Thursday, October 31, 2013

Menntabloggari skoðar heiminn 2 (lýðræði í verki)

(aðvörun: þessi texti kann að innihalda kaldhæðni - bið alla að gæta að því áður en þeir gera athugasemdir. ef fólk hefur ekki vald á, eða gráðu í, kaldhæðni, mæli ég með að leita til einhvers sem það hefur áður en gerðar eru athugasemdir við einstaka þætti ritsmíðarinnar)

Ég heimsótti þriðjudaginn 29. október ásamt Inga skólastjóra menntaskóla í Kaupmannahöfn sem heitir Det frie gymnasium Þessi skóli byggir á lýðræðisprinsippum og hefur starfað samkvæmt þeim í 40 ár. 
Ingi við innganginn


Quri Palomino Janns sem kennir spænsku og íþróttir tók á móti okkur og var frábær gestgjafi. Hann fylgdi okkur allan morguninn og var mjög upplýsandi og þægilegur gestgjafi. 

Það fysta sem slær mann þegar maður kemur inn í skólann er veggjakrotið / -skrautið sem er út um allt.  Þetta er það sem blasir við þegar maður kemur fyrst inn í skólann: 



Það er nokuð ágeng stemming sem fylgir þessu - en þarna má segja að í rauninni sé það þannig að maður sjái lýðræðið í verki - krakkarnir skreyta sjálfir stofurnar með sínum eigin verkum. Sumar stofurnar eru mjög flottar, og aðrar síður - það fer eftir bekkjunum. Því miður náði ég ekki að fara um og taka myndir af mörgum ólíkum stofum - rakst hins vegar á þennan skemmtilega texta: 


Þegar gengið er inn í skólann þá kemur maður beint inn í stór sameiginlegt rými. Þetta rými er í raun eins konar lýðræðistorg. Matsalur / fundarsalur / kennarastofa / afþreyjingarsvæði /listsköpunarsvæði. Það höfðaði sterkt til mín að strax á vinstri hönd var matsalan svo það leið ekki langur tími þar til maður var kominn með kaffibolla í hendina. Hvern dag er stuttur fundur kl. 10 þar sem hægt er að koma með tilkynningar og pælingar - en hvern fimmtudag er svo stórfundur þar sem teknar eru ákvarðanir um allt og ekkert sem varða skólann. Á þessum fundum eru teknar ákvarðanir um matseðil, agamál, ráðningar kennara - allt og ekkert!  Allir hafa eitt atkvæði, allir starfsmenn, nemendur og kennarar. 

Geri ráð fyrir að það séu tvö atriði sem eru frekar sláandi í þessu. Annars vegar að opna rýmið sé líka kennarastofa og að nemendur kjósi um ráðningu kennara. Quri kynnti okkur fyrir Søs Bayer sem er rektor skólans og var einmitt líka kosin í embættið með þessum hætti. Við ræddum þessi mál við kennara og nemendur og eitt atriði sem nemendurnir lögðu mikla áherslu á var gott samband við kennara. Þann skamma tíma sem við vorum þarna var ekki annað sjá en að samband milli kennara og nemenda væri mjög óþvíngað og eðlilegt. Ég hjó eftir að einn af nemendunum sem við töluðum við sagði að þau væru ´vinir' kennaranna - en svo leiðrétti hún sig og sagði að það væri ekki rétta orðið. 

Quri sagði að hann liti svo á að þetta kerfi hefði fleiri kosti en galla Stærsti gallinn er hversu langan tíma hlutirnir taka. Annar galli er að stundum eru ákvarðanir ekki góðar. Ég reyndar þekki ekkert kerfi sem getur ekki af sér vondar ákvarðanri. Góður stjórnandi með mikið vald getur líka gert mistök. Reyndar veit ég ekki til að slíkt hafi gerst í Versló, en það er undantekning. 

Fyrsta upplifun okkar var stuttur fundur af þessum toga. Margir tóku til orða, en þátttakan var bara lítill hluti nemenda. Flestar meldingar voru um eitthvað tengt félagslífi eða starfi hinna ýmsum nefnda. Nefndastarfið er grunnur lýðræðisins og á stórfundum leggja hinar ýmsu nefndir fram sín mál. Gaman að því að rektor tók til máls og ræddi um umgengnismál - sum mál eru þess eðlis að þau þarf að ræða alls staðar og stöðugt! 
Gefið til kynna að mðaur vilji orðið
Det frie getur ekki flokkast sem róttækur lýðræðisskóli, líkt og t..d. Sudbury Valley. Ástæðan er sú að starfsemi skólans, eða meginhluti hennar, er menntaskóli sem starfar samkvæmt reglum og fyrirmælum yfirvalda. Nemendur taka samræmd stúdentspróf. Tilraun skólans (samkvæmt ákvörðun fundar) fyrir nokkrum árum til að koma á frjálsri mætingu var tekin föstum tökum og stöðvuð af yfirvöldum. Skólinn er einkaskóli með svipðum hætti og Versló - og oft eru slíkir skólar í spennandi og dýnamísku sambandi við yfirvöld af ýmsum ástæðum. 

Ágætt er að halda því til haga að skólinn útskrifar nemendur sem eru háir á stúdentsprófi. Sterkustu greinarnar þeirra eru félagsgreinar og hugvísindi. Raungreinar sækja í sig veðrið. Skapandi greinar hafa sterka hefð þarna, en í núverandi andrúmslofti í menntamálum eiga þær undir högg að sækja hér sem annars staðar.

Við heimsóttum hin einstaklega sjarmerandi Kazem Neisari þar sem hann var að kenna líffræði. Líffræðistofan er undanþegin veggjakroti - sem er mjög eðlilegt þegar þarf að gæta að hreinlæti í tengslum við tilraunir o.s.frv. Verkefni nemenda var að rannsaka sjálfa sig, varðandi blóðþrýsting og ýmsa aðra lífsstílsþætti, m.a. reykingar. Lifandi og skemmtileg kennsla og stemming í tímanum, en ekkert sem gæti ekki alveg eins verið í gangi í Versló eða hvar sem er, þannig lagað.  Kazem reyndist hafa átt fullt af íslenskum vinum á námsárum sínum í Kaupmannahöfn og m.a. spilað í fótboltaliði með íslendingum og tekið þátt í 17, júní hátíðahöldum. Hann móðgaði okkur félaganna reyndar með því að hafa orð á því að við værum óvenju smávaxnir íslendingar! Kazem hafði flúið klerkaveldið í Íran, en ólst upp við mikið og þrúgandi feðraveldi fyrir byltingu. Hann þarf að ferðast langa vegalengd til að kenna í Det frie - en hann vill hvergi annars staðar vera!

Niðurstaðan var að þetta er mjög spennandi skóli og að það verður spennandi að vera í sambandi við þau og læra meira um lýðræði í verki. Það er líka hægt að sjá að nýta má lýðræði með ýmsum hætti án þess að fara alla leið. Svo er líka spurning hvort tíminn fari að koma fyrir lýðræðisskóla á Íslandi.....


No comments:

Post a Comment