Sunday, August 31, 2025

Viðbrögð við pælingum prófessors

 Það sem hér fylgir er stutt ádrepa innblásinn af umræðu sem er upp hafin af Atla Harðarsyni með þessari grein á Vísi. Atli er ritfær og fjölmenntaður þungavigtarmaður.  Ólíkt Atla er ég ekki viss um íslenska menntakerfið sé á neinum sérstökum villgötum. Ég byggi það á þvi að þekkja ágætlega til á framhalds- og háskólastiginu og hafa nokkra innsýn í grunnskólana líka og aðeins í leikskólana. Að auki hef ég kynnst skólastarfi víða um Evrópu og almenn tilfinning mín er sú að um margt búum við mjög vel í þessum málaflokki, jafnvel þó engin séu samræmd prófin. Ég ætla í þessum greinarstúf að pæla í þessu út frá þremur hliðum, í fyrsta lagi kannski velta því upp að við séum mögulega í mjög góðum málum, í öðru lagi hliðartilgátu um vanda tengdan stærðfræði og raungreinakennslu og í síðasta lagi hvernig áfangakerfið sem við höfum leyft að taka yfir framhaldsskólkerfið og er að smita niður í grunnskóla sé hugsanlega rót hluta þess vanda sem Atli lýsir.

Ein leið til að komast að þeirri niðurstöðu að menntakerfið sé ónýtt sé að afurð þess, við fólkið í landinu sé ónýtt. Að íslenskir bakarar, píparar, verkfræðingar, tannlæknar, hárgreiðslufólk, heimspekingar og flugþjónar séu lélegri og verr í stakk búnir til að sinna sínum störfum en erlent fólk í sömu stöðum. Þetta er vitaskuld erfitt að fullrannsaka en mín almenna tilfinning er sú að svo sé ekki. Mögulega gætu einhverjir sagt að við séum í jafngóðum málum og við kannski erum þrátt fyrir lélegt skólakerfi, en það þykir mér hljóma sérkennilega.

Atla verður tíðrætt um vanda tengdan stærðfræði og raungreinakennslu. Ég ætla hérna að vera smá glannalegur, en það er líka allt í lagi og þá gott að fólk komi til andsvara. Mín tilfinning er sú, og nota bene ekki byggt á stífum rannsóknum heldur reynslu í starfi og bara almennt tengt skólum, að menning innan þessara greina, einkum í framhaldsskólum og háskólum einkennist af ákveðnum skorti á að ná því að miðla þekkingunni á hátt sem nær til stórs hluta fólks. Mikilvægasta verkefnið í þessu samhengi er að framleiða stærðfræði- og raungreinakennara sem hafa góð og djúp tök á þeirri hugsun sem þarf til að ná langt innan þessara fræða, en hafa líka góðan mannskilning, tök á fjölbreyttum kennsluaðferðum og ánægju af því að umgangast fjölbreytta flóru fólks. Gildismat sem hefur verið ríkjandi um nokkurt skeið sem segir að ef þú kannt að reikna hljótir þú að fara að vinna í banka og græða grilljón, fremur en að njóta þess að vinna í menntakerfinu og vera í fjölbreyttu og skapandi umhverfi með alskonar fólki og styðja börn til að komast í tengsl við töfraheim talna og forma er afar dapurlegur vitnisburður um andlegt gjaldþrot menningarinnar. Vitaskuld eiga kjör kennara að vera góð en ég held að vandi menntakerfisins sé birting vanda sem er mun djúpstæðari og víðfeðmari sem er fólgin í brengluðu verðmætamati.

Atli fjallar um hvernig nám í framhaldsskólum hefur orðið að söluvöru, og gerir því í skóna að hægt sé að kaupa einingar í fjarnámi, og að þar með sé það sem hefur verið þróað sem fjarnám við skóla á borð við Versló sé innantómt frat. Hafandi kennt fjarnámsáfanga um árabil finnst mér þetta nokkuð harður dómur. Það er ákveðinn vandi tengdur námsmati í fjarnámi og hefur sá vandi stóraukist með tilkomu gervigreindar. Hins vegar held ég að það fari mjög mikið og gott nám fram í mörgum flottum fjarnámsáföngum á Íslandi og það lýsi frekar neikvæðum mannskilningi að álykta að það sé almennt svo að nemendur svindli sig til prófs í fjarnámi.

Fjarnám á framhaldsskólastigi er mögulegt fyrir tilkomu áfangakerfisins og það er vissulega svo að það auðveldar að gera menntun að söluvöru. Þýðing á öllu námi yfir í dularfullar ”einingar” (sem hefur vissulega líka átt sér stað á háskólastigi) er nokkuð vafasamt mál að mörgu leyti. Áfangakerfið sem hefur tekið yfir allan framhaldsskólageirann á Íslandi (þrátt fyrir hetjulegan mótþróa frá miðbæ Reykjavíkur) er að mörgu leyti gott kerfi, en það hefur líka margvíslega galla. Það býður upp á mikinn fjölbreytileika (sem mér sýnist Atli ekki endilega vera hrifinn af, sem kemur mér smá á óvart), en þessi fjölbreytileiki hvílir líka á ákveðinni einsleitni. Það er mjög furðuleg hugmynd (eins og ég hef oft tjáð mig um áður) að það að kenna brauðbakstur, ensku, stærðfræði og útsaum sé alltaf best í 4 tíma á viku, í 14 vikur, einn kennari og 26 nemendur. Áfangakerfið er að mínu mati dæmi um það að kerfi sem hentar mjög vel fyrir búrókrata og Excel hefur náð að yfirtaka alla starfsemi skólanna og vinnur gegn því að hægt sé að kenna hluta eins og best er að kenna þá. Að auki er sú staðreynd að bekkjarkerfið hefur verið kerfisbundið brotið niður mjög neikvæði þróun og þar held ég að eins skýringin á ýmsum vandamálum ungmenna liggi, og þarna er líka einhver þjónkun og sjálfsþjónkun við okkur kennarana í gangi – vegna þess að ”agamál” séu miklu betri þegar kennt er samkvæmt áfangakerfi. Þarna er líka ákveðið vandamál tengt því að gengi eininganna verður mjög óljóst og kannski hægt að fallast á það með Atla að merking og innihald stúdensprófs sem er 200 einingar getur verið afar mismunandi, og ekki gefið að þó ég sé með X einingar í dönsku að ég geti haldið uppi samræðum á torgum Álaborgar. Ég myndi aldrei láta mér detta í hug að útrýma áfangakerfinu. Ég held að við þurfum samt endurskoðun á því, og ég myndi líka telja að það væri mjög spennandi kostur að stofna skóla sem byggði á annarri hugsun, t.d. á einhverju hliðstæðu við danska menntaskólakerfið.

Gagnrýni Atla á námskrár held ég að sé um margt gild. Þær eru ofhlaðnar og orðalag oft óljóst. Textar sem verða til í lýðræðislegum ferlum þar sem margir koma að og oft margir sem kannski þekkja ekki nógu vel til þess sem um ræðir verða oft svona. Það eru líka mjög háleit og óljós markmið í ýmsum trúarritum og spekiritum sem fólk túlkar og aðlagar lífi sínu, og þau geta veirð gagnleg og ógagnleg eftir hendinni. Ég held að námskrár séu meira svona eins og einhvers konar smurbrauðsborð sem getur hjálpað okkur að stilla starf af, en við ætlum ekki að það stýri okkur frá degi til dags, fremur en hinar ýmsu reglugerðir og lög um hitt og þetta þvælast fyrir daglegu lífi okkar á öðrum sviðum. Þannig að enn held ég að fréttir af heimsendi séu stórlega ýktar, en margir spennandi möguleikar til að gera áhugaverðar tilraunir og gera góða skóla enn betri.