Friday, November 16, 2018

Umhyggjusamband nemenda og kennara - hvað gildir það?

Fyrir allnokkrum árum varð ég var við það að samkennari minn (sem því miður er hættur fyrir aldur fram) var að vasast í því að hringja í, og jafnvel sækja nemendur sjálfur sem áttu erfitt með mætingar. Þótti mér nokkuð langt gengið í meðvirkni þarna - en samt - það er eitthvað fallegt við þetta. Áhugavert er að þessi kennari var klárlega það sem mætti kalla "af gamla skólanum" , var bæði strangur og gerði miklar kröfur til nemenda sinna eftir því sem ég best veit.

Þróun menntunar - líkt og samfélagsins í heild - einkennist af ákveðinni kerfisvæðingu. Ég hlýddi á ágætan lestur Atla Harðarsonar um þetta nýlega og þar m.a. kom hann inn hvernig það er ekki spurt "Talarðu dönsku?" heldur "Hvað ertu með margar einingar í dönsku?" Þegar skólar verða að einkunna og eininga verksmiðjum er hætt við að persónulegi þátturinn gefi undan.

Alvarlegur galli á áfangakerfinu er að kennari er bara með hóp í eina önn. Í vissum tilfellum er þetta kappnóg, en hins vegar hugsa ég að til að mynda almennilegt "umhyggjusamband" þá þurfi heilan vetur - fyrir mig dugir önnin ekki. Ég næ alltaf langbesta sambandinu við fyrsta árs bekkina sem taka tvo áfanga í röð og ég er með í heilan vetur.

Skylt þessu er hið mikla "yfirferðarblæti" sem einkennir stemminguna í skólum - en stuttir áfangar og mikil áhersla á að "klára efnið" minnkar tíma sem kennari hefur til að þróa e.k. samband við nemendur, og reyndar hefur það líka slæm áhrif varðandi tilraunir til að auka fjölbreytni í kennsluaðferðum o.s.frv. Þarna kemur líka inn í vandinn sem felst í þessari spurningu - "er þetta til prófs" / "gildir þetta".

Ég tel öruggt að markviss vinna til að efla umhyggjusamband í framhaldsskólum myndi auka gæði náms, minnka brottfall og gera starf kennara og nemenda ánægjulegra í alla staði.

1 comment:

  1. Harrett, kerfisvaeding etur bornin sin. Php

    ReplyDelete