Þar eð ég nenni ekki alveg strax að fara að fara yfir eitthvað af bunkunum mínum hérna þá ætla ég aðeins að þjálfa bloggvöðvanan. Ég hef reyndar verið að spá í hvort það mætti líta svo á að ásamt með hollri fæðu, hreyfingu sé bloggun eitthvað sem maður ætti að hressa sig við með daglega, þó ekki væri nema 10-15 mínútur á dag. Það er svo gaman ef einhver les en aukatriði.
Í nóvember var ég instrúmental í að hóa nokkrum kennurum saman til að pæla í ólíkum málum. Fyrra dæmið var kvöldstund með Þorsteini Mar, rithöfundi og dýflissumeistara, þar sem hann sagði frá möguleikum á notkun spunaspila í kennslu, almennar pælingar í kringum það og reynslu sína af þessu. Við vorum fá mætt en kynning Þorsteins var frábær og opnaði upp fyrir mér þennan dásamlega undarlega heim og sé ég í þessu fjölmarga möguleika. Bæði tel ég að notkun á spilum af þessu tagi í kennslu og tómstundastarfi beint sé mjög spennandi og vannýtt, og svo held ég að leikvæðing (gamifying) margra kennsluaðferða og hópvinnumódela sé spennandi og vaxandi svið. Ég var einmitt rétt í þessu að ræða við samkennara minn sem sagði mér frá því að hann notaði uppsetningu á spurningakeppni til að rifja upp goðafræði í íslensku - ekki held ég það væri síðra að setja upp spil með aðstæðum þar sem spilarar væru goð og jötnar! Hugmyndin er að hafa framhald á þessu og taka þá nokkrar spilasessjónir vorönn 2012. FEKI, Félag heimspekikennara og Hugleikjafélagið voru þátttakendur í þessu!
Síðar í nóvember áttum við í Félagi heimspekikennara frábæra kvöldstund með Hauki Inga Jónassyni, guðfræðingi, sálgreini og leiðtogapælara. Haukur gagnrýndi þar ástundun heimspeki í akademíu og víðar, og þá einkum fyrir að þeir sem stæðu fyrir heimspekinni væru ekki í tengslum við sjálfan sig og miðluðu einhverjum fræðum án þess að vera sjálfir til staðar. Kynnti hann jafnframt hagnýtar aðferðir til að leiða samræður og fást við vandræðapésa. Grunnhugmynd Hauks lýtur að svokölluðu 'djúpsæi' þar sem kennari / leiðtogi kemur fram sem heild og hefur náð að tengja saman alla eðlisþætti sálar sinnar. Áður hef ég heyrt Hauk segja að heimspekikennarar eigi að stunda 'hispurslausa sjálfstjáningu' sem að nær vel að lýsa hvað um ræðir. Við vorum í Versló á kennarastofunni, sátum í hring, umræður urðu djúpar og myndaðist sérstök orka og ég held allir hafi haldið heim með mikið til að vinna úr, og vonandi er þetta bara byrjunin á samstarf félagsins við Hauk. Hugmyndir hans má svo m.a. lesa um í skemmtilegri bók sem heitir Leiðtogafærni - og svo er væntanleg bókin Samskiptafærni. Meðhöfundur hans að bókunum er Helgi Þór Ingason.
Ég held að oft sé hægt að ná miklu með svona litlum kvöldsamkomum og vona að ég eigi eftir að vera með í meira af svona skemmtilegheitum....
No comments:
Post a Comment