Saturday, April 27, 2013

Kjarninn

Ég hlustaði einhvern tíma á Ken Robinson með eina af sínum skondnu pælingum (þú hefur heyrt eina, þú hefur heyrt þær flestar) - en þar bar hann saman leikhús og kennslu og rakti kenningar einhvers af spekúlöntum frá heimalandi hans Englandi í þeim málum. Samkvæmt þeirri pælingu þá þarftu í raun tvennt til að hafa leikhús: einn leikara og einn áhorfenda. Allt annað er aukaatriði.

Að breyttu breytenda þarf tvennt til að hafa skóla - kennara og nemenda. Skólabyggingar, fjarnámskerfi, stundatöflur, námsbækur, skólastefnur, kennsluréttindi, próf og námsáætlanir eru aukaatriði. Ég kenni aðallega ensku og ég met það þannig að stefnumót mitt við nemendur þar sem áherslan er að ég hlusti á þau og þau á mig og við vinnum saman í að þroska það dásamlega fyrirbæri sem tungumál er með sjálfum okkur saman gangi þetta best. Gott er að byggja þetta samtal á einhverju góðu stöffi, bókmenntum eða greinum um hin ýmsu mál en það stöff er ekki aðalatriðið - það er breytingin sem verður á nemandum (og kennaranum) sem skiptir máli.

Ég deili þeim ótta með Ken blessuðum að við höfum misst sjónar á þessu og að það sé nákvæmlega stundatafla, áætlanir, próftöflur og allt það dótararí hafi fengið allt of mikla athygli allra hlutaðeigandi (líka kennaranna og nemendanna). Ég tel líka að upplýsingatæknin með öllum sínum dásemdum beri ákveðna ógn við þetta stefnumót í sér - þó að hún bjóði líka upp á góða hluti.

Til viðbótar við leikhústengingu Kens má taka þetta ákveðnum andlegum tökum - þá þannig að öll okkar menning og þmt. skóla- og menntamenning einkennist af mikilli hlutadýrkun - hver býr til flottustu verkefnin, er með lengstu listana og nær að fella flesta er aðalamálið en ekki hversu mikið nám átti sér stað. Eitt einkenni hlutadýrkunarinnar er mælingasýki þannig að þó ég telji mig geta bent á leiðir til að auka nám þá þýðir það ekki að ég vilji bjóða einhverjum mælingameisturum upp í nema mjög takmarkaðan dans.

En alveg burtséð frá einhverjum pælingum um fjársjóði á himnum þá liggur það fyrir að þegar við hittum mannveru og ræðum við hana þá er það sú þekking og færni, gæska og skemmtilegheit sem mætir okkur þá þegar sem skiptir máli. Vitaskuld búum að einhverju leyti að prófunum sem við tókum og námsbókunum sem við þræluðumst í gegnum - en - ég hef þá bjargföstu trú að það séu magn og gæði þeirra samskipti við aðra sem við höfum notið sem við búum fyrst og síðast að.

Eini lærdómurinn sem ég hyggst draga af þessu núna er að til að hafa góða skóla þá er aðalmálið að hafa góða og alskonar kennara. Ég myndi vilja sjá fjölbreytilegri, praktískari og samskiptamiðaðri þjálfun fyrir okkur kennarana og svo myndi ég vilja sjá skóla þar sem mikið rými er fyrir miklar, frjálsar og flæðandi pælingar sem er ekki stöðugt verið að trufla og brjóta upp vegna sjúklegrar mælingaráráttu og skipulagsfíknar samtímans.

No comments:

Post a Comment