Saturday, November 16, 2019

Tvö afmælisbörn, áfangakerfið og fiskabúrið

Nýlega hef ég verið svo heppinn að vera viðstaddur og taka þátt í viðburðum þar sem fagnað var tveimur merkilegum ástundurum menntavísinda - en þau eru nebblega bæði sjötug á á árinu, en þetta eru Hafþór Guðjónsson annars vegar og Sigrún Aðalbjarnardóttir hins vegar.

Ég hef notið kennslu og lesið verk þeirra beggja mér til mikils gagns og ánægju. Í nálgun þeirra beggja á viðfangsefni sín tengd menntun og kennslu (og reyndar uppeldi á breiðari grundvelli í tilfelli Sigrúnar) eru í fræðum þeirra beggja (þó ólík séu) sterkur heimspekilegur þráður. Í gagnrýninni nálgun sinni á lífið í kennslustofunni leitar Hafþór til gagnrýninnar hefðar amerísks pragmatisma (einkum Rorty), og sýn Sigrúnar á siðferðisþroska og mikilvægi samræðunnar í uppeldi er undir sterkum áhrifum frá Habermas, og undir henni liggur sterkur aristótelískur grunnur.

Þar sem ég er mjög hrifnæmur einstaklingur þá fer ég oft beint í að pæla í og lesa og kynna mér eitthvað nýtt sem ég kynnist á svona viðburðum. Þess vegna er ég núna að hlusta á bókina "The Courage to Teach" eftir Parker Palmer sem Hafþór vitnaði í í sínu partíi. Og þegar ég svo sat þingið sem var til heiðurs Sigrúnu þá fannst mér ég heyra margt þar sem er samhljómur með því sem Palmer er að tala um.

Kjarni þess máls er að kennarar hugi að sjálfum sér og sínu eigin sálartetri, að kennarinn í einhverjum skilningi kenni sjálfan sig. Samband kennarans við nemendurna og möguleikar hans til að hafa áhrif á þá byggja á að hann hvíli vel í eigin skinni, og hafi djúpan og þroskaðan skilning á erindi sínu við fagið sitt, nemendurna og heiminn í heild sinni. Í bókinni beinir Palmer máli sínu fyrst og fremst til háskólakennara, en engu að síður finnst mér hún eiga fullt erindi við mig sem framhaldsskólakennara.

Gildin sem Sigrún velur sem titil á einu af sínum helstu ritum eru virðing og umhyggja. Ég lít á þessi tvö fyrirbæri sem mjög mikilvæga þætti í mínu starfi sem framhaldsskólakennara. En ég velti fyrir mér hvort að umhverfið sem ég starfa innan hamli mér á vissan hátt að rækta þessi gildi, og þá einkum kannski umhyggjuna. Til að geta sýnt fólki umhyggju þarf maður að þekkja það.  I þeim ramma sem áfangakerfið sem starfið í framhaldsskólanum byggir á (að mestu) þá eyði ég almennt ekki nægilegum tíma með nemendum til að ná að kynnast þeim almennilega, og krafan um yfirferð og að fylgja frekar stífum og nákvæmum námsáætlunum dregur úr sveigjanleika í samskiptum. Í fyrsta skipti á ferlinum er ég núna að kenna bekk sem mér finnst ég þekkja virkilega vel, finnst ég geta unnið með þeim og gert kröfur til þeirra (og tekið tillit) sem í flestum tilfellum er útilokað að ná, enda er ég búinn að kenna þeim þrjá áfanga. Þetta er tilfellið þó að ég vinni í bekkjarskóla, en fjarlægðin milli kennara og nemenda er skv. minni reynslu enn meiri í áfangaskólum - þó þar sé vissulega "betri agi".

Fræðin geta hjálpað til að lyfta okkur úr smástund úr fiskabúrinu og skoða vatnið sem við syndum í. Ég vil þakka Sigrúnu og Hafþóri fyrir að gera mig að meira hugsandi kennara og efa ekki að ég geti sótt innblástur í þeirra fræði út ferilinn, og hvet alla sem vinna við kennslu til að kynna sér rit þeirra og rannsóknir.

No comments:

Post a Comment