Wednesday, June 14, 2017

Lindy lögmálið - The Lindy effect

Okkar tímar, sem ná kannski 1-200 ár aftur í tímann, líklega aðeins meira, hafa einkennst af mikilli framfarahyggju. Hugmyndin er sú að við séum í stöðugri sókn og að allt sé að verða stöðugt betra. Lífsgæði, tækni, mannréttindi o.s.frv. Þrátt fyrir tuldur í hornum rykfallinna háskólabygginga þá má segja að þetta viðhorf sé mjög ríkjandi og sterkt, og byggir að nokkru á góðum rökum.

Ein afleiðing af þessu er sú skoðun að þær hugmyndir sem við gerum okkur um lífið og tilveruna, og sú tækni sem við notum sé algjörlega ný, umbreytandi og stórkostleg og sé örugglega komin til að vera.

Skoðum mynd.



Á þessari mynd má sjá allnokkur dæmi um merkilega tækni. Þarna er borð, stólar, eldhúsrúlla, plastpakningar, skál, brauðkassi, gluggi og ofn. Og tölva. Framfarahyggjan myndi segja okkur að mikilvægasta oog hugaverðusta,  og lífseigasta tækni þarna væri tölvan.

En Lindy lögmálið segir nei. Sú tækni sem er að líkindum er mikilvægust og líklegust til langlífis er skálin og svo bollinn, síðan borðið, svo stólarnir og tölvan kæmi langseinust.

Lindy lögmálið segir að tækni, hugmynd eða hugverk megi ætla áframhaldandi líf samkvæmt því hversu lengi það hefur verið til. Þannig hefur skál verið tækni sem menn hafa nýtt sér í árþúsundir, en tölva bara í nokkra áratugi - tölvutæknin hefur ekki staðist þá tímans tönn sem skálin hefur. Þessi tegund af lífseigni er þvert á það sem á við lífverur. Eldri lífvera á færri ár eftir en yngri lífvera að öllu jöfnu, og það sama gildir um fýsíska hluti. Hugmyndin um bollann mun lifa, en stök dæmi um bolla munu hverfa.

Skoðum aðra mynd:



Hvor bókin er líklegri til að vera enn í prentun eftir 2000 ár?

Lærdómurinn er sá að gína ekki yfir öllu sem er nýtt, og líka að ætla ekki að heimurinn sem við byggjum sé eins rosalega ólíkur heimi formæðra okkar og við viljum oft vera að láta. Kynni mín af þessari hugmynd eru frá þeim ágæta tækifærisheimspekingi og mikla pælara Nicolas Nassim Taleb, hugsa að ég skelli inn fleiri svona smápælingum frá honum eftir því sem ég verð í skapi til.



No comments:

Post a Comment