Thursday, February 18, 2016

Brúnn eða rauður, bekkjarkerfi og áfangakerfi

Magnús Þorkelsson spilaði út skemmtilegu svari við blogginu mínu um bekkjarkerfi vs. áfangakerfi, sem má lesa hér. Hann skrifar af þekkingu og áhuga á málefninu. Ég vil bara aðeins bregðast við örfáum punktum hérna:

Mér kemur ekki til hugar að halda því fram að bekkjarkerfið skili betri nemendum upp í háskóla fyrir þær sakir að þar séu bekkjarkerfi, það hefur nákvæmlega eins og Maggi skrifar allt með það að gera hvaða nemendur koma þangað inn. Mín spurning snýr að því hvort meðalnámsfólk og slakara gæti hugsanlega vegnað, eða allavega liðið betur í bekkjarskólum.

Hvernig svo sem heildartölur um umsóknir í framhaldsskóla eru reiknaðar út þá er það allavega ljóst að bekkjarskólar njóta mikilla vinsælda, einkum meðal þeirra sem útskrifast úr grunnskóla. Hversu mikilvægt bekkjarkerfið per se er í því samhengi er náttúrulega erfitt að fullyrða um, en ég hugsa að það skipti einhverju máli.

Sú staðreynd að bekkjarskólar hafi ekki haft innihaldslýsingar fyrirliggjandi og ekki verið virkir í að móta stefnu þegar námskrár voru ritaðar verður bara að skrifast á aumingjagang (og kemur mér ekki á óvart, reyndar) og í því samhengi verður áfangakerfið bara að teljast eiga 'sigurinn' skilið.... sá sigur er að mínu mati ótvíræður þó að Maggi reyni að sýna fram á annað.

Bloggið mitt er ekki innlegg í eitthvað dekurvæl bekkjarskóla, ég er reyndar helst á því að taka upp einhver allt önnur viðmið við inntöku (var t.d. fylgjandi hverfisskólum) og finnst undarlegt að skólar sem eru að mestu eða öllu leyti reknir fyrir almannafé þurfi ekki að sýna neina félagslega ábyrgð.

Ég skil svo ekki fullkomlega hvað er átt við í lokaorðunum, nema ég er sammála því að burðarásinn í góðri menntun séu nemendur og kennarar, og í raun aðallega nemendur, sem geta svo lært gríðarlega mikið hverjir af öðrum - og hugsanlega getur bekkjarkerfið eða einhver nýstárlegri útfærsla á því verið heppileg til þess arna. Og ég deili ósk Magga um að flóttamenn fái að njóta menntunar, og vildi óska að hægt væri að vinna bug á námsleiðanum sem herjar á framhaldsskólanemendur - og þar hugsa ég að það sé mjög einfeldningslegt að ætla að áfanga- eða bekkjarkerfi sé úrslitaatriði.

Takk sömuleiðis fyrir hugleiðingarnar!

No comments:

Post a Comment