Saturday, March 16, 2013

Gagnrýni á gagnrýna hugsun alá

Í gær fór ég á málstofu á Hugvísindaþingi sem var titlaður 'Róttæk heimspeki samtímans'. Ég náði reyndar því miður bara fyrst tveimur fyrirlestrunum, hjá Nönnu Hlín Halldórsdóttur og Erlu Karlsdóttur - þessar fyrirlesur voru hins vegar öldungis frábærar - og fyrirspyrjrar og álitsgjafar sem létu í sér heyra eftir mál þeirra myndiðu dásamlegan kontrapunkt - eiginlega var þetta svo elegant þegar ég fór að ég vorkenni Agli sem var næstur á stokk - en skora á þá sem heyrðu í Agli og Sigríði að segja frá í bloggi. Hér segi ég í 'stuttu' máli frá hugsunum mínum um þann fyrri, seinni skelli ég inn pælingum um þann seinni.

Allavega: Nanna réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur réðst í það verkefni að gagnrýna heilagt mantra íslenskra heimspekinga - gagnrýna hugsun og siðfræði sem samtvinnað fyrirbæri. Hún nálgaðist málið frá nokkrum hliðum, og gerði það nokkuð vel, þó lærðir meistarar við háskólann sæju ástæðu til að saka hana um að hafa annars vegar ekki lært nógu vel heima og hins vegar að rugla saman hugtökum.

Nanna setti fram nokkrar leiðir til að skoða gagnrýna hugsun:

-Sem 'eftirhrunsklisju' á borð við 'Skjaldborg heimilana'
-Sem heimspekikenningu sem er fyrst og fremst verk Páls Skúlasonar, og þá samtvinnuð siðfræði
-Sem greiningu á rökvillum (sem er eiginlega það sem er kallað 'critical thinking' og er kennt sem sérstök grein víða um lönd - stundum kallað óformleg rökfræði).
-Sem gagnrýna kenningu, með rætur hjá Marx, Frankfúrtarskólanum, en í kynningu Nönnu gekk hún út frá Foucault og Butler.

Nanna hóf mál sitt á að leggja þetta fram svona, og í því ljósi er það skrýtið að halda því fram að hún rugli saman hugtökum, því þetta var vel aðgreint hjá henni - og jafnframt var það ljóst að hún hélt því ekki fram að kenning Páls Skúlasonar væri klisja, klisjan og heimspekikenningin voru sett fram sem tveir ólíkir hlutir hjá henni, og ég gat ekki heyrt annað en að kenningunni væri sýnd tilhlýðileg virðing; og e-s staðar segir hinn ágæti heimspekingur Páll að maður sýni heimspekikenningum og skoðunum virðingu með því að gagnrýna þær - þeas. málefnalega. Ég ætla nú að gerast pínulítið grófur (VIÐVÖRUN - BLOGGARI GENGUR MÖGULEGA OF LANGT) og segja að mögulega hafi hin skæða rökvilla 'ad feminem' læðst inn og truflað ákveðna í áheyrendaskaranum þarna í gær í máli þeirra.

Það er alveg augljóst að mikið af því sem hefur heyrst um að það þurfi að efla gagnrýna hugsun og siðfræði í skólum og annars staðar ber mörg einkenni þess að vera klisjukennt, innihaldslaust blaður. Maður fær það á tilfinninguna að 'siðfræði' snúist um það að Siðfræðingurinn safni saman leikskólabörnum, bankamönnum, pólítíkusum og öðrum sem til vandræða kunna að vera, þrumi yfir þeim og - barbabrella - siðferðið mun að nýju eflast og dafna og ekkert hrun verður aftur á bakvið skjaldborgina. Umræða í tengslum við tam. grunnþættina góðu sem eru í Aðalnámskrá er í mikilli hættu varðandi klisjuvæðingu og þess vegna vil ég þakka Nönnu fyrir að segja þetta sem ég held við höfum mörg verið að hugsa. Að neita því að þetta sé klisjukennt á köflum er ótrúlega barnalegt að mínu mati.

Kenning Páls Skúlasonar, sem ég ætla ekki að fara í í smáatriðum hér, er náttúrulega vel rökstudd og uppbyggð útfærsla á sterkum þráðum úr hefð heimspekinnar - og felur í sér sterka trú á mátt rökhugsunarinnar og skynseminnar. Það sem er sérstakt og, í raun nokkuð róttækt, í kenningu hans er sá hornsteinn hugsunar hans að gagnrýnin hugsun, sé hún réttnefnd sem slík, muni alltaf komast að siðferðilega réttum niðurstöðum. Þannig væri það alltaf útilokað að verk á borð við Mein Kampf stæðist skoðun gagnrýninnar hugsunar (ath. Ad Hitlerium). Nú stenst MK örugglega ekki slíka skoðun, en eins og ég skil málið þá myndi kenning Páls segja að við gætum fyrirfram gefið okkur að slíkt verk sem á sér siðferðilega óverjandi markmið, myndi aldrei geta staðist röklega. Ég held að þetta sé hæpið - ég er ekki siðferðilegur afstæðishyggjumaður - hins vegar tel ég að siðferðilegar staðreyndir komi 'eftirá' - sprottnar úr reynslu okkar af mennskunni (ath. þetta er ég, ekki Nanna).

Kenning Páls og svo fyrirbærið 'Critical thinking' sem kennslugrein í óformlegri rökfræði var kannski það eina sem Nanna greindi ekki skýrt í sundur. Hún benti á að í beitingu þessara fyrirbæra þá myndi maður leita upp stök og greina þau og álykta hvort þau féllu undir gagnrýna hugsun. T.d. mætti hugsa sér að taka kosningaloforð og setja þau fram í töflu sem GH og ekki GH. Gagnrýni Nönnu hér fólst svo í því að benda á að forsendurnar - t.d. skilgreiningin á 'rökvillum' væri mögulega gagnrýniverð og að sú kenning sem yrði ofan á fæli í sér ákveðna valdbeitingu. Mikilvægt er að mínu viti hérna að gera skýran greinarmun á því sem í formlegri rökfræði eru rökvillur og grunnreglur - og svo því sem er notast við í óformlegri rökfræði. Raunar er það svo að óformlega rökfræði stendur fræðilega séð ekkert sérstaklega sterkum fótum og hefur verið gagnrýnd fyrir að vera alhæfingasöm og ófrjó (nákvæmlega - ALHÆFING - HVAR ER HEIMILDIN????). Þannig mætti gagnrýna t.d. hugmyndir um rökvillur á borð við 'slippery slope' eða 'ónóga aðgreiningu'  án þess að maður ætli sér endilega að neita því að hringskýring eða 'post hoc ergo propter hoc' séu rökvillur. Það er líka mikilvægt - og þetta kom ekki fram í gær - að það er engin hefð fyrir því í kennslu Critical Thinking að fella hana að siðfræði eða siðferðilegum pælingum með neinum hætti - enda sprottinn úr hefð sem hefur djúpstæðar efasemdir um allar pælingar um fyrirfram gefið siðferði -semsé rökgreiningarheimspeki og pósítivisma....

Sú gagnrýni sem Nönnu hugnaðist best er svo gagnrýnin kenning af ættmeiði Frankfurtarskólans (og lengra til baka) en hún kynnti það fyst og fremst eins og Judith Butler beitir það. Grunnkonseptið í þessari pælingu er að í gagnrýni þá vinnum við í því að rannsaka og færa til mörkin sem við lifum í í daglega lífinu. Það mætti þá bera það saman við eitthvað af því sem er komið fram hér að ofan. Kannski má skilja bæði Pál og CT nálgunina þannig að við eigum ágætt kerfi sem við skiljum bara ekki nógu vel. Gagnrýnin hugsun gengur út á að kynna og beita með réttum og góðum hætti þeim prinsippum sem búa í vestrænni rökhefð (og lýðræðishefð og lagahefð o.s.frv.). Gagnrýnin kenning beinir hins vegar sjónum sínum að mörgum þessarrra prinsippa og telur að mögulega felist í þeim helgun á ákveðinni kúgun: kúgun á konum, minnihlutahópum, samkynhneigðum o.s.frv. Jafnframt felur þetta kerfi í sér ákveðna forskrift um það hvernig lifa bera lífinu og hafnar öðrum mögulegum leiðum. Nanna sagði að Butler væri manneskja sem hefði uppgötvað að þessi forskrift passaði ekki við það hvernig hún sæi lífið og þannig hefði hún í raun verið knúin tilvistarlega til að vinna í því að rannsaka þessar forskriftir og að gagnrýna kenningin spretti þannig eðlilega af veru hennar í heiminum.

Nú er það þannig að þegar maður t.d. kennir heimspeki í framhaldsskóla má ljóst vera að líkurnar eru til að maður haldi sig innan hefðar - t.d. er kennsla í rökvillum klassísk og góð aðferð til að byrja heimspekinámskeið (og gott að prófa úr þeim). Þó held ég að það sé ekki mikið mál að kenna svoleiðis hluti með þeim hætti að maður grafi undan um leið og maður byggir upp - en það er ekki auðvelt endilega - og þó ... ég hugsa að það sé líka þannig að í gagnrýnu kenningunni er það sem gagnrýnin og sköpunin hittist og þannig held ég að heimspekin verði að taka til sín lærdóma úr listum þar. Aðalatriðið held ég að sé að gera sér grein fyrir því hvernig heimspekin og fræðaheimurinn almennt á sér margar hliðar, þætti og fasa -


...og ég verð að segja að ég gleðst í hjartanu og heilanum við að sjá þessar frábæru fræðikonur setja fram sitt mál eins og þarna í gær - og næst skelli ég inn einhverjum hugleiðingu útfrá fyrirlestri Erlu - og semsagt Takk fyrir mig!


No comments:

Post a Comment