Saturday, March 9, 2013

Þriggja heima saga - Hrafnsauga

.... aftur ætla ég að gera smá blogg um furðusögu, og stelast þannig framhjá menntamálunum í annað sinn. Hafði upphaflega ætlað að gera eitt blogg um þessar tvær bækur, þeas. Spádómurinn og Hrafnsauga en mér finnst það eiginlega bara asnalegt, ég kem inn á smá samanburð í þessu bloggi samt, bara smá.

Allavega: Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson feta í Hrafnsauga svipaða slóð og Hildur Knútsdóttir í Spádómnum í því að skrifa svokallaða 'Háfantasíu' - þar sem skapaður er nýr heimur frá grunni. Fantasíur sem við erum vön eins og t.d. Harry Potter bækurnar eru 'Lágfantasíur' í því að í þeim er heimurinn eins og við þekkjum hann notaður en við hann bætt öðrum heimi, vídd eða hvað má kalla það sem er heimur fantasíunnar. Í ljósi þessa er dáldið skondið að þeir velji yfirskriftina ´Þriggja heima saga' þar sem okkar heimur er klárlega ekki einn þessara heima.

Heimur þeirra Kjartans og Snæbjarnar er mun flóknari og lögð hefur verið meiri vinna í sköpun hans en í heim Hildar - enda er hér lagt upp með að þetta eigi að verða að bókaflokki, í það minnsta þríleik. Baksagan er mun skýrari og dýpri og illska þeirra illu ógnvænlegri og nær betur til manns.

Aðalpersónan, eða ein þeirra, Ragnar, er, líkt og Kolfinna (og Harry Potter, og Logi Geimgengill og, og,... ) útvalinn og gegnir lykilhlutverki í alheimsplottinu - og líkt og Bilbo, og Logi og ... leggur hann upp í mikla ferð með félögum sínum og vísum aðstoðarmönnum - sem er raunar rétt hafin í lok bókarinnar. Félagar hans eru Breki og Sirja - 2 strákar og ein stelpa. Þau eru öll vel gerðar og áhugaverðar persónur að mínu mati.

Mér finnst þetta mjög skemmtileg og grípandi frásögn. Ég hafði mjög gaman af hvernig íslenskum, finnskum, enskum (Welskum?), grænlenskum og svo ýmsum öðrum vísunum er blandað saman. Örnefnin eru flest íslensk, en nöfn persónanna koma héðan og þaðan og talað er um ýmis tungumál og mállýskur o.s.frv. sem virkar allt mjög áhugavert og heillandi og heimur sem mann langar að kynnast betur.

Frásögnin skiptir um sjónarhorn milli persónanna og við sjáum atburði lika frá sjónarhorni myrkraveranna. Þetta er áhugavert og gefur ákveðna tilfinningu sem skortir oft í svona sögum. Engu að síður er enginn vafi á því að þeir illu eru illir. Það einfaldar svona frásagnir þegar þeir vondu vita að þeir eru vondir - flest illmenni mannkynssögunnar hafa farið fram í þeirri trú að þeir væru góðir....

Ein aðferð sem mér líkaði vel í frásögninni var notkunin á skáletrun, en hún gefur til kynna einhvers konar innri díalóg persóna, þar sem fram koma ákveðnar efasemdir eða íhugun og kryddaði það skemmtilega.

Áhrif á þessa sögu eru héðan og þaðan. Pælingin með hið forna tungumál sem hefur galdramátt þar sem orðin tengjast hlutunum er sterk hjá le Guin í Earthsea bókunum, en er líka þekkt víða. Tolkien er þarna líka á sveimi, en ekki kannski sem neitt lykilatriði. Ég þykist líka greina þræði sem rekja mætti til spunaspila - einkum þegar persónurnar eru að vopnbúast og líka í frásögnum af bardögum sem mér finnst vera vel heppnaðar og grípandi.

Ég verð að segja að ég hlakka mjög til framhaldsins og enginn vafi á þeir félagar koma sterkir inn í íslensku furðusöguna og íslenskar bókmenntir og voru vel að barnabókaverðlaunum komnir. Það er hins vegar engin spurning að þessi bók hentar fullorðnum sem hafa smekk fyrir fantasíum vel, og gæti reynst nokkuð erfið fyrir of ung eða viðkvæm börn - gæti vel getið af sér nokkrar martraðir....

Hrafnsauga

No comments:

Post a Comment