Ég var að byrja að undirbúa mig í gær fyrir önnina og lýst nú bara vel á. Ég ætla mér að setja aftur líf í að reyna að beita starfendarannsóknum í starfi mínu og þá er stóra glíman fyrir mig að reyna að halda dagbók. Einn möguleiki / hluti nálgunarinnar gæti verið.... og verður .... að blogga - en það er sumt sem kannski passar ekki í blogg... Hluti undirbúningsins í gær var að gera áætlun í Hei103, þar ætla ég að prófa að beita lýðræðislegum aðferðum að hluta og leyfa nemendum að velja kaflana úr bókinni sem við tökum fyrir - svona bundið lýðræði, en ætti að vera ágætt líka til að kveikja áhuga og umræður, ég leyfi ykkur að fylgjast með :-)
Hef svo verið rosa mikið að pæla í samlíkingu kennara og listamanna. Ég held að oft sé litið þannig á að kennarinn sé performer og nemendur áhorfendur. Ég held því fremur fram að nemendur séu fremur hluti af efnivið kennarans og verkið sé heildin sem kannski á sér ekki beint neinn áhorfenda, nema að það sé tekið til sérstakrar rannsóknar. Þessar pælingar og svo almennt þetta AR brölt á (vonandi) eftir að rúlla inní mastersverkefnið mitt sem ég er að fara að djöflast af stað með.... svo finnst mér líka gaman að pæla í því að sumir kennarar séu svona avant garde listamenn, sumir meiri djassarar eða jafnvel pönkarar o.s.frv. Ég held að kennarar eigi það líka sameiginlegt með listamönnum að vera í starfinu að verulegu leyti af ástríðu en ekki fyrir laun eða virðingu auðsýnda stéttinni....
Væri gaman að hafa smá samræðu um þetta á einhverjum vettvangi. Ég er líka svoldið upptekinn af því að bæði varðandi kennslu og listir þá er ákveðin mýstík um meðfædda og ókennanlega hæfileika sem ég hef ákveðin áhuga fyrir að hrista upp í, þó ekki sé náttúrulega hægt að afsanna þá. Ég velti líka fyrir mér hvort þessi samlíking ætti að hafa áhrif á menntun kennara, færa hann nær kennslu í listgreinum og handverki og lengra frá bóklegum og fræðilegum nálgunum.... svona bara pæling.
Segi annars gleðilegt ár og ég vil endilega fara að fá fleiri menntabloggara í gang!
No comments:
Post a Comment