú ert með 'notagildi' og 'skiptagildi' og engin önnur gildi ... Ingmarr - hárrétt, og það er að einhverju leyti það sem ég er að reyna að afbyggja í mínu bloggi. ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá eru það kennarar sem tala aldrei öðruvísi en neikvætt um nemendur sína, það er sorglega algengt og mjög niðurdrepandi. mér finnst nemendur mínir frábærir, og ég held að með því að gera betri og flottari skóla gætu þeir fengið miklu meira út úr

    ReplyDelete