Friday, February 5, 2016

Bekkjarkerfi og áfangakerfi

Datt í hug að velta hérna upp klassísku umræðuefni innan framhaldsskólans á Íslandi, bekkjarkerfi og áfangakerfi. Ekki er að sjá að þetta efni hafi verið mikið rannsakað beinlínis, en kannski er þetta vinkill í stóru framhaldsskólarannsókninni. Ég ætla eiginlega bara að setja fram nokkra punkta sem allir bjóða upp á frekari útfærslu.

Á undanförnum árum og áratugum hafa verið stofnaðir allnokkrir framhaldsskólar á Íslandi. Allir sem einn hafa þessir skólar verið áfangaskólar, eða einhvers konar tilbrigði við áfangaskóla, eftir því sem ég kemst næst hefur ekki verið stofnaður bekkjarskóli síðan MT (nú MS) var stofnaður. Þetta er áhugavert í ljósi þess að þegar umsóknir nemenda um skóla eru skoðaðar njóta bekkjarskólar umtalsvert meiri vinsælda en áfangaskólar.

Í framhaldi af þessu hafa svo allar námskrár sem samdar hafa verið um langt skeið gengið út frá áfangakerfinu sem normi. Öll nálgun í kringum breytinguna sem nú er að ganga yfir kerfið (sem er betur þekkt sem 'stytting') er áfangakerfismiðjuð, og þrátt fyrir mikið tal um 'frjálsa nálgun skóla' þá er það orðið þannig að þeir skólar sem eru bekkjarskólar hafa velflestir fellt kerfið sitt inn í ramma áfangakerfisins.

Bekkjarkerfið býður upp á miklu fleiri tækifæri til margskonar uppbrots á skólastarfi. Þverfagleg verkefni, vettvangsferðir (innan- og utanlands) eru mun auðveldari viðfangs. Að mörgu leyti hentar bekkjarkerfið betur fyrir fjölbreyttar kennsluaðferðir en áfangakerfið. Þó að tilfellið sé að í  hugum fólks sé sterk tenging milli íhaldssemi (mikil próf, einstefnumiðlun í kennslu, lítið val) og bekkjarkerfisins þá held ég að sú tenging sé alfarið ónauðsynleg, enda er t.d. lýðræðislegi framhaldsskólinn í Kaupmannahöfn (Det Frie Gymnasium) bekkjarskóli.

Bekkjarkerfið veitir félagslegt og námslegt öryggi og tryggir ákveðið lágmarksfélagslíf fyrir alla nemendur. Það getur að vísu verið vont að vera í slæmum bekk og það getur verið erfiðara að skera sig úr, og þannig leitt til ákveðinnar meðalmennsku.... í raun minni háttar vandamál í mínum huga.

Val er vissulega erfiðara viðfangs og verður minna í bekkjarkerfi. Ég held þó kannski í því samhengi, sbr. punktinn um kennsluhættina, geti verið að það skipti meira máli 'hvernig' og 'hjá hverjum' þú lærir frekar en nákvæmlega hvað viðfangsefnið er. Þannig getur þróttmikil og flott íslenskukennslu gefið af sér margt sem fengist kannski síður þó maður gæti valið heimspeki, listasögu og myndlist - heimspeki-, listasögu og myndlist er hægt að kenna með galómögulegum hætti þannig að nemendur fái ekki baun útúr því... Áfangakerfið leiðir til þess að hugsað er einhliða út frá kennslugrein, en hlutir eins og aðferðir, og hugsanlega bara viðhorf og nálgun kennara sem fagmanna gleymist kannski.

Samfella í námi getur orðið meiri í bekkjarkerfi, kennari hefur tækifæri til að sinna því að fylgja hóp yfir heilan vetur í gegnum erfið viðfangsefni og getur þannig náð dýpt sem síður er hægt að ná með því að brjóta allt upp og byrja upp á nýtt á 3 mánaða fresti. Sú galna hugmynd sem er ríkjandi á Íslandi (reyndar bæði í bekkjarskólum og áfangaskólum) að prófa verði úr og meta hvert einasta skitterí sem kemur fyrir í námsferlinum er hugsun sem við þurfum að losa okkur við.

Að síðustu vil ég svo varpa þeirri spurningu fram hvort að það sé möguleiki að brottfall og ýmis önnur vandamál sem herja á framhaldsskólanna væru minni ef fleiri skólar væru bekkjarskólar, eða ef bæði kerfin hefðu fengið að njóta sannmælis í þróun og stefnumótun innan framhaldsskólans?


No comments:

Post a Comment