Sunday, September 16, 2012

upplifun, innlifun og virkni

Ég er með það á heilanum um þessar mundir (og hef haft um skeið) að nýta spunaspil i kennslu og hef feimnislega verið að prófa mig áfram með það. Þessi pæling tengist því sem mér finnst mikilvægt það er að auka virkni nemenda og þátttöku í eigin námi. Margvíslegar og ýmsar aðferðir aðrar eru til til að gera þetta, mikil ósköp, og ég hef prófað margt í þeim efnum, stundum með góðum árangri, stundum síðri.

Ég held að virkni hljóti að einhverju leyti að felast í upplifun og innlifun. Ég er þess nokkuð viss að tungumálanám verður best við þær aðstæður að maður upplifi eitthvað og sökkvi sér í það og orðin og málið tengjast inn í net upplifunarinnar og mynda síðan þekkingu og færni til frambúðar. Próf og eyðufyllingar gera þetta kannski fyrir suma, en ekki alla.

Ég hef þá skoðun að samræður, sögur og leikir séu besti farvegur sem í boði er. Spunaspilin hafa þann dásamlega eiginleika að vera þetta allt í senn. En eins og þau liggja fyrir hafa þau ýmsa ágalla - áskorunin er að sníða þá af og skapa kröftugt, frumlegt og nýstárlegt tæki til náms; upplifunar, innlifunar og virkni!

No comments:

Post a Comment