Sumarið 2024 hefur farið mikinn umræða um endurupptöku samræmdra prófa og mikið vesenast í núverandi fyrirkomulagi námsmats í grunnskólum. Sitt sýnist hverjum eins og gengur, og eins og oft áður endar minn ágæti vinnustaður, Versló, milli tannanna á fólki í þessu samhengi, en það er nú bara eitthvað sem venst eins og hvað annað.
Eins og ég hef nú að ég held fjallað um annars staðar þá held ég að of lítið af prófum sé ekki vandamál í íslenskum skólum, heldur frekar alveg þveröfugt. Málið er hins vegar það að við erum með mikinn fjölda prófa með tiltölulega lítið vægi í hverju prófi en hins vegar ekki með stór lokapróf þar sem mikið er undir. Grunnurinn að hugsuninni sem þarna er á ferðinni hefur verið kalla símat og ég held að áfangakerfið sem liggur til grundvallar í framhaldsskólum sé undirrótin að þessari þróun og hafi sú hugmyndafræði smitað niður í amk. efstu bekki grunnskóla. Í þessu kerfi er sú pæling alsráðandi að allt sem gert er sé metið og nemandinn er þannig í stöðugri mælingu. Líkja má nemandanum í þessu kerfi við sjúkling á gjörgæslu þar sem öll lífsmörk eru stöðugt mæld í rauntíma.
Áfangakerfið íslenska líkist mjög bandarískum skólum að mörgu leyti en eina landið í Evrópu sem hefur tekið upp svipaða siði er að ég held Svíþjóð. Hérlendis fylgir þessu kerfi líka mjög mikið sjálfræði kennara um marga hluti tengda mati, námsefni og kennsluaðferðum. Þetta sjálfræði er samt á vissan hátt ákveðin blekking vegna þess að innan skóla og milli kennara tíðkast víða mikil samræming sem gerir að starfið einkennist af stöðugum málamiðlunum, einkum í stærri skólum.
Önnur kerfi sem ég þekki ágætlega eru danska kerfið og svo það enska. Grunnskóla og framhaldsskóla í Danmörku lýkur með samræmdum prófum í sjö greinum bæði munnlegum og skriflegum. Kerfið og uppleggið í kringum þessi próf er mjög flókið og metnaðarfullt. Kennnarar eru skipaðir sem prófdómarar í skriflegum og munnlegum prófum, ferðast landshluta á milli og er þetta flókin, vel skipulögð og öguð framkvæmd - og alveg rándýr. (https://www.borger.dk/skole-og-uddannelse/Folkeskolen-privatskoler-efterskoler/Bedoemmelse-og-evaluering/test-og-meddelelsesbog)
Enska kerfið er um margt ekki alveg ólíkt því danska, þar lýkur lýka bæði grunn og framhaldsskóla með stórum samræmdum prófum, svokölluðum GCSE og A-level prófum. Kerfið þar er miðstýrt eins og það danska, en munurinn sá að það eru ekki munnleg próf og prófin koma utanað og eru skrifuð og metinn af utanaðkomandi sérfræðingum en ekki starfandi kennurum. (https://en.wikipedia.org/wiki/GCSE).
Hvorugu þessara landa dettur í hug að hafa próf bara í þremur greinum líkt og við höfum tíðkað, en svo ég rifji upp líkinguna við sjúkrahúsið, þá má segja að nemendur mæti þá í grúndíga skoðun á nokkurra ára fresti en sleppi við að vera með blóðþrýstingmælin fastan á sér alla daga.
Þar sem ég hef reynslu af því að vera nemandi í enska kerfinu (að vísu mun eldri útgáfu) og kennari í danska kerfinu þá sé ég á þessu kosti og lesti. Þar sem dönskum tekst að hafa prófin þannig að þau eru ekki algjörlega múlbundin einstökum smáatriðum í yfirferð og námsefni þá virkar það smá öfugsnúið en prófin frelsa kennarana til að vera sjálfstæðari í vali á námsefni og vinnubrögðum. Mig grunar sterklega að svipað gildi í grunnskólanum líka. Spurningin "er þetta til prófs" eða "hvað gildir þetta" er óþekkt. Varðandi enska kerfið þar sem efnið og uppleggið fyrir prófin liggja eru mjög stýrandi fyrir kennarann. Það liggur fyrir að ákveðin klasi af efni sé til prófs, og það er vitað nákvæmlega hvernig prófið verður og þannig eru enskir kennarar frekar heftir í starfi virðist mér. Hins vegar má líka segja að efnið og skipulagið sem lagt er upp er hannað af sérfræðingum og alls ekki svo galið að mörgu leyti. Tími sem fer hjá íslenskum kennurum í að leggja línurnar um námsmat, námsefni og svo framvegis með kollegum og að sama skapi hjá dönskum er tími sem enski kennarinn getur lagt í eitthvað annað. Kannski er frelsið ekki endilega alltaf yndislegt, eða hvað?
Annað atriði sem ég held að skipti samt máli er að þegar það er stórt utanaðkomandi próf eins og hjá enskum og dönskum þá getur kennarinn myndað ákveðna samstöðu með nemendum gagnvart hinum utanaðkomandi óvini. Kennarinn hefur þá mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna og er ekki í þeirri erfiðu stöðu að eiga að vera hvort tveggja í senn sáluhjálpari, uppfræðari og sú sem ákveður hvort Sigga litla kemst í Versló eða ekki. Þetta eru ekki rök í sjálfu sér með upptöku samræmdra prófa, en hins vegar gefur þetta ákveðið drama og lit í tilveruna sem vantar aðeins í okkar kerfi sem er óneitanlega frekar svona rúðustrikað og færibandalegt.
Ef það á að taka upp eitthvað svona kerfi og gera þannig að vit sé í krefst það mikils undirbúnings, yfirlegu og gríðarlegra fjármuna. Að klastra saman einhverjum rafrænum krossaprófum í tveimur eða þremur námsgreinum og setja það í hendurnar á einhverjum örfáum sérfræðingum að semja og græja og gera þá er það umtalsvert verr af stað farið en heima setið. Að mínu mati væri kannski gaman að taka saman einhvera tölu um það hvað almennilegt svona kerfi myndi kosta og setja þá peninga svo í að stórefla kennslu í skapandi greinum og íþróttum, nú eða til að hækka laun kennara, tja, kannski til að tryggja til langframa að enginn nemenadi eða kennari starfi í heilsuspillandi umhverfi vegna myglu, efla íslenskukennslu fyrir nýja íslendinga eða hvað veit ég. Ég held að listinn af því sem mætti setja fé í í menntakerfinu sem myndi skila einhverju fallegra og betra en að hlunkast af stað með þessi próf aftur sé mjög langur.
Og í blálokin: það gæti verið pæling að taka upp siði danskra með að notast meira við munnleg próf, það er virkilegt stuð og stemming að vera með í svoleiðis seremóníum.